17.11.1987
Efri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

106. mál, dagvistun barna á forskólaaldri

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Fram hefur komið að hér er hreyft máli sem sjálfsagt allir stjórnmálaflokkar lýsa stuðningi við meira og minna, hver þegn í þjóðfélaginu. En það kemur einnig fram, miðað við það hvað margir eru hér samankomnir í salnum þegar við erum að fjalla um þetta mál, að áhuginn er kannski svolítið mismikill þó að sú staðreynd að klukkan er nú farin að ganga sjö geti haft viss áhrif á það hverjir eru hér enn. Sama má segja í sambandi við áhuga fjölmiðla á umræðu um málið. Ég gerði það að gamni mínu að skjótast hér upp á fjölmiðlastófuna og líta á hvort þar væru ekki einhverjir eftir. Það var reyndar einn þar og ég held að það sé rétt að fram komi hver það var. Það var blaðamaður Tímans sem situr þar enn þá og fylgist með þessari umræðu af áhuga.

Það kom bæði fram í ræðu flm. og hv. 6. þm. Reykn. að ákveðin þróun hefur átt sér stað á undanförnum árum sem er þess valdandi að það er æ meiri þörf fyrir þjónustu á þessu sviði. Ég held að reyndar sé ansi langt síðan komið var að þeim mörkum að það þyrfti að gera stórátak í uppbyggingu og rekstri barnaheimila, jafnvel strax á þeim árum þegar hér settist að völdum ríkisstjórn sem taldi það alveg nauðsynlegt að breyta um stefnu í dagvistunarmálum, þ.e. að hverfa frá því sem lagt er til með þessu frv., að ríkið taki þátt í rekstri dagvistunarheimila. Þetta var ríkisstjórnin sem sat að völdum 1975–1976. Um áramótin 1975–1976 — ég held að ég fari örugglega rétt með ártöl — voru felld niður framlög ríkisins til reksturs dagheimilanna sem var helmingur kostnaðar við reksturinn. Og eins og nú er verið að gera í sambandi við uppbyggingu dagvistunarheimilanna var það gert í nafni þess að auka frelsi sveitarfélaganna og gefa sveitarfélögum aukin og ný verkefni.

Ætli það fari ekki eins nú og þá, nú þegar boðað er með þeim fjárlögum sem er verið að fjalla um í fjvn. að fella eigi niður framlög til uppbyggingar dagvistunarstofnana? Ætli endurtaki sig ekki sama sagan og gerðist þá, að fellt var niður framlag til reksturs dagvistunarheimila og tekjurnar sem sveitarfélögin áttu að fá skiluðu sér ekki? Það virðist stefna í sömu átt núna. Okkur er sagt að það eigi að bæta stöðu sveitarfélaganna með því að draga úr skerðingu Jöfnunarsjóðs en sú minnkun er ekki meiri en sú skerðing sem átti sér stað á síðasta ári úr Jöfnunarsjóði þannig að það liggur beint fyrir strax að enn er verið að færa sveitarfélögunum hið svokallaða frelsi án þess að frá hendi sveitarfélaganna fylgi neinn möguleiki til að notfæra sér það frelsi.

Hér hefur ýmislegt verið nefnt í sambandi við það hvernig skuli leysa fjárhagsmálin í sambandi við rekstur dagvistunarstofnana. Hv. 6. þm. Reykn. taldi mjög æskilegt að fyrirtæki væru styrkt til þess að reka dagvistunarheimili og hv. síðasti ræðumaður í þessum ræðustól á undan mér áleit rétt að fara inn á það svið að auka barnabætur í staðinn fyrir að koma á kerfi svipuðu og lagt er til í þessu frv. Það væri eðlilegra að láta þessar greiðslur ganga beint til foreldra en að slíkt kerfi væri byggt upp sem hér er lagt til. Ég er mótfallinn báðum þessum þáttum. Það er vitaskuld alveg sjálfsagt og ekki hef ég á móti því að fyrirtæki komi upp dagvistunarstofnunum fyrir sitt starfsfólk, en að það sé að einhverju leyti tengt opinberum rekstri held ég að sé ekki rétt þróun. Og varðandi hitt, að einstaklingunum sé veitt fjármagn úr hinum sameiginlega sjóði í því augnamiði að létta þeim byrðina að kosta börn sín á dagvistunarstofnanir, tel ég ekki rétt að setja þann krók á þá fjárveitingu. Sú fjárveiting á að ganga beint til sveitarfélagsins eða þeirrar opinberu stofnunar sem á að annast rekstur þessara stofnana.

Einnig kom fram að vafasamt væri að ríkið gæti staðið við þann þátt að greiða þetta fjármagn með hverju barni. Það sannaði staðan undanfarandi ár því að safnast hefðu upp skuldir hjá ríkinu. Ríkið hefði ekki staðið við sinn hlut í uppbyggingu dagvistunarstofnana. Þetta er alveg rétt. En ég held að þarna hafi fyrst og fremst skort viljann til að sinna þessu hlutverki. Á sama tíma og ríkið hefur ekki staðið í stykkinu gagnvart uppbyggingu dagvistunarstofnana hefur verið hægt að hefjast handa um alls konar framkvæmdir. Nægir að nefna flugstöðina sem byggð hefur verið á undanförnum árum og ansi miklum peningum eytt í. Þó að ekki hefði verið tekið nema brot af þeirri sóun sem hefur átt sér stað þar, þá hefði verið hægt að standa að fullu í skilum við sveitarfélögin á síðustu árum.

Ég vil sem sagt undirstrika það að ég fagna þessu frv. Það er gaman að því að forseti íslenskra erfiðismanna skuli koma hingað inn á Alþingi í hálfan mánuð og flytja frv. sem þetta. Ég vænti þess að frv. fái hér góðan byr þó að athafnir núv. ríkisstjórnar bendi kannski ekki beinlínis til þess að hún sé mjög félagslega sinnuð eða vilji leysa málin á þann máta sem hér er lagt til.

Ég tel að þetta verkefni megi ekki hverfa úr höndum ríkisins. Það er mjög hættulegt að vísa þessu eingöngu yfir á sveitarfélögin, ekki síst vegna þess að það er hætt við því að sveitarfélögin verði alltaf frekar vanmegnug til að sinna þessum störfum nema til komi ákveðinn stuðningur frá ríkissjóði.