18.11.1987
Neðri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

75. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Lára V. Júlíusdóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til l. um breytingu á lögum nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Flm. leggja til breytingu á 12. gr. laganna í þá veru að í nefndum, stjórnum og ráðum, sem skipuð eru beint af ráðuneytum eða á vegum opinberra stofnana og fyrirtækja, skuli ekki vera færri en 40% af hvoru kyni. Gildi það bæði um aðalmenn og varamenn.

Þegar ég tók til máls í fyrra skiptið um þessa tillögu taldi ég að sú leið sem hér er lögð til væri ekki sú heppilegasta þrátt fyrir að ég telji að nauðsynlegt sé að tryggja réttindi kvenna með lögum og nauðsynlegt sé með löggjöf að styrkja sókn kvenna og þá tel ég að sókn þeirra í nefndir, stjórnir og ráð sé hvað mikilvægust.

Flm., hv. 2. þm. Austurl., taldi að í ræðu minni hefði ég lagt oftrú á framkvæmdarvaldið og teldi að breytingar á lögum væri ekki þörf og ég, teldi ekki nauðsyn á skýrari fyrirmælum í lögum. Ég tel að í máli mínu hafi ég gert grein fyrir afstöðu minni. Hún er sú í fyrsta lagi að ég tel að það eigi að láta á það reyna að 3. gr. jafnréttislaga, þar sem kveður á um heimild til tímabundinna aðgerða í þágu kvenna, verði útfærð frekar til að tryggja jafnan rétt karla og kvenna og í öðru lagi verði athugað að gerði verði breyting á 12. gr. jafnréttislaga í þá veru sem gert hefur verið í Danmörku og rætt var á sínum tíma þegar jafnréttislög voru hér til umræðu fyrir tveimur árum, þ.e. að sú leið yrði farin að þegar beðið sé um tilnefningu í stjórnir, nefndir og ráð á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli nefna karl og konu. Sé það ekki gert skuli veita Jafnréttisráði skriflega, rökstudda grg. um ástæður þess. Þessi leið, eins og ég sagði, var farin í Danmörku fyrir tveimur árum og hefur skilað þar býsna góðum árangri. Þarna er ekki verið að þvinga fram einhvers konar kvóta með ákveðinni prósentu heldur gerð tilraun til að vekja athygli á frambærilegum konum í nefndir. Ég tel að þetta sé leið sem við ættum að íhuga hér. Það er verið að kanna möguleika á því að fara þessa leið í félmrn. þessar vikurnar.