17.11.1987
Neðri deild: 12. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (682)

42. mál, áfengislög

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það er allþversagnakennt að við skulum á hinu háa Alþingi vera að ræða frv. til laga um breytingu á áfengislögum sem heimilar bjórframleiðslu og aukið magn af áfengi í umferð hér á landi þegar flestar þjóðir veraldar, a.m.k. hinar vestrænu, eru að reyna að draga úr áfengismagni í umferð á öllum sviðum. Við þekkjum mörg dæmi um tilraunir t.d. stórveldanna, Sovétríkjanna og Bandaríkjanna, til að draga úr áfengismagni í umferð, til að draga úr og minnka aðgengi að áfengi o.s.frv. En þá stöndum við upp, þm. Íslendinga, og viljum auka við vandamál þjóðarinnar í þessum efnum.

Hér hefur mikið verið sagt eins og venjulega þegar bjórmál hefur verið á dagskrá. Ég vil segja það fyrst, herra forseti, að sú grg. sem fylgir því frv. sem hér er til umræðu er nánast með eindæmum. Hún er svo þversagnakennd að það er ekki eins og nokkur viti borin vera hafi komið nálægt skrifum hennar eða yfirlestri áður en hún var lögð fram hér á þingi. Mig langar að nefna um þetta nokkur dæmi og fa að lesa úr grg. nokkrar setningar, með leyfi forseta.

Hér segir m.a. í Ill. kafla: „Það er því ekki vansalaust fyrir Alþingi að horfa upp á þessa þróun án þess að móta löggjöf sem er í samræmi við tíðarandann og er til þess fallin að vinna gegn drykkjusýki.“ Löggjöf sem er til þess fallin að vinna gegn drykkjusýki!

Allar vísindarannsóknir sem fram hafa farið, m.a. á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, á vegum heilbrigðisstofnunar Bandaríkjanna, á vegum danska læknasambandsins, á vegum finnska læknasambandsins, á vegum sænska heilbrigðisráðuneytisins, sýna fram á það, og ég mun nefna dæmi um það hér á eftir, að áfengisneysla eykst gífurlega eftir því hve mikið magn af áfengi er í umferð, hve aðgengi er auðvelt o.s.frv. Það eru því engin rök sem styðja það að bjór muni draga úr áfengisneyslu, áfengissýki og alvarlegum afleiðingum áfengisneyslu, þvert á móti.

Þá segir hér í IV. kafla, með leyfi forseta: "Flm. telja að samræmi verði að vera í áfengislöggjöfinni. Það er óneitanlega óeðlilegt að heimila sölu á sterku áfengi en banna það léttasta og að margra mati þá tegund áfengisneyslu sem hefur minnst tjón í för með sér fyrir líf og heilsu fólks.“

Ég vil benda á það, herra forseti, að skýrslur vísindamanna, rannsóknastofnana og heilbrigðisráðuneyta margra þjóða sýna einmitt hið þveröfuga, að hjá áfengissjúkum þar sem bjór er leyfður er bjórinn langstærsti hluti þess áfengismagns sem menn innbyrða. Ég vil líka benda á það, sem hefur komið fram hér í umræðunum og er auðvitað athugunarvert og menn ættu að hugleiða svolítið, að flm. þessa frv. láta að því liggja að það sé einhver munur á bjór og öðru áfengi. Bjór er ekkert annað en áfengi. Alkóhól er alkóhól hvort sem það er drukkið í formi bjórs, víns eða brenndra drykkja.

Síðan segir hér, með leyfi forseta, í V. kafla: „Þá mun áfengt öl valda því að minna verði neitt af sterkum drykkjum sem er vafalaust skaðlegasta tegund áfengisneyslu.“ Þetta gengur þvert á niðurstöður allra rannsókna sem gerðar hafa verið á áfengisneyslu og mun ég koma að því síðar.

Í þessum sama kafla segir enn fremur: "Flm. telja, miðað við reynslu annarra þjóða, að til þess geti komið að heildaráfengisneysla á hvern íbúa aukist eitthvað við tilkomu áfengs öls án þess þó að það valdi aukinni ölvun eða drykkjusýki.“

Þvílíkar þversagnir! Það er margsannað að það er samræmi á milli aukinnar áfengisneyslu og aukinnar áfengissýki. Þessum staðreyndum hefur ekki verið haggað og verður ekki.

