17.11.1987
Efri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

106. mál, dagvistun barna á forskólaaldri

Unnur Stefánsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég gleðst yfir því að hv. 7. þm. Reykv. skuli flytja frv. til l. vegna dagvistunar barna á forskólaaldri frekar en taka fyrir annað mál, svo sem eins og það hvernig eigi að haga skoðun bifreiða, eins og hann minntist á hér áðan. Ég hef reyndar oft furðað mig á því hversu mikla umfjöllun ýmis mál fá hér á Alþingi og í fjölmiðlum, eins og t.d. sláturhúsamálið á Bíldudal. Svo virðast mál sem varða t.d. börnin okkar hverfa oft í skuggann fyrir ýmsum öðrum málum sem þykja stórvægilegri.

Þetta frv. er ítarlega unnið, en ég er ekki alveg sammála um þær leiðir sem hv. 7. þm. Reykv. fer varðandi þessi mál. Hann sagði í inngangsorðum sínum eitthvað á þessa leið: Móðirin er farin að vinna. Ég hef ekki vitað til annars en þess að mæður hafi alla tíð unnið og ekki síður hér fyrr á árum. Yfirleitt voru konur þá með mörg börn á sínum heimilum og margt fólk í vinnu, og ég held að þær hafi unnið þar manna mest þannig að ég er ekki alveg ánægð með þetta orðalag að móðirin sé farin að vinna. Ég held að mæður hafi alltaf unnið mikið.

Samkvæmt fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir því að sveitarfélögin verði sjálfstæðari varðandi ýmsa málaflokka, m.a. að þau taki alfarið til sín byggingu og rekstur dagvistarheimila. Um leið á að tryggja þeim ákveðið fjármagn úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem á að gera kleift að byggja upp dagvistarheimili, svo og ýmsa aðra þætti. Hins vegar hef ég svolitlar áhyggjur af því hvernig fer fyrir minni sveitarfélögum þegar þessi ráðstöfun verður komin á vegna þess að þau hafa minna fjármagn en þau stóru. Ég er hrædd um að fjármagnið verði ekki nægilegt frá Jöfnunarsjóði til þess að þau leggi í það að byggja dagvistarheimili og það finnst mér mjög miður.

Hér hefur verið rætt um ýmiss konar rekstrarform á dagvistarheimilum. Ég tel að það mætti gjarnan endurskoða og hef tjáð mig um það, m.a. í greinaskrifum, að rekstur leikskóla sé orðið úrelt fyrirbæri og er reyndar hissa á því að ekki skuli vera búið að breyta því fyrir löngu síðan. Eins og hv. 7. þm. Reykv. kom inn á áðan eru 64% giftra kvenna orðnar útivinnandi, þ.e. í fullu starfi, og það að fólki skuli enn þá vera boðin þessi þjónusta að vista börnin hálfan daginn, meðan sú breyting hefur orðið sem ég nefndi, finnst mér ekki vera í takt við tímann.

Mig langar aðeins til að benda á það að við ríkisspítalana, þar sem ég reyndar vinn, er opnunartími dagvistarheimila 12 stundir alla virka daga, auk þess 8 stundir á laugardögum. Við höfum í dag pláss fyrir 253 börn og vegna þess að við höfum opið svona langan tíma, sem er reyndar í framhaldi af því að fólkið sem nýtur þessarar þjónustu er vaktavinnufólk, þá komum við að til viðbótar 79 börnum vegna þessarar lengingar opnunartíma og vegna þess að fólkið hefur líka möguleika á því að hafa börnin þann tíma sem það er í vinnu, hvort sem það er í 40% vinnu, 60%, 80% eða 100%, þannig að 253 pláss höfum við en getum bætt við 79 börnum vegna þessa. Þetta finnst mér atriði sem sveitarfélögin þyrftu virkilega að fara að velta fyrir sér, hvort ekki sé hægt að nýta þessi heimili miklu betur.

Mín skoðun er sú varðandi dagvistarmál að ég tel að fólkið hafi í dag ekki nægjanlegt val um það hvar börn þess eru, þ.e. börn á forskólaaldri. Varðandi þetta frv., sem hv. 7. þm. Reykv. hefur lagt fram, finnst mér að ef ríkissjóður tekur þátt í þessum kostnaði með því að styrkja hvert dagvistarpláss, eins og þarna kemur fram, þá verði fólki mismunað varðandi það að við vitum að mörg börn í þéttbýli njóta ekki dagvistunar enn þá og fá börn í dreifbýli. Mér finnst því frekar koma til greina ef ríkið fer að taka þátt í þessum kostnaði, eins og það ætti kannski að gera, einhvers konar fjölskyldubætur eða fjölskyldulaun, þannig að ákveðin upphæð væri borguð frá ríki með hverju einstöku barni. Þannig hefðu foreldrar meira val um það hvort þeir væru einhvern tíma heima með barni sínu á forskólaaldrinum, einhverja mánuði eða ár, eða borguðu dagvistargjald. Hins vegar tel ég á móti að hækka mætti dagvistargjöldin um allt að 30%, þ.e. um 1/3 af því sem foreldrar borga nú af þessum kostnaði. Ég tel að það mætti hækka dagvistargjöld um allt að 30% og það mætti kannski hugsa sér að sveitarfélagið verði þessari prósentuhækkun til að byggja upp fleiri dagvistarheimili innan sinna vébanda. Það er sannarlega þörf á því. Með þessu er ég ekki að segja að það eigi ekki að halda áfram þeirri uppbyggingu því að ég tel að börnin hafi mikla þörf fyrir það að komast á dagvistarheimili.

Hins vegar er kannski allt of lítið um það rætt hvert uppeldishlutverk dagvistarheimila er. Ég tel orðið mjög tímabært að samin verði einhvers konar rammalöggjöf um kennslu og uppeldisstarf á dagvistarheimilum, kannski eitthvað í líkingu við það sem er kveðið á um varðandi grunnskólana. Ég held að foreldrar hljóti að gera þær kröfur til dagvistarheimilanna að þar fari fram markvisst uppeldisstarf og að því eigum við að stefna. Því er mikilvægt að rammalöggjöf um uppeldisstarf dagvistarheimila verði sett.

Að lokum, herra forseti, legg ég áherslu á það að foreldrar þurfi að hafa eitthvert val um það hvort þeir geti komið börnum sínum í dagvistun eða hvort þeir hafa einhver tök á því að vera með þeim heima.