18.11.1987
Neðri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

53. mál, umboðsmaður barna

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá 1. flm. frv. var þetta frv. flutt á síðasta þingi og reyndar, eins og flm. gat einnig um, var sömu eða svipuðum hugmyndum hreyft árið 1978 í till. til þál. sem Árni Gunnarsson og fleiri þm. Alþfl. þá fluttu.

Flm. benda réttilega á að börn og unglingar innan 15 ára aldurs séu rúmur fjórðungur landsmanna og þeir benda líka á þau vandamál sem þessum stóra hópi séu búin og það þarf vissulega að vinna ötullega að lausn þeirra vandamála. Ég heyrði að hv. 1. flm. fellst ekki á þá skoðun að börn séu arðlaus. Hún er sem betur fer ekki ein um þá skoðun. Það er t.d. frægt sem Winston Churchill sagði stuttu eftir stríðið, með leyfi hæstv. forseta: „Það er ekki til betri fjárfesting en að gefa börnum mjólk.“ Og þetta er enn satt, bæði í bókstaflegri og yfirfærðri merkingu, og umönnun hinnar uppvaxandi kynslóðar er svo sannarlega stærsta skylduverk hinna vöxnu.

Spurningin er hins vegar hvort stofnun sérstaks embættis umboðsmanns barna muni koma að tilætluðu gagni. Mun hún ná þeim tilgangi sem flm. gera ráð fyrir? Það kom fram hjá hv. 1. flm. að hugmyndin um embætti umboðsmanns barna sé upprunnin í Noregi. Ég vil leyfa mér að benda á að þar eru aðstæður að mörgu leyti aðrar en hér, m.a., eftir því sem mér er sagt, að því leyti að þar er ekki starfandi barnaverndarráð sem tekur til alls landsins. Barnaverndarráð hér á landi hefur hins vegar lykilhlutverki að gegna í málefnum barna samkvæmt lögunum um vernd barna og ungmenna.

Starfsaðstaða barnaverndarráðs hefur sem betur fer batnað á síðustu árum og það hefur komið fram í öflugra starfi þess, bæði við úrlausn einstakra mála og eins í fræðslustarfi sem ráðið hefur m.a. staðið fyrir í samstarfi við Samband ísl. sveitarfélaga. Ég heyrði að 1. flm. gerir sér ljóst að verkefni barnaverndarráðs og lögin sem ég nefndi um vernd barna og ungmenna skarast að nokkru leyti við efni frv. sem hér liggur fyrir. Ég heyrði líka röksemdir 1. flm., og hlýddi á þær af mikilli athygli, fyrir því að kannski væri betra að stofna sérstakt embætti. En ég verð að segja að ég er ekki fyllilega sannfærður um að það sé rétt.

Ég er sammála flm. um að það sé vafalaust enn hægt að gera betur í starfi barnaverndarráðs og sinna betur því mikilvæga hlutverki að annast vel hina uppvaxandi kynslóð, og gildir þá einu hvort börn hafa lent í einstaklingsbundnum vandamálum, eins og einkum koma fyrir barnaverndarnefndirnar og barnaverndarráðin, eða almennt, eins og flm. vék réttilega að. En sú spurning vakir enn í mínum huga hvort ekki sé skynsamlegra að efla barnaverndarráð frekar en það ráðuneyti sem mér hefur verið falin forstaða fyrir, og þá einkum þannig að upplýsingastarf og áróðursstarf í þágu málefna barna og starf til þess að tryggja réttindi barna í samfélaginu og að tillit sé tekið til hagsmuna þeirra við löggjöf og aðrar stjórnvaldsákvarðanir, eins og segir í 1. gr. frv. sem við erum hér að ræða. Mér finnst að það kunni að vera heppilegri leið að efla barnaverndarráðið, fela því verkefni af þessu tagi, í stað þess að setja á fót sérstakt embætti eins og hér er lagt til og ég vænti þess að þingnefndin sem fær þetta mál til meðferðar taki þetta til athugunar.