Síðan segir, með leyfi forseta: „Miðað við þessar forsendur er afar ólíklegt að tilkoma áfengs öls leiði til aukinnar drykkju á vinnustöðum, aukinnar drykkju unglinga eða valdi því að unglingar hefji drykkju yngri en nú gerist.“ Enn á ný gengur þetta þvert á allar vísindalegar niðurstöður.

Það er engin einasta niðurstaða vísindamanna eða rannsóknastofnana sem ég hef séð, og á þó stóra bunka af þessum rannsóknum, sem sýna að þetta sé rétt. Þvert á móti er þetta alrangt.

Þá segir hér, með leyfi forseta: „Þrátt fyrir mjög litla heildarneyslu áfengis miðað við aðrar þjóðir hefur komið í ljós að misnotkun áfengis og drykkjusýki er hér með því hæsta sem þekkist í veröldinni.“ Þetta gengur þvert á niðurstöður sem fram koma í skýrslum okkar bestu sérfræðinga um þessi mál. Þetta er ekki rétt.

Ég vil með þessum orðum, herra forseti, benda á að staðhæfingar flm. þessa frv. um áhrif bjórneyslu eru í grundvallaratriðum rangar og að því leytinu er þetta frv. mjög illa unnið og ætti þess vegna að gera á því stórfelldar breytingar.

Það hefur farið svo um okkur og er ekki óeðlilegt að við tölum stundum um þetta mál af fullmikilli tilfinningasemi. Ég hef hins vegar reynt að móta mína afstöðu til þessa máls á grundvelli bestu upplýsinga sem fáanlegar eru. Þessar upplýsingar hef ég í höndum. Ég gæti staðið hér og lesið marga klukkutíma upplýsingar hæfustu og bestu vísindamanna þjóða Vesturlanda og jafnvel austrænna þjóða sem sýna fram á að bjórdrykkja er verri áfengisdrykkja en flest önnur. Hún hefur miklu víðtækari áhrif út í samfélagið. Bjór er drukkinn víðar. Mönnum þykir það ekki tiltakanlega mikið mál að fá sér einn „öllara“ eins og það heitir, en það er heldur meira mál að fá sér brenndan drykk eða vín.

Við erum að ræða þessi mál hér í fullri alvöru á meðan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sendir frá sér hverja samþykktina á fætur annarri þar sem hún varar aðildarþjóðir sínar við því að auka aðgengi að áfengi eða auka áfengi í umferð og leggur fram ýmsar tillögur um hvernig eigi að draga úr hvoru tveggja. Þetta er í raun og veru alveg óskiljanlegt athæfi. Ég hygg að þeir menn sem standa að þessu frv. og hafa staðið að fyrri frv. um leiðir til bruggunar áfengs öls hér á landi geri sér ákaflega litla grein fyrir áhrifunum á heilbrigðiskerfið, á kostnaðinn við heilbrigðiskerfið upp til hópa og vanmeti áhrifin og afleiðingarnar fyrir þjóðfélagið í heild. Nú kann að vera að einhverjum þyki það vera bæði íhaldssamur og púkalegur maður sem talar á borð við mig. Ég hygg að svo sé ekki af þeirri einföldu ástæðu að það sem ég segi við þessa umræðu er byggt, eins og ég hef áður sagt, á bestu fáanlegu upplýsingum um áhrif áfengs öls á drykkjusiði, sem menn nefna svo títt að eigi að batna, áhrif áfengs öls á drykkjusýki, á kostnað heilbrigðiskerfisins o.s.frv. Allar eru afleiðingarnar af neikvæðum toga spunnar. Það er engin einasta sem ég hef rekist á jákvæð. Það er af þessum ástæðum að ég er algerlega andsnúinn því frv. sem hér er til umræðu.

