17.11.1987
Efri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Guðrún Agnarsdóttir:

Hæstvirtur forseti. Þegar menn hlusta ekki grannt eftir skilja þeir ekki það sem sagt er. Það kom fram í máli mínu áðan, hæstv. fjmrh., að Kvennalistinn er hlynntur skattaálagningu á þá sem mest eiga fjármagn og þetta hlýtur reyndar hæstv. ráðherra að vita síðan á síðasta kjörtímabili og ekki síður síðan í vor þegar við sátum saman í stjórnarmyndunarviðræðum. Þá kom þetta skýrt fram og ef ég man rétt var hæstv. núverandi ráðherra sama sinnis þá. Þeir sem hæsta hafa einkaneysluna eru jafnframt best aflögufærir í þeim efnum.

Hvað varðar sjóði atvinnuveganna og hlutverk ríkisins í að fjármagna þá kom það einnig skýrt fram í máli mínu að ég áleit það skyldu hins opinbera að stuðla fyrst og fremst að því að tryggja nýsköpun og rannsóknir í gegnum þessa sjóði. Það væri meginhlutverkið. Og hvað varðar fullyrðingar hans og það að hann geri lítið úr spám mínum fyrir næsta ár t.d., en viðurkennir síðan sjálfur þá óvissu sem við blasir, bæði í efnahagskerfi hérlendis og eins erlendis, því að í því eru auðvitað stærðir sem við höfum enga stjórn yfir og eru ráðandi í okkar litla, opna efnahagskerfi, þá þykir mér þetta ekki sanngjarn málflutningur nema hann vilji e.t.v. vísvitandi gera lítið úr málflutningi Kvennalistans, en við skulum bíða og sjá hvernig spinnst úr framvindunni.

Hvað varðar sveitarfélögin langar mig að vitna í málflutning hv. þm. Málmfríðar Sigurðardóttur þar sem hún talaði fyrir hönd Kvennalistans um fjárlögin, en hún segir svo um útgjöld sveitarfélaga, með leyfi forseta:

„Til þess svo að mæta auknum útgjöldum sveitarfélaganna á að koma framlag úr Jöfnunarsjóði. Umfjöllun frv. á málefnum Jöfnunarsjóðs er nú reyndar meiri háttar heilaleikfimi. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta, að „lögbundnar tekjur sjóðsins ættu að vera 1 milljarður 655 millj. kr.“ Um nokkurt árabil hafa tekjur sjóðsins verið skertar. Væri sama skerðing í gildi 1988 og er 1987 næmu tekjur hans 1 milljarði 135 millj. kr. samanborið við 984 millj. kr. samkvæmt endurskoðaðri áætlun fyrir árið 1987. Í þessu frv. er við það miðað að til sjóðsins renni alls 1 milljarður 485 millj. kr. á árinu 1988, en það er 350 millj. kr. hærri upphæð en tekjur sjóðsins yrðu væru þær skertar á sama hátt og í ár.“

Síðan heldur áfram: „Ég bendi hv. þm. á að lesa vendilega þennan kafla. Það þarf að lesa hann oftar en einu sinni til að ná þeim þankagangi sem þarf til að setja tiltölulega einfalt efni fram á svona máta. Málið er að væru tekjur sjóðsins eins og lög mæla fyrir væru þær 1 milljarður 655 millj. en verða 1 milljarður 485 millj. Skerðingin er 170 millj. með einföldum orðum.“

Ég vil líka ítreka að hv. þm. Málmfríður Sigurðardóttir var ekki sú eina sem var uggandi yfir því hvernig sveitarfélögin eiga að mæta þessari nýju verkaskiptingu hvað varðar fjármögnun ýmissa liða sem ég hirði ekki um að telja til að lengja ekki umræðuna. Það eru afskaplega margir sem eru uggandi yfir hag sveitarfélaganna í framtíðinni, hvernig þau eiga að mæta þessu.