24.11.1987
Efri deild: 12. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

130. mál, meðferð einkamála í héraði

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta frv. skyldi vera tekið upp og flutt. Ég fagna innilega hverju því frv. sem leiðir til einföldunar, bæði er varðar dómstóla og aðrar stofnanir. Sérstaklega vil ég fagna þessu frv. því að ég tel að í meginatriðum felist í því breytingar til batnaðar frá því sem gildir skv. núverandi lögum. Þau lög sem gilda um meðferð einkamála í héraði eru að stofni til frá 1936, en þeim var breytt í meginatriðum með lögum nr. 28/1981. Í þeirri breytingu fólst aðallega að mál skyldi í heilu lagi vera rekið og á sama degi, bæði vitnaleiðslur og málflutningur.

Þær breytingar sem þetta frv. gerir ráð fyrir leiða til þess að framkvæmdin verður skjótvirkari og einfaldari en nú er. Þó get ég ekki orða bundist og vil hér og nú gera athugasemdir við einstakar greinar frv. En þetta verður ekki heildarathugasemdin sem ég kem til með að gera og áskil mér frekari rétt til á síðari stigum málsins.

Í framsöguræðu sinni vék hæstv. dómsmrh. ekki oft að því hvernig lögin eru í dag og hvaða breytingar er verið að gera. Að vísu sagði hann: Í 6. gr. er mælt fyrir um að það skuli vera einn þingvottur og að í 8. gr. sé verið að breyta svokallaðri samlagsaðild, en ég held að alla vega varðandi 8. gr. þurfi að athuga breytinguna nokkuð betur.

Varðandi 9. gr., sem mundi vera breyting á 88. gr. laganna, sakna ég þess að þar þarf ekki skv. þessu frv. að tiltaka í stefnu að nafnnúmer viðkomandi þurfi að fylgja. Það er þannig í þessu tölvuvædda þjóðfélagi að nafnnúmerin eru orðin meira virði en nöfnin og þar sem margir eru með sama nafn held ég að það sé nauðsyn á að tiltekið sé nafnnúmerið. Hins vegar skapar þetta oft og tíðum nokkra vinnu, en ég held að með tilliti til réttaröryggis beri að krefjast þess að nafnnúmer sé tiltekið á eftir nafni. Þetta á einnig við, að því er mér sýnist, varðandi breytingu á 25. gr. er fjallar um áskorunarmálin.

Í 20. gr. bætist við 175. gr.málsgr. um að vextir skuli falla á málskostnað 15 dögum eftir dómsuppsögu og fagna ég því. Hins vegar sýnist mér þetta ekki vera nógu skýrt að því er varðar áskorunarmálin. Þar er ekki tiltekið hvort sama regla eigi að gilda. Vil ég því spyrja hæstv. dómsmrh. hvort svo eigi að vera. Í j-lið 25. gr. er ekki tiltekið um málskostnað eða vexti af málskostnaði. Þar segir aðeins að stefna skuli eftir áritun vera aðfararhæf frá dagsetningu en ekki eins og nú er sjö dögum eftir dagsetningu. Ég vona að ég fái svar við þessu.

Varðandi 25. gr. fagna ég því að þarna er kannski komin regla sem mundi geta komið í veg fyrir óþarfamál og að lögmenn geti haldið uppi málþófi. Ég fagna henni sem sagt.

22. gr. fagna ég einnig út af því að mér hefur fundist að í mörgum úrskurðum hafi vantað forsendur. Oft og tíðum áfrýja menn til að fá þann rökstuðning sem þeir vilja. Eins og staðan er í dag er hægt að fá úrskurði í fógetaskipta- og uppboðsmálum og þinglýsingarmálum ef farið er fram á það sérstaklega þannig að þarna er ekki veigamikil breyting. En í frv. er lögð sú skylda á dómara að hafa það með þeim hætti að ávallt skuli fylgja forsendur.

Að fella áskorunarmálin inn í lögin um meðferð einkamála í héraði tel ég að sé af hinu góða. Þó svo það skipti kannski ekki meginmáli er ágætt að hafa þetta á einum stað því að þetta er fyrir sama dómstóli og málin eru dæmd af sömu dómurum.

Hins vegar sýnist mér varðandi nýja grein, sem verður 222. gr., að undir þessa meðferð sé verið að fella fleiri mál en nú er. Þar segir í 2. mgr. að endurgjald fyrir veru, viðurgerning, flutning á mönnum og munum, tryggingar, auglýsingar og leigu lausafjár falli allt undir áskorunarmál, en ekki er það í dag.

Varðandi önnur framkvæmdaatriði um útbúning og gerð áskorunarstefnu verður manni litið á c-lið 25. gr. Það er sem sagt 224. gr. Þar segir að eitt eintak stefnu skuli vera á löggiltum skjalapappír