Við skulum einnig átta okkur á því að þessi vandi nær langt út fyrir iðnríkin og þau ríki sem við gjarnan nefnum Vesturlönd. Vandi vegna bjórdrykkju er um þessar mundir kannski hvað mestur í löndum þriðja heimsins. Og af hverju skyldi það nú vera? Það er m. a. vegna þess að það hefur verið hert nokkuð að bjórframleiðslunni í iðnríkjunum með þeim afleiðingum að framleiðendur hafa orðið að finna sér nýja markaði. Og hvar hafa þeir gert það? Þeir hafa gert það í þróunarlöndunum. M.a. er talið að sala á áfengu öli í Afríku einni hafi aukist um um það bil 300% á síðustu fjórum árum. Áfengisauðvaldið þarf nefnilega að fá sína peninga og er sama hvar það tekur þá. Þetta er einn þátturinn í þessu stóra máli sem allt of lítið er ræddur.

Mig langar að nefna nokkrar staðreyndir af því að ég hef verið að vitna til þeirra. Við getum tekið hið fræga dæmi um sölu á milliöli sem var leyfð í Svíþjóð 1965. Þeir sem komu sölunni á milliöli í framkvæmd, fengu því til leiðar komið að framleiðsla yrði hafin, héldu því fram að neysla öls mundi draga úr neyslu sterkra drykkja. Reynslan varð gersamlega þveröfug. Tölulegar upplýsingar sýna að unglinga- og barnadrykkja jókst gífurlega og það svo að sænska þingið sá sér ekki annað fært en að banna framleiðslu og sölu milliöls frá 1. júlí 1977. Þetta var reynsla Svía.

Á fyrsta árinu eftir milliölsbannið í Svíþjóð minnkaði áfengisneysla Svía um 10% miðað við hreinan vínanda. Neysla öls minnkaði um 24% miðað við áfengismagn. Þetta var eftir að bannið tók gildi. Á milliölsáratugnum, eins og hann hefur verið kallaður í Svíþjóð, jókst áfengisneysla um 39,5%. Á sama árabili til samanburðar jókst neysla á Íslandi um 26,1%. Þarna er umtalsverður munur eða um 13,4%. Þá, þegar milliölið var bannað í Svíþjóð, leyfði félmrh. Svía sér að segja um þetta mál, með leyfi forseta:

„Ég er eindregið þeirrar skoðunar að á nýliðnu tíu ára tímabili milliöls í Svíþjóð hafi grunnur verið lagður að drykkjusýki sem brátt muni valda miklum vanda.“

Þessi orð reyndust á rökum reist. Þessi vandi kom fram 3–4–5 árum eftir að bannið tók gildi. Það verður auðvitað nákvæmlega það sama sem gerist hér.

Ég vil líka benda á það, vegna þess að væntanlega berum við flest umhyggju fyrir börnum okkar, að einn þekktasti læknir í félagslækningum í Svíþjóð, Gunnar Ågren, sagði um hörmulegar afleiðingar barna- og unglingadrykkju á milliölsáratugnum að þær væru að koma í ljós. Þær kæmu einkum fram í auknum heilaskemmdum hjá unglingum. Þær gerðust miklu tíðari meðal fólks á þrítugsaldri en verið hefði, einkum þó meðal þeirra sem komnir voru undir þrítugt. Einkennin voru minnisleysi og ýmsar taugatruflanir, lifrarmein og flogaveiki. Og menn skyldu ekkert gera grín að þessum sjúkdómum vegna þess að þeir eru einhverjir dýrustu sjúkdómar sem samfélagið fæst við. Og ég verð að skjóta því hér inn í, herra forseti, sem mér finnst oft þegar menn mæla fyrir frelsi af öllu tagi eins og því sem hér um ræðir, berja sér á brjóst heilbrigðir og hraustir og segja: Hér er ég. Ég á mitt líf. Ég á minn líkama. Ég get gert við hvort tveggja það sem ég vil. Þeir sömu menn, sem lenda í þeim háska, þeim vanda að verða áfengissýkinni að bráð, koma vesælir menn og eiga bágt þegar þeir banka upp á hjá samborgurunum og segja: Hér er ég. Ég get ekki meir. Nú verður þú að taka við. Og hver er það sem tekur við? Það er skattborgarinn. Hér komum við að því hugtaki sem nú er lagt til grundvallar þeirri heilbrigðisstefnu sem fylgt er yfirleitt í heiminum. Hún er sú að hver maður á í raun að bera ábyrgð á sínu lífi, heilbrigði sinni og líkama sínum í miklu ríkara mæli en verið hefur.

