17.11.1987
Efri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

106. mál, dagvistun barna á forskólaaldri

Flm. (Ásmundur Stefánsson):

Frú forseti. Ég þakka það og er mjög sáttur við þá málsmeðferð.

Mig langar aðeins að nota tækifærið til þess að fara yfir örfá atriði sem hafa komið fram í þessum umræðum. Ég vil byrja á því að þakka þeim sem eftir sátu að sinna þessu máli á þann veg sem raun ber vitni. Ég er satt að segja mjög þakklátur fyrir að ekki skyldi vera staðar numið við mína ræðu og síðan allir gengið úr salnum eins og klukkan á veggnum benti til að gæti orðið. Ég þakka fyrir það.

Hv. 6. þm. Vesturl. sagði í máli sínu hér áðan að ég ætti að hafa öðlast þá reynslu af samskiptum mínum við stjórnvöld sem samningsaðili að þar sé til lítils að eiga við mál. Ég vil vegna þeirra orða segja að ég hlýt að sjálfsögðu á þeim vettvangi að vinna eins og ég tel skynsamlegast hverju sinni og ég hlýt raunar líka sem einstaklingur að reyna að vinna þeim málum, sem ég tel mikilsvert að nái fram að ganga, stuðning og framgang á öllum þeim vígstöðvum þar sem ég hef aðstöðu til að ýta á eftir þeim. Þó að ég flytji hér frv. á Alþingi um að þessum málum sé sinnt, þá lít ég alls ekki svo á að á þessum málum megi ekki taka á vettvangi samningsaðila. Ég get út af fyrir sig tekið að verulegu leyti undir það sem hv. 6. þm. Reykn. sagði um það.

Ég vil líka ítreka að það er ekki rétt að verkalýðshreyfingin hafi alltaf samið í tilgangsleysi við stjórnvöld. Ég ætla ekki að fara að rekja alla þá þætti tryggingarmála og hinnar ýmsu löggjafar sem þannig hafa orðið til. Ég gæti minnt á atvinnuleysistryggingarnar. Ég gæti raunar líka minnst á fæðingarorlof, bætur lífeyristrygginga og ótalmargt annað. Ég ætla ekki að fara út í þá umræðu frekar, en þetta þótti mér nauðsynlegt að draga fram.

Ég vil taka undir það með hv. 6. þm. Reykn. að við stöndum hér frammi fyrir þjóðfélagsbreytingum sem eru staðreynd alveg eins og hún réttilega sagði: Hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Málið snýst ekki um það. Málið snýst um það hvernig við bregðumst við þeim breytingum sem orðið hafa. Við höfum reynt, svo að ég svari aftur sem samningsaðili, að taka tillit til þarfa fjölskyldunnar í kjarasamningum. Við höfum m.a., svo að ég minni á það atriði sem hv. 6. þm. Reykn. nefndi sérstaklega, samið um fráveru vegna veikinda barna. Það hefur ekki tekist að ná samningum um launalaus leyfi nema á mjög afmörkuðum stöðum, og þau eru í sjálfu sér ekki komin til af þessum hvötum, og það eru heldur ekki fyrir hendi almennar reglur til hlutastarfs. Má kannski minna á það í leiðinni að réttur fólks til þess að halda sínu starfi er samkvæmt þeim samningum sem við höfum gert satt að segja bundinn við það eitt að fá sitt uppsagnarbréf með réttum fyrirvara, þannig að rétturinn í þessu efni er kannski lítill í ýmsu öðru en bara þessu.

Það kom fram í máli þeirra sem hér hafa talað, að undantekinni ræðu síðasta ræðumanns, að þetta verkefni eigi að vera alfarið í höndum sveitarfélaganna — að vísu er ég þó væntanlega ekki að fara rétt með varðandi hv. 6. þm. Vesturl. — þetta sé mál sem ríkið eigi ekki að skipta sér af. Ég ætla að víkja að því betur á eftir, en vil aðeins segja nokkur orð um fyrirtækjadagheimili sem hér hafa verið nokkuð til umræðu.

Ég hef kannski ekki alveg eins afdráttarlausa afstöðu gegn því að veittir séu styrkir til dagvistarheimila á vegum fyrirtækja eins og mér fannst koma fram í máli hv. 4. þm. Vesturl. Mér finnst að það sé leið sem megi skoða, en ég sé hins vegar á henni ýmsa galla. Ég sé kostinn þann að með því er betri aðstaða til þess að aðlaga rekstur dagvistarheimilisins að þörfum fyrirtækisins, eins og bent var á í sambandi við dagvistarheimili sjúkrahúsanna, en það er auðvitað gallað líka að þar verður hópurinn nokkuð einlitur. Ég held að það skipti líka máli að með því væri í reynd verið að leggja nokkra byrði á þau fyrirtæki sérstaklega sem hafa konur í sinni þjónustu. Þetta vil ég ítreka vegna þess að þetta virðist vera eitt af því sem megi ekki segja. En það er staðreynd, sem ég vakti máls á í minni framsögu, að verkaskiptingin á heimilunum í dag er enn þá þannig að umsjónin með börnunum er á ábyrgð kvennanna á heimilunum. Það er hin almenna regla á íslenskum heimilum. Sú regla gerir ósköp einfaldlega það að verkum að þetta mundi leggjast þyngra á þau fyrirtæki sem eru með konur í starfi en þau fyrirtæki sem eru með karla í starfi og mér finnst að það sé ekki rökrétt. Mér finnst að þessum kostnaði eigi að dreifa á okkur öll. Við berum þarna öll sömu ábyrgðina.

