23.11.1987
Sameinað þing: 20. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

Kosning í stjórnir, nefndir, ráð o.fl.

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ef ég skil rétt er kosningu lokið og þessum dagskrárliðum fullnægt. Stjórnarandstaðan hefur verið beðin um að flýta sinni vinnu í sambandi við val á mönnum í það sem hér hefur verið afgreitt. Stjórnarandstaðan hefur orðið við þeirri beiðni og stendur ekki á henni í því kjöri sem hefur farið fram og sem á eftir að fara fram samkvæmt dagskrá sem liggur prentuð fyrir þessum fundi. En ég sé að það eru nokkrir liðir óafgreiddir. Ég bjóst við að þeir yrðu afgreiddir í dag. Ég hef enga skýringu á því sem forustumaður Borgarafl. hvers vegna ekki var gengið frá 10. lið, þ.e. kosningu í áfengisvarnaráð, hvers vegna var ekki gengið frá 11. lið, þ.e. stjórn Byggðastofnunar, og 16. lið, stjórn ríkisspítalanna. Ég hef skýringu á hvers vegna ekki var gengið frá 30. lið. — Hæstv. forseti. Ég vildi gjarnan fá skýringu á þeim töfum sem eru á afgreiðslu þessara liða.