Nokkrar staðreyndir til viðbótar, herra forseti. Í Finnlandi var sala áfengs öls gefin frjáls 1968. Þá var áfengisneysla Finna minni en annarra norrænna þjóða að Íslendingum undanskildum. Eftir að sala áfengs öls hófst jókst drykkja gífurlega. Nú eru það aðeins Danir sem drekka meira áfengi en Finnar. Hins vegar telja margir, og ég held að við séum öll sammála um það, að drykkjuvenjur Finna líkist okkar drykkjuvenjum meira en hjá nokkurri annarri þjóð.

Á tímabilinu 1969–1974 jókst áfengisneysla Finna um 52,4%. Á sama tíma jókst neysla hérlendis um 35%. Það má bæta því við að þegar sala áfengs öls hafði verið leyfð í rúm tvö ár í Finnlandi hafði ofbeldisglæpum og árásum fjölgað um 51%.

Þá eru það fleiri staðreyndir. Á árabilinu 1966–1982 jókst áfengisneysla Íslendinga um 34,7%, Dana um 98% og Finna, en ölsalan varð frjáls 1969, um 146,2%. Svo berja menn sér á brjóst og segja í fullri alvöru í grg. með frv. af þessu tagi að áfengisneysla muni ekki aukast! Hvað erum við ólíkir Finnum sem nemur því að áfengur bjór muni ekki hafa sömu áhrif hér? Eða Svíum? Ég vil að menn dragi upp staðreyndir og bendi á þær þegar þeir fullyrða, eins og þeir gera í greinargerð með þessu frv., að þetta muni engin áhrif hafa eða nánast engin. Það muni kannski auka drykkjuna eitthvað en ekki áfengissýki eða alvarlegar afleiðingar áfengisdrykkjunnar.

Þá vil ég nefna að háskólarnir í Hamborg og Frankfurt rannsökuðu fyrir nokkrum árum áfengisneyslu ökumanna og ölvun við akstur í Þýskalandi. Rannsóknin leiddi í ljós að skaðvaldurinn, ef við getum orðað það svo, við þurfum ekki einu sinni að nota þessi leiðinlegu orð, er bjórinn, en um helming allra óhappa í umferðinni mátti rekja til hans.

Í Belgíu, ef ég má nefna fleiri dæmi, herra forseti, eru yfir 70% alls áfengis sem neytt er sterkt öl. Þar eru um það bil 95% allra drykkjusjúklinga öldrykkjumenn.

Ég gæti, herra forseti, rakið endalaus dæmi um rannsóknir af þessu tagi. Það er til þvílíkur ótölulegur fjöldi af skýrslum, af rannsóknum og niðurstöðum sem sýna að þetta er óvit, slíkur fjöldi að það ætti engum skynsömum manni að detta í hug að bæta þessari áfengistegund í áfengisforðabúr Íslendinga.

Ég minni á, herra forseti, að sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem hafa fjallað um áfengið sem eitt mesta heilbrigðisvandamál þessarar aldar í öllum iðnaðarríkjum, hafa mælst til þess við aðildarríkin að þau taki í áfengismálastefnu sinni mið af nauðsyn á ýmiss konar hömlum, því miður. Í þessum efnum hygg ég sem og margir aðrir að hömlur séu nauðsynlegar, hömluleysið sé heimskulegt. Þessi tilmæli eiga rót að rekja til þess að sérfræðingar þessarar stofnunar eru komnir á þá skoðun að aðgerðunum verði að beina gegn áfenginu sjálfu en ekki aðeins gegn ofneyslu þess. Það er í fullu samræmi við þær niðurstöður rannsókna undanfarinna ára að tjón er áfengisneyslu fylgir margfaldist ef heildarneysla eykst. Hér er verið að biðja um að þingið samþykki frv. sem tvímælalaust mun auka áfengisneysluna.

