23.11.1987
Sameinað þing: 20. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

107. mál, lýsing á Suðurlandsvegi um Hellisheiði

Flm. (Eggert Haukdal):

Herra forseti. Á þskj. 111 flytjum við nokkrir þm. till. til þál. um að setja upp lýsingu á Suðurlandsvegi um Hellisheiði. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Guðni Ágústsson, Margrét Frímannsdóttir, Guðmundur H. Garðarsson, Unnur Stefánsdóttir, María E. Ingvadóttir og Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir. Tillgr. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera könnun á kostnaði við að lýsa upp Suðurlandsveg frá Reykjavík um Hellisheiði að Hveragerði. Jafnframt verði leitað leiða til framkvæmda við verkið.“

Á árunum 1969–1972 var vegurinn austur yfir fjall, eins og gjarnan er sagt hér í Reykjavík, byggður upp úr snjó og lagður slitlagi. Áður hafði Keflavíkurvegurinn verið endurbyggður og lagt á hann slitlag. Þetta voru fyrstu stórvirki síðari tíma í samgöngumálum og undirbúin af þáv. samgrh. Ingólfi Jónssyni.

Eftir það var nokkur hægagangur á lagningu slitlaga og hófst ekki að ráði fyrr en um og eftir 1980 þegar farið var að vinna eftir langtímaáætlunum. Eftir það fóru menn að sjá stóra áfanga í vegagerð víða á hringveginum og í öllum landshlutum. Í tíð fyrrv. samgrh. Matthíasar Bjarnasonar gerðust stórvirki og hefðu þó getað orðið miklu meiri ef stjórnarliðar hefðu stutt betur tillögur hans í fjáröflun til vega. Nú er fyrirhuguð aukning á vegafé, en þyrfti þó við endanlega afgreiðslu fjárlaga að verða miklu meiri.

Eftir að farið var að leggja bundið slitlag á þjóðvegi landsins hefur umferðin aukist. Nú er það orðið miklu minna mál að ferðast langar vegalengdir en áður var þegar menn urðu eingöngu að hristast á misslæmum malarvegum á milli staða. Sennilega er fátt sem eins stuðlar að því að byggð haldist í öllu landinu og gott vegakerfi því að það minnkar landið í reynd og færir okkur nær hvert öðru þegar það tekur styttri tíma að ferðast á milli staða.

Með bundnu slitlagi eykst hraði umferðarinnar og menn gera kröfu til þess að geta haldið sama hraða þótt akstursskilyrði breytist, svo sem vegna slæms skyggnis eða náttmyrkurs. Með auknum hraða getur hættan á slysum einnig aukist og hætt er við því að slysin verði alvarlegri. Þetta á sérstaklega við séu akstursskilyrði ekki upp á það besta, en hættan er sú að menn taki ekki nægilegt tillit til þess og haldi svipuðum hraða og þeir eru vanir við betri skilyrði.

Lýsing á þjóðvegum dregur mjög úr slysahættu og gerir alla umferð greiðari. Kröfur um lýsingu á hættulegustu köflum þeirra hljóta því að verða háværar. Því er nauðsynlegt að farið verði að huga að þessu máli svo að menn geti gert sér grein fyrir því hversu kostnaðarsamt verk er hér um að ræða og hvernig það verði leyst á sem hagkvæmastan hátt. Rétt er að kynna sér hvernig þetta hefur verið gert í þeim löndum þar sem þróunin er komin miklu lengra áleiðis en hjá okkur.

Eðlilegt er að athuga fyrst þá vegarkafla þar sem umferðin er mest og þar sem akstursskilyrði geta orðið slæm. Hér er vegurinn austur fyrir fjall einn sá fyrsti sem athuga þarf sökum veðurskilyrða og hinnar miklu umferðar sem sífellt er vaxandi. En einnig er vert að leggja áherslu á fleiri vegi og má þá benda á veg upp í Mosfellssveit og um Reykjanes. Ég vil leggja áherslu á að hér verður að vera um sérstakt fjármagn að ræða og ekki má taka það frá öðrum framkvæmdum í vegamálum.

Að lokum vil ég vitna til greinargerðar sem tillögunni fylgir, með leyfi forseta:

„Svo sem kunnugt er, er Suðurlandsvegur um Hellisheiði aðalsamgönguæð frá Reykjavík til hinna fjölförnu og blómlegu byggða Suðurlandsundirlendisins, auk þess að vera kafli af hringveginum með miklum umferðarþunga. Síaukin samskipti Stór-Reykjavíkursvæðisins og Suðurlands eykur nauðsyn þess að vegurinn sé alltaf opinn. Með tækni og framförum nútímans er vegurinn orðinn hár, beinn og breiður með bundnu slitlagi. En vegna hæðar yfir sjó og náttúrufars eru gjarnan, sérstaklega í skammdeginu, mörg veðrabelti á leiðinni. Fyrirvaralaust skapast oft hættuástand, enda hafa orðið mörg alvarleg umferðarslys, sérstaklega á leiðinni úr Hveradölum og niður í Kamba. Því væri æskilegt að fyrsti áfangi í lýsingu vegarins yrði á þessum kafla. Nýta ber þá reynslu sem fyrir liggur um gerð ljósa sem sjást vel í lélegu skyggni.

Hin geysilega fjölgun ferðamanna á leið um Suðurland og lenging ferðamannatímans ýtir á þessa framkvæmd. En fyrst og fremst er það hin stöðuga ferða- og flutningaþörf til og frá Suðurlandi, í hvaða veðri sem er, sem knýr á um að þetta verði framkvæmt sem allra fyrst.“

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu vil ég leyfa mér að leggja til að málinu verði vísað til hv. atvmn.