Hv. 2. þm. Suðurl. gerði athugasemd við það að ég segði að móðirin væri farin að vinna. Það er hins vegar grundvallarmál. Hún er farin. Það er hún. Og það er út frá þeirri forsendu sem við erum að tala um málið. Hún er ekki lengur á heimilinu. Við getum í sjálfu sér látið orð fara í taugarnar á okkur, en ég held að við eigum engu að síður að reyna að venja okkur af því og tala um hlutina nákvæmlega eins og þeir eru, eftir því sem aðstaða er til. Þetta tel ég að eigi jafnt við þegar við tölum um þá verkaskiptingu sem við raunverulega búum við og þá þjóðfélagsbreytingu sem gengið hefur yfir. Ég tel að þetta sé lykilmál og þess vegna legg ég áherslu á það fyrir mitt leyti að ég tel hér um sérstakt hagsmunamál kvenna að ræða. Eins og verkaskiptingin er í dag leiðir ábyrgðin á heimilinu til þess að þjónustuskorturinn kemur meira niður á konunum en karlmönnunum. Breytingin er auðvitað líka sú að það eru konurnar sem hafa farið út að vinna frá heimilunum, þar voru þær meira áður. Með því er engan veginn verið að ýja að því að þær hafi ekkert gert. Það er dálítið sérstakur málflutningurinn í sambandi við fjárskortinn. Það er sagt að það sé erfitt að finna peninga fyrir þessu hjá ríkinu, og um leið hafðar uppi þær röksemdir að raunverulega eigi ríkið alls ekki að greiða styrk til dagvistarþjónustu heldur eigi það að borga öllum sömu greiðslu, hvort sem þeir njóta dagvistarþjónustu eða ekki. Ég reyni í grg. minni að draga það fram hversu miklar tekjur hins opinbera eru raunverulega af því þegar báðir framfærendur heimilisins eru úti á vinnumarkaðinum.

Ég vil líka segja fyrir mitt leyti, og það mega þeir sem vilja túlka sem forræðishyggju, að ég tel það grundvallarmál að framlög í þessu efni tengist því að verið sé að veita þjónustu. Ég er ekki á þeirri skoðun að það eigi að greiða skólastyrk og svo eigi foreldrar að ráða því hvort börnin fari í skóla eða ekki. Og ég er satt að segja á nákvæmlega sömu skoðun varðandi dagvistunarþjónustuna. (SalÞ: Hefur einhver þá skoðun?) Nei, það hefur sennilega enginn þá skoðun með skólana. En það virðast ýmsir hafa þá skoðun með dagvistarheimilin. Ég held að það sé rangt að hugsa málið út frá því sjónarmiði vegna þess að kjósi foreldrarnir greiðsluna, en noti hana svo til annars en veita barni sínu fullnægjandi dagvistunarþjónustu, þá kemur það niður á okkur öllum í framtíðinni. Og við berum ábyrgð á því að málið fari ekki á þann hátt.

Ég held líka að reynslan sýni okkur að tekjuaukning tryggir ekki að foreldrar ráðist í verkefni af þessu tagi. Þá væri málum satt að segja öðruvísi komið í íslensku þjóðfélagi í dag. Ég held því að það sé nauðsynlegt og að það sé grundvallarmál að framlagið tengist þjónustunni eins og raunar er um að ræða með flesta opinbera þjónustu af eðlilegum, skiljanlegum og rökréttum ástæðum. (SalÞ: Það má ekki vantreysta foreldrum til að annast forræði barna sinna.) Ef ekki þarf að vantreysta foreldrum þá verður enginn munur á niðurstöðunni hvort sem fólkið fær frelsið eða ekki. Þá er staðan ósköp einfaldlega eins og haft var eftir Henry Ford á sínum tíma: Fólk má velja sér hvaða lit á bílinn sinn svo lengi sem það velur svart. (Gripið fram í.) Það er akkúrat það sem málið snýst um. Allir þurfa að geta notið þessarar þjónustu. (Forseti: Forseti vill undirstrika að hv. 7. þm. Reykv. hefur orðið.) Já, en ég kann ekki illa við samtöl svo að ég er alveg sáttur við að það sé gripið fram í.

Þess vegna legg ég áherslu á að ég tel mjög nauðsynlegt að það sé einmitt greiddur styrkur úr ríkissjóði. Við getum út af fyrir sig litið á þann styrk sem sérstakan tekjustofn fyrir sveitarfélögin vegna þess að með því frv. sem hér er lagt fram er gert ráð fyrir því að reksturinn sé í höndum sveitarfélaganna. Hins vegar fái þau ekki styrki nema þau veiti þá þjónustu sem hér um ræðir.

Ég held, og það skulu vera mín lokaorð, að málið snúist alls ekki um það hvort við höfum efni á því að veita styrki til málefna af þessu tagi eða ekki. Ég held að við höfum alls ekki efni á því að gera það ekki. Auðvitað getum við rökrætt um það hvort þar eigi að koma til sérstakir tekjustofnar. Ég ætla hins vegar ekki að hefja þá rökræðu. En ég vil endurtaka það sem ég sagði í minni framsögu hér áðan: Ég tel mig hafa sýnt fram á það að tekjur ríkissjóðs af þeirri vinnu, sem verður til þegar báðir foreldrar ganga út á vinnumarkaðinn, eru þegar svo miklar fyrir að það er ósköp einföld réttlætiskrafa að börnin fái par einhvers notið á móti.

Ég vil að lokum þakka forseta sérstaklega þá vinsemd sem hún sýnir með því að leyfa umræðum að hafa sinn gang þó að klukkan haldi áfram að tifa.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.