Ég hef sagt við ýmsa sem hafa verið að grínast með að ég skuli vera andstæðingur bjórsins: Ég skal tala við ykkur eftir 3–4 ár þegar afleiðingarnar af bjórneyslunni hafa komið fram. Þá skal ég ræða við ykkur. Þá skulum við ræða hvaða áhrif þetta hefur haft, hvaða kostnað þetta hefur haft í för með sér fyrir heilbrigðiskerfið. Og hvaða nauðsyn ber til þess að bæta þessari áfengistegund við allt það safn sem við höfum nú yfir að ráða? Ég vildi að einhver gæti svarað þessari spurningu, en það hefur enginn gert það. Menn segja: Þetta er mildara áfengi. Þetta er bara öl. Það er miklu betra að krakkarnir drekki þetta en brennivín. En hættan er einfaldlega sú að krakkarnir byrji fyrr að drekka ölið en brennivínið.

Í Danmörku hefst áfengisneysla unglinga í aldursflokkum sem eru fjórum árum neðar en rannsóknir hafa sýnt að áfengisneysla hefjist hér að einhverju ráði. Af hverju skyldi það nú vera? Getur ástæðan verið sú að það þyki ekki verulega mikið mál að fá sér einn „öllara“? Er það hugsanlegt? Ég vil líka benda á þá staðreynd að það hefur sýnt sig að áfengisneysla og einkum ölneysla meðal unglinga hefur leitt miklu frekar til neyslu á hassi og öðrum vímugjöfum en nokkuð annað. Þetta eru líka staðreyndir sem flm. þessa frv. verða að hugleiða þegar þeir flytja rök sín. Þetta er ekki bara sniðugt kosningamál eða vinsældamál. Það á ekki að vera það. Þetta er miklu alvarlegra mál en svo að menn geti tekið afstöðu til þess vegna þess að þeir telji að þetta sé vel til vinsælda fallið. Það gæti farið svo að þær vinsældir dvínuðu eitthvað innan örfárra ára þegar afleiðingarnar kæmu í ljós.

Herra forseti. Nokkrar staðreyndir í viðbót. Ég skal reyna að lengja ekki þessa umræðu. Það hefur mikið komið hér fram sem er bæði rétt og satt og ástæðulaust að þusa mikið um það. En ég bendi á eina staðreynd til viðbótar. Árið 1983 var gerð könnun á Borgerstad-sjúkrahúsinu í Porsgrunn í Noregi. Það ár voru 860 drykkjumenn og aðrir vímuefnaneytendur lagðir inn í þetta sjúkrahús. Sérstaklega var athugað hvers konar vímuefna þeir neyttu að jafnaði og vildu helst. Hver var niðurstaðan? Hún var sem hér segir: 54% vildu helst áfengt öl, 35% vildu helst sterka drykki, 11% vildu önnur vímuefni en áfengi.

Nú sýnir ný bresk rannsókn, svo að ég bæti einni staðreyndinni við, herra forseti, sem fram fór á vegum læknasamtaka sem vinna gegn áfengisböli og kallast Action on Alcohol Abuse, að meira en 2/3 drykkjumanna í Bretlandi drekka einkum bjór.

Ein staðreynd enn. Læknadeild háskólans í Hamborg lét rannsaka áfengismagn í blóði 103 manna sem lentu í vinnuslysum við höfnina þar á árabilinu 1976–1983. Niðurstöður urðu þær að 82,5% voru með í blóði sínu meira magn en 1,5 prómill áfengis, aðeins 5,8% voru með minna en 0,5 prómill áfengis í blóði.

Hér erum við komin að áhættuþættinum gagnvart vinnunni. Þetta er t.d. í Danmörku einhver mesti slysavaldur sem þar er fyrir hendi fyrir utan allt vinnutapið. Og nú er ég ekki að fullyrða og halda því fram að bjórdrykkja verði algeng í vinnu hér á landi. Það er yfirleitt ekki skoðun mín.

