17.11.1987
Efri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Virðulegi forseti. Í tilefni af orðum síðasta hv. ræðumanns vil ég ekki metast á við hann um höfundarrétt á hugmyndum, en einhvern veginn kannast ég við orðalagið. Orðalagið er komið beint upp úr samstarfsáætlun núverandi ríkisstjórnar. Þar er lögð á það mikil áhersla að því er varðar endurskoðun á hlutverki ríkisins og endurmat ríkisútgjalda að á hverju ári fari fram til undirbúnings fjárlagagerð róttæk heildarendurskoðun á einum mikilvægum málaflokki a.m.k. á hverju ári. Að því leyti er ég alveg sammála hv. þm.

Að því er varðar sólund, Parkinsons-lögmál getum við sagt, í miðstýrðu embættismannakerfi af því tagi sem við búum við í veigamiklum greinum, þá kann að vera nokkuð til í því að aukin valddreifing og aukin ábyrgð forsvarsmanna í hinum smærri einingum væri rétt leið til að stuðla að meiri ráðdeild, minni sólund. Það er nákvæmlega þessi hugsun sem býr á bak við vilja núverandi ríkisstjórnar til að framkvæma áratuga gamalt baráttumál sveitarstjórnarmanna um að breyta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og er í því fólgið að færa verkefni frá miðstjórnarvaldi ríkisins til hinna smærri eininga, sveitarstjórna, hafa reglurnar um samskipti þessara aðila hreinar og klárar þannig að saman fari framkvæmdafrumkvæði og fjárhagsleg ábyrgð hvors aðilans um sig. Og af því að sérstaklega var nefnt dæmið um grunnskólana er það einmitt meginviðfangsefnið í öðrum áfanga þessarar verkaskiptingarstefnu að þá verða það einmitt fleiri verkefni sem færast úr farvegi flókinna samskiptareglna sveitarfélaga og ríkis að hluta til, eins og grunnskólinn, algjörlega yfir til sveitarfélaganna samkvæmt þeim tillögum sem sveitarstjórnarmenn hafa sjálfir lagt til, en þá hins vegar hluti af heilbrigðiskerfinu, eins og t.d. sjúkrahús, yfir til ríkisins. Hafi hinn ágæti fræðslustjóri í Norðurlandi eystra treyst sér til að reka grunnskólakerfið þar með 30 millj. kr. hagkvæmari hætti og betri þjónustu er það ágætt dæmi, ef það stenst, um ágæti þeirrar stefnu sem núverandi ríkisstjórn er að framkvæma.

Að því er varðar þá athugasemd hv. þm. Ásmundar Stefánssonar að ég hafi ekki leiðrétt þær tölur sem hann nefndi um verðhækkunaráhrif af matarskatti, þá fer það eftir því hvaða forsendur hann gefur sér. Var hann að meta afleiðingar af áformuðum 10% matarskatti 1. nóv. eða var hann að leggja mat á verðhækkunaráhrif af þeirri heildarendurskoðun sem fram fer á kerfi óbeinna skatta, þ.e. tolltaxtakerfinu og söluskattskerfinu? (ÁsS: Af því að taka mat undir sama skatt og annað.) Já, svarið við því er ósköp einfaldlega það að þá eru upplýsingar hans, þótt þær kunni að vera réttar svo langt sem þær ná, villandi því auðvitað ber að líta á heildaraðgerðirnar og þá sérstaklega lækkun tolltaxta og breytingarnar á söluskattskerfinu. Þá eru þessar verðhækkanir eins og ég sagði 1%, ekki 3,5%, og því næst er um að ræða að meta tekjujöfnunaraðgerðirnar líka.

Að því er varðar athugasemdir hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur vil ég aðeins staldra við fá atriði. Sé það vilji þm. að þeir sem eiga stærstan hlut í einkaneyslunni beri stærstan hlut í sköttum til ríkisins skil ég það svo að það sé stuðningur við þá stefnu núverandi ríkisstjórnar að leggja aukna áherslu á neysluskatta vegna þess að þá ræður hver sem neytir hvað hann leggur á sig stóran hlut og þeir sem meiri hafa fjárráðin neyta meira og greiða þar af leiðandi meira til ríkisins.

Að því er varðar spurninguna um fjárfestingarlánasjóði var það enginn misskilningur að hv. þm. var að mælast til þess að af fjármunum almennings væru lögð fram meiri framlög til sjóða. Það er öndvert við þá stefnu sem þessi ríkisstjórn fylgir. Sjóðirnir eiga sem mest að ávaxta sig sjálfir. Þetta kemur rannsóknum ekkert við vegna þess að það er að sjálfsögðu stefna þessarar ríkisstjórnar að leggja fram fjármuni til grunnrannsókna og ýmissa hagnýtra rannsóknarverkefna, ekki endilega með því að reka ríkisstofnanir í því miðstýrða kerfi sem hv. þm. Júlíus Sólnes var að nefna heldur með því að efla sjálfstæði rannsóknastofnana en kaupa heldur verkefni og þjónustu eftir því sem tilefni gefst til.

Að lokum, virðulegi forseti. Það var ekki annað að skilja á málflutningi hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur en að hún væri að taka undir kröfur um að sveitarfélögum væri nauðsyn á að hækka útsvar. Af því tilefni vil ég bara segja þetta: Sé þetta rétt er hv. þm. að lýsa stuðningi sínum við það að skattbyrði í hinum nýja tekjuskatti beinna skatta verði aukin um 1700 millj. kr. á næsta ári sem þýðir aukin útgjöld vegna aukinnar skattheimtu sveitarfélaga, 7000 kr. á hvern einasta einstakling eða á bilinu 25–30 þús. kr. fyrir hverja vísitölufjölskyldu í landinu. Ef þetta er skattastefna Kvennalistans óska ég þeim til hamingju með það. Þetta er ekki mín skattastefna:

Það er rétt að geta þess í leiðinni varðandi útsvarið að hinn nýi staðgreiðsluskattur er nú þannig að staðgreiðsluútsvarið leggst á tekjur frá núll krónum þannig að það er ekki heldur um það að ræða að skattfrelsismörkin séu einhver. Þau voru þó 24 þús. kr. á yfirstandandi ári. Ef þessari stefnu væri framfylgt þýddi það líka að skattfrelsismörk í tekjuskatti til ríkisins mundu einnig lækka sem samsvarar 1500 kr. á mánuði fyrir einstakling sem eru veruleg útgjöld. Ef þetta er sú skattastefna sem Kvennalistinn er að boða verð ég að játa að ég er henni eindregið ósammála.