18.11.1987
Neðri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

53. mál, umboðsmaður barna

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Virðulegi forseti. Ég sé að tími okkar hér er þrotinn svo að ég kem hér einungis upp til þess að þakka þeim hv. þm. sem hafa komið í ræðustól og stutt hugmyndina að frv. Vitanlega erum við flm. fullkomlega viljug til að hlusta á aðrar tillögur um embættisstofnun til að sinna þessu verkefni. Ég get alveg tekið undir það að e.t.v. væri það enn þá betri aðferð að til yrði deild t.d. í félmrn. sem hefði þetta verkefni. En frv. hefur verið vel tekið og á síðasta ári tók hæstv. þáv. félmrh. mjög vinsamlega undir það og eins og ég nefndi áðan var hæstv. núv. félmrh. þá meðflm. frv.

Hv. 2. þm. Vestf. sagði að þetta ætti að vera heima hjá sveitarstjórnunum. Við höfum nærtækt dæmi fyrir okkur hvernig málum þar er sinnt. Ætli borgarstjórinn í Reykjavík hafi spurt litlu börnin í borginni hvort eigi að byggja ráðhús ofan í Tjörnina og þurrka helminginn af henni upp næstu árin? Ég held ekki. Ég held að flestar sveitarstjórnir og sveitarstjórar gleymi gjörsamlega að taka það atriði inn í ákvarðanir sínar. Það er einmitt það sem þessum embættismanni er ætlað að gera, að fylgjast með t.d. skipulagi. Það eru byggð og skipulögð heilu hverfin án þess að minnsta tillit sé tekið til skóla, útivistarsvæða, vegir eru ekki lagðir með þau sjónarmið í huga hvort þessi vegalagning sé hættuleg börnum eða ekki. Það er það síðasta sem litið er til þegar verið er að skipuleggja ný svæði. Vitanlega eru börnin ekki í stakk búin til að sjá um sín mál. Þess vegna vantar umboðsmann barna.

Ég endurtek þær áhyggjur mínar, sem hv. þm. Árni Gunnarsson einnig lýsti, að ég tel að við séum komin á ystu nöf ef við ætlum ekki að snúa við þeirri þróun sem nú á sér stað í uppeldi barna.

Fyrir nokkrum dögum var viðtal við ungan kennara hér í sjónvarpi sem hafði áhyggjur af málþroska sjö ára barna. Hún tók dæmi um það að þegar hún rétti börnunum eitthvað sem dytti í gólfið segðu þau: Thank you, og ef hún byði þeim eitthvað segðu þau: yes, please. Ensk tunga er orðin þessum börnum jafntöm og íslenska. Menn halda kannski að þetta séu ýkjur en ég vildi þá að þeir hefðu hlustað á dæmin sem hún tók úr samskiptum sínum við sjö ára börn í grunnskólum í Reykjavík. Og ég held að þetta verðum við að taka alvarlega og ég tek þar með undir ýmislegt af því sem hv. 2. þm. Vestf. sagði áðan.

Spurningin um að gera börn að þroskuðum einstaklingum er ekki bara að þau hafi svo og svo mörg prósent dagheimilisrýmis eða að grunnskólarnir séu sem bestir, sem vitanlega skiptir þó máli. Manneskjuleg nærvera skiptir börn miklu meira máli og málþroska öðlast börn hvorki í skólum eða á dagheimilum. Börn læra ekki íslenska tungu nema með því að hlusta á margt fólk á ýmsum aldri. Þess vegna lærðum við að tala að málið var fyrir okkur haft.

Auðvitað er um að ræða viðamiklar breytingar á þjóðfélaginu sem gera þarf til þess að þessi mál komist í sæmilegt lag. En það er ýmislegt hægt að gera á meðan það verkefni stendur yfir því að það tekur langan tíma eins og nú er komið. Vitanlega þurfum við að vinna að öllum þeim atriðum sem hv. 3. þm. Norðurl. e. minntist á hér áðan. Á meðan hann las atriðin 16 sem hann lagði til á ári barnsins uppgötvaði ég þó mér til gleði að eitt atriðið hefur tekið breytingum. Það er staða þroskaheftra í þessu samfélagi og ber það auðvitað að þakka hæstv. þáv. heilbrmrh., hv. þm. Svavari Gestssyni, sem kom í gegnum þingið á sínum tíma lögum um málefni fatlaðra. (Forseti: Ég bendi hv. ræðumanni á að tími okkar er útrunninn en þar sem enn hafa bæst hv. þm. á mælendaskrá lýkur þessari umræðu ekki í dag.) Ég á sáralítið eftir af ræðu minni, herra forseti, og mun ljúka henni hér og nú. Satt að segja fagna ég því ef menn sjá ástæðu til að lengja þessar umræður.

Ég vildi ég hefði vitað það áður en ég talaði fyrir þessu máli í dag vegna þess að þá hefði ég flutt miklu lengri og ítarlegri ræðu og það getur vel farið svo að ég geri það síðar vegna þess að ég held að hér sé mál á ferðinni, og á ég þá við málefni barna almennt, sem er kannski þýðingarmesta málið sem fjallað verður um á þessu þingi með virðingu fyrir öllum öðrum.

Umræðu frestað.