Ég hafði svolítið gaman af því að við vorum að deila hóflega í einni útvarpsstöðinni hér um daginn, ég, einn af hv. flm. þessa frv., einn stuðningsmaður til viðbótar og einn andstæðingur sá fjórði. Þá hringdi ungur maður, þetta var þáttur sem opinn var hlustendum, og hann var spurður að því hvort hann væri með eða móti bjór. Hann sagði: Ég er á móti honum. Hann var spurður hvers vegna? Jú, ég skal segja ykkur það, sagði hann. Ég vann á reiðhjólaverkstæði í Danmörku og þar var ástandið þannig— við vorum þrír — að einn var alltaf úti að kaupa bjór, annar var úti að kasta af sér vatni, sá þriðji var að vinna. Þetta er sagt til gamans. Engu að síður fylgir þessari sögu mikil alvara vegna þess að það eru til tölulegar upplýsingar um hversu mikill vinnuleiði læðist að þeim mönnum sem hafa drukkið nokkra „öllara“ í hádeginu.

Ég hygg líka að mörgum hv. þm., sem hafa t.d. í samstarfi sínu innan Norðurlandaráðs komið í Snafsetinget í þinghúsinu í Kaupmannahöfn, hafi kannski brugðið eitthvað í brún þegar hv. kollegar eru að gæða sér á einum „öllara“ og kannski einum „gammeldansk“ um áttaleytið á morgnana. Þar þykir þetta ekki afréttari heldur eðlilegur hluti af daglegri neyslu.

Þá vil ég, herra forseti, nefna eina staðreynd enn. Niðurstaða rannsóknar sem fram kom í erindi tveggja bandarískra vísindamanna, annar þeirra heitir dr. Jack Durrell og hinn dr. Cheryl Perry, sem þeir fluttu í Kanada. Þar kom fram að rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að því fyrr sem unglingar byrja að neyta áfengis, þeim mun meiri hætta er á að þeir hefji neyslu annarra vímuefna. Þetta er rannsókn bandarískra vísindamanna. Ég held að við höfum vanmetið þennan þátt málsins þegar við höfum verið að ræða hann, þ.e. afleiðing notkunar eins vímugjafa yfir í að nota annan. Það eru læknisfræðilegar staðreyndir að maðurinn leitar alltaf eftir meiri vímu eftir því sem hann neytir fleiri og meiri vímugjafa.

Eitt dæmi enn um milliölsástandið í Svíþjóð. Þar kom fram að eftir að milliölið var bannað í Svíþjóð minnkaði áfengisneysla unglinga í 6. og 9. bekk grunnskóla um 20–39%. Eitthvað hefur verið farið að ganga á.

Herra forseti. Ég hygg að eitthvað af þessu, sem ég hef rakið hér, hljóti að leiða hugann að því að þeir menn erlendir sem um þetta hafa fjallað kunni að hafa eitthvað fyrir sér í því þegar þeir vilja reyna að draga úr heildaráfengisneyslu í löndum sínum. Og ég endurtek það, sem ég sagði í upphafi ræðu minnar, að það skýtur skökku við að á sama tíma og aðrar þjóðir eyða milljónum kr. og milljörðum kr. í að reyna að draga úr heildaráfengisneyslu erum við hér á Alþingi að leggja fram og ræða frv. um hvernig við eigum að auka heildaráfengisneyslu þjóðarinnar.

Um þetta mál þýðir ekki að tala af neinni tilfinningasemi að nokkru leyti. Menn verða að gera svo vel að byggja afstöðu sína á þeim staðreyndum sem liggja fyrir og fram hafa komið hér við umræður og menn geta fengið ef þeir óska eftir þeim. Í mínum huga er þetta ekki tilfinningamál og ég mun aldrei taka þátt í þeim leik sem heitir að gera eitthvað fyrir kjósendur vegna þess að ég reikni með tilteknum vinsældum fyrir bragðið. Mér finnst margt af því sem hefur komið fram hjá stuðningsmönnum frv. lykta af þessari tilhneigingu.

