15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

24. mál, ráðstafanir í ferðamálum

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð vegna þess þingmáls sem hér er til umræðu. Hv. ræðumenn, sem hér hafa talað á undan, hafa sérstaklega gert 2. lið tillögunnar að umtalsefni og undrast að stjórnarþm. skuli flytja till. til útgjaldaauka frá því sem væntanlegt er í fjárlögum og lánsfjárlögum. Ég minni á í þessu sambandi að hér er verið að gera tillögur um ákveðna stefnumótun í ferðamálum sem, ef samþykktar verða, verður að fylgja eftir með auknum fjárframlögum.

Ég vil einnig minna á að fjárlagafrv. er nýlagt fram og er til vinnslu í hv. Alþingi og mun væntanlega ekki verða að lögum fyrr en rétt fyrir jól. Það er engin nýlunda að bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar fái samþykktar tillögur í fjárlagafrv. sem eru til útgjaldaauka. Auðvitað áskiljum við okkur rétt til að hafa skoðun á þeim málum eins og allir aðrir hv. þm.

Mín skoðun á þessu máli helgast af því að ég tel að í ferðamálum sé um mikla möguleika að ræða, hér sé um nýsköpun í atvinnulífi að ræða og aukin fjárframlög til þessara mála skili sér í auknum þjóðartekjum þegar til lengdar lætur og hefur reyndar nú þegar gert það. M.a. í mínu kjördæmi, á Austurlandi, eru ferðamálin einn mesti vaxtarbroddurinn í atvinnulífinu. Þess vegna hef ég skrifað upp á þessa tillögu, sem hv. flm. hefur gert ágæta grein fyrir, en vildi eigi að síður láta þetta koma fram við þessa umræðu vegna þeirra orða sem fallið hafa út af 2. lið tillögunnar.