17.11.1987
Neðri deild: 12. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

42. mál, áfengislög

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Nú er spurning hvort maður á að tala sér til vinsælda eða ekki. Flm. hafa flutt hér frv. um að leyfa bruggun á áfengi og á bjór og sölu á áfengum bjór. Allt er þetta byggt á vinsældum, byggt á því að þeir halda að þeir fái atkvæði út á það, byggt á því að þeir telja að í skoðanakönnun sé núna ljóst að meiri hluti þjóðar sé með þessu máli.

En erum við hér til að njóta vinsælda? Erum við hér til að taka ábyrga afstöðu eða til að taka rétta afstöðu? Það hefur reynst mörgum manninum erfitt að reyna alltaf að vera vinsæll og það er töluverð ábyrgð sem fylgir því að taka bara afstöðu eftir vinsældum. Ég hef komið nálægt áfengismálum í a.m.k. yfir 20 ár — eða öllu lengur, 30 ár eru það víst — og þekki mikið til þeirra mála. Ég hef farið erlendis og kynnt mér málin, ég hef lesið gamlar skýrslur og greinargerðir og ég hef hlustað á málflutning manna hér. Það er athyglisvert að í dag hafa flm. lítið setið hér til að hlusta á rök þeirra sem hafa talað í móti og getur þó verið að þeir hafi hugsað sér að þeir þyldu ekki þau rök því að þeir mundu breyta um skoðun.

Nú er spurningin: Á ég ekki að vera vinsæll og taka afstöðu með því að leyfa sölu áfengs bjórs og að brugga áfengi og brugga áfengt öl? Ég segi nei. Ég er eins og laxinn. Ég vil heldur fara á móti straumi. Ég get ekki gengið fram hjá því þegar allir helstu sérfræðingar þjóðarinnar um þessi mál og öll læknastéttin sendir áskorun um allt annað. Er nú komið að því að alþm. þykist vita miklu betur en allir læknar landsins í þessu? Ég spyr bara. Eru menn orðnir svo vitrir? Hafa þeir ungu menn sem flytja frv. kannski meiri þekkingu á þessum málum? Ég spyr bara. Eigum við kannski ekki að taka mark á öllum þeim ágætu mönnum sem sendu okkur yfirlýsingu og hv. 6. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson, las mjög vel upp? Eigum við kannski ekki að taka mark á þessu? Er þetta bara bull? Við höfum fyrir framan okkur áskorun frá Læknafélagi Íslands um þessi mál. Og ég spyr flytjendur og ég spyr þm.: Vita þeir meira en þessir menn?

Hér hafa verið tíundaðar mjög gaumgæfilega niðurstöður rannsókna alls staðar að úr heiminum og það hefur verið tíundað nákvæmlega að niðurstöður allra þessara rannsókna benda í eina átt og sýna sömu niðurstöðu. Þær sýna að sala á áfengum bjór mun auka áfengisneysluna, áfengisvandamálið. Og ég spyr: Eru þm. betur í stakk búnir en allir fremstu vísindamenn heimsins, ekki einn heldur allir, á þessu sviði til að vita betur eða ætla þm. að segja mér að þeir viti betur en allir þessir vísindamenn, allar þessar rannsóknir sem koma hvaðanæva úr heiminum? Það er sama hvort það er fyrir vestan haf eða austan tjald eða í Evrópu, hvort það er frá víndrykkjulandi eða þar sem bjór er leyfður. Allar niðurstöður segja það sama. Og ég spyr: Ef þm. eru svo viti bornir að þeir vita miklu betur en allir aðrir, til hvers erum við þá að hafa alla þessa vísindamenn?

Hér hefur langt mál verið flutt um þetta. Hér hefur verið lögð fram grg. með frv. Ég held það væri eiginlega betra að lesa hana á hvolfi því svo ómerkileg er hún. Þar úir og grúir af rökleysum. Ég er viss um að ef maður læsi hana á hvolfi gæti maður e.t.v. fundið eitthvað rétt í henni.

Við erum að tala um erfitt vandamál og við erum að tala um ábyrgð. Hver skyldi bera ábyrgð á því ef hér verður samþykkt að leyfa sölu á áfengum bjór? Eru það þm.? Vilja þeir gerast ábyrgðarmenn á því? Ég held að þeir sem hafa kynnt sér áfengismálin og orðið vitni að allri þeirri ógæfu sem áfengið veldur og séð alla þá aumu menn sem hafa lent í þeirri ógæfu geti ekki samvisku sinnar vegna staðið hér upp og sagt: Ég vil meira.

Gömlu verkalýðsforingjarnir höfðu kynnst þessu. Ég man vel að þeir stóðu einhuga, verkalýðshreyfingin á sinni tíð, gegn þessu. Ég sakna þess að sjá enga ráðherra hér og sérstaklega ekki ráðherra Alþfl. Ég man þá tíð að Jóhanna Egilsdóttir stóð hörð gegn þessu máli og hún barðist hart gegn því. Og ég man að þegar ég var í skóla sagði sonur hennar, Sigurður Ingimundarson, við okkur í tíma í Verslunarskólanum: Nú ætla ég að vera á réttum tíma niðri í Alþingi því að ég ætla að greiða atkvæði gegn bjórnum. — Ég hef farið víða um lönd og skoðað þessi mál. Ég hef skoðað áfengishæli. Ég hef skoðað þetta frá mörgum sjónarhornum og alls staðar er niðurstaðan sú sama.

Menn tala um frelsi. Það er afskaplega gaman að tala um frelsi því að menn tala hæst um frelsi sem vilja helsi. (GHelg: Þm. hefur nú verið áhugamaður um ýmislegt frelsi að vísu.) Ég hef áhuga á frelsi já, en ekki á helsi. Þetta bindur fólk til vana á áfengi og bindur fólk til vana á fíkniefnum. Þær rannsóknir liggja fyrir. Og ef einhver þm. hér inni treystir sér til að vefengja allar þær rannsóknir sem hafa verið lagðar fram af vísindamönnum, þar á meðal okkar færustu vísindamönnum, t.d. dr. Tómasi Helgasyni, hans rannsókn á þessum málum, og niðurstöður allra þeirra lækna sem hafa sent okkur yfirlýsingu er ég tilbúinn að styðja þetta. Geta menn sýnt fram á að þeir hafi farið með falsrök? Ég hef ekki heyrt einn einasta mann geta fært rök að því að allar þær skýrslur og rannsóknir, sem hér hafa verið tíundaðar, séu rangar, ekki ein einasta, því að það er ekki hægt. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur margsinnis lýst yfir hver hennar skoðun sé og það eru ekki neinir aukvisar sem þar eru í forustu. Það eru færustu vísindamenn heimsins. Ef menn þykjast vita betur en þeir skulu þeir styðja frv.

Ég hef tekið eftir því að það hefur verið hart staðið á móti áfengisvörnum á þessu landi. Fjárveitingar á fjárlagafrv. eru skornar niður til áfengisvarnaráðs og til bindindisstarfsemi. Og hver skyldi vera ástæðan til þess? Er það tilviljun eða eru það ákveðin öfl sem reyna að koma í veg fyrir að fræðsla og þekking á þessu sviði nái til eyrna þjóðarinnar?

Ég minnist þess að fyrir 200 árum var skrifað af einum frægasta rithöfundi fyrr og síðar, skáldjöfrinum Goethe, um þessi mál. Hver var niðurstaða hans? Þetta var mikill hugsuður. Hann hafði fyrir 200 árum séð hvernig þessi mál mundu þróast og hvaða afleiðingar bjórneysla hefði. Ég mun kannski við tækifæri lesa fyrir þm. þessa klausu. En hann fjallaði líka um tóbaksmál á þessum tíma og reykingar og komst að sömu niðurstöðu. Hann var mjög merkilegur maður og framsýnn. Þegar maður les svona ádrepu, sem var samin fyrir 200 árum, undrast maður framsýni þessara manna sem höfðu ekki jafnmikið til að byggja á og við.

En ég undrast meira 200 árum síðar, með allar þessar rannsóknir og vísindaþekkingu og allar niðurstöðurnar, sem allar benda á hið sama, að menn skuli voga sér að standa hér upp og halda öðru fram. Þetta er ögrun við tilveruna. Þetta er ögrun við þá þekkingu sem við höfum aflað okkur í rás aldanna.

Við getum haft þá skoðun að við viljum bjórinn, en þá eigum við að segja það hreint og beint að við viljum auka áfengisneysluna og hafa meira vandamál því að okkur sé alveg sama um það. Og þá geta menn staðið hér og sagt: Við erum með. En þeir geta ekki staðið hér upp og sagt að það valdi ekki meira vandamáli. Fyrir því liggja vísindalegar niðurstöður og skoðanir allra fremstu vísindamanna í heimi. Þeir sem leyfa sér annað eru að fara með rangt mál.

Ég hef farið á margar ráðstefnur um þetta og ég hef rætt við marga menn um þetta, bæði þá sem hafa drukkið, fyrrverandi drykkjumenn, og þá sem hafa ekki gert það. Fyrir nokkrum árum voru menn taldir öfgamenn ef þeir héldu fram einhverju um þessi mál af því að þá lágu ekki fyrir vísindalegar niðurstöður. Ég ætla að fara 100 ár aftur í tímann því að ég hef lesið það sem þessir menn skrifuðu þá. Þá byggðu menn það ekki á þekkingu heldur á sínu hyggjuviti. Þá voru menn taldir öfgamenn af því að þeir byggðu ekki á vísindalegum niðurstöðum. Núna eru vísindalegu niðurstöðurnar komnar. Læknafélag Íslands, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og allir færustu vísindamenn í heiminum komast að sömu niðurstöðu. Og hvað ætla menn að gera þá? Þeir ætla að neita staðreyndum. Hún er mikil viska þessara manna.

Menn hafa kannski komið á vinnustað í Danmörku. Ég hef komið á vinnustaði þar og það var ömurlegt, enda eru vinnustaðaslys afskaplega tíð. Meira að segja á skrifstofum í Danmörku getur orðið ömurleg aðkoma. Ég minnist minna ferða í félmrn. í Danmörku. Ég gleymi þeim dögum aldrei er ég kom þar því það var svo ömurlegt að koma þar og sjá menn vel hálfa og fulla bæði að morgni til og verri í lok vinnudags, óvinnuhæfa.

Ég held að við getum ekki neitað staðreyndum. En við getum ákveðið að leyfa bjór og segja þá: Okkur er alveg sama um þó að ástandið versni. Okkur er alveg sama um þó það verði fleiri drykkjumenn. Þá getum við staðið að því. En við getum ekki neitað staðreyndum. Við getum ekki neitað staðreyndum sem liggja fyrir og menn hafa tíundað mjög gaumgæfilega. Ég vil sérstaklega minna á málflutning hv. 3. þm. Norðurl. e. sem flutti mjög góða tölu um þetta og vitnaði í ótal rannsóknir og niðurstöður um þetta. Ég held að við getum ekki gengið fram hjá því. Ef við viljum ganga fram hjá þessum niðurstöðum erum við vísvitandi að fara með rangt mál, að gera rangt.