Það er ljóst að afstaða okkar til þessa máls fer eftir reynslu okkar. Hún fer eftir því sem við höfum séð, heyrt og reynt á erlendri grund þar sem menn hafa haft áfengan bjór kannski í árhundruð en eru nú að reyna að draga úr neyslu hans. En ég hygg að það sé mikið satt í því sem prófessor Tómas Helgason segir í formála að fyrirlestri sem hann flutti um rannsóknir á áfengisneysluvenjum Íslendinga. Þar segir hann m.a., með leyfi forseta:

„Áfengi og áfengismisnotkun er eitt af meiri háttar þjóðfélagsvandamálum í flestum löndum. Flestir eiga mjög erfitt með að taka afstöðu til áfengis á hlutlægan og ópersónulegan hátt. Annaðhvort mótast afstaða manna af því að þeir vilja gjarnan hafa aðgang að áfengi sjálfir en er ljóst að það veldur ýmsum öðrum vanda og jafnvel miklu heilsutjóni, en hins vegar af ákveðinni andstöðu gegn áfengi og telja menn þá að það sé alltaf af hinu illa og enginn viti hvenær það verði til skaða og því beri að banna alla áfengisnotkun.

Áfengisvandamálið má skoða frá mörgum hliðum. Meginvandi er að móta stefnu í áfengismálum sem obbinn af þjóðfélagsþegnum getur unað við og hægt er að framfylgja. Þessi stefnumörkun hefur að sjálfsögðu áhrif á neyslu almennt. Í orði kveðnu er tilgangur áfengismálastefnu yfirleitt sá að draga úr neyslunni þó að óneitanlega séu aðgerðirnar oft fálmkenndar.“

Herra forseti. Ég minni á að undanfarin ár hefur verið unnið í stórri nefnd að því að reyna að móta áfengismálastefnu. Rauði þráðurinn í henni, grunntónninn er sá að stefna að því að draga úr aðgengi að áfengi, reyna að draga úr heildarneyslu o.s.frv. Allt miðar þetta að því að minnka notkun áfengis hverrar tegundar sem áfengið er. Þetta byggir m.a. á þeirri niðurstöðu sem ég hef oft nefnt í ræðu minni og komið hefur fram í ræðum margra annarra hv. þm. á undan, þ.e. yfirlýsingu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem við Íslendingar erum aðilar að og höfum kosið að fylgja, a.m.k. í þeim málum sem við skrifum undir, þ.e. þær samþykktir sem við skrifum undir, og ekki erum við aðilar að þessum samtökum til að ganga þvert gegn þeirra eigin vilja sem við höfum sjálfir undirritað.

Ég vil ljúka þessu, herra forseti, með því að lýsa þeirri skoðun minni að í ræðum hv. flm. frv. og stuðningsmanna hafa ekki komið fram nein rök, ekki ein einustu rök sem mæla með því að bruggun áfengs öls verði leyfð hér á landi. Það hefur ekki bólað á nokkrum sköpuðum hlut í máli þeirra sem gæti rennt stoðum undir að við ættum að samþykkja frv. Ég held að það væru meiri háttar heimskupör af þessari virðulegu stofnun að samþykkja frv. Það gengur gegn heilbrigðri skynsemi. Það gengur gegn öllum rökum sem komið hafa fram um áfengisneyslu.

Það væri auðvitað hægt að fara miklu fleiri orðum um afleiðingar ofneyslu áfengis hér á landi og í öðrum löndum en gert hefur verið hér. En hún snertir hverja einustu fjölskyldu í þessu landi, beint eða óbeint, og það getur enginn leyft sér að taka afstöðu til máls af þessu tagi án þess að íhuga mjög gaumgæfilega hvað hann er að gera. Og ég vil segja það aftur sem ég sagði áðan og hef notað sem svar við það góða fólk sem bendir mér á að það sé tóm vitleysa hjá mér að standa gegn frv. Ég hef sagt við það: Ég tala við ykkur eftir 3–4 ár. Þá skulum við athuga hver uppskeran verður og ef einhver lætur sér detta í hug eitt andartak að það sér rökstudd ástæða til að samþykkja frv. að bjór verði aðeins seldur í áfengisverslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins er það alger rökleysa vegna þess að það breytir ekki nokkrum sköpuðum hlut um aðgengið. Það þýðir bara að það koma sendiferðabílar og kaupa þennan bjór, aka honum hvert sem menn vilja hafa hann alveg eins og gert hefur verið við dreifingu á bjór fram að þessu sem komið hefur til landsins eftir löglegum og ólöglegum leiðum. Það verður engin breyting þar á. Aðgangurinn verður sá sami. Sú röksemdafærsla hrífur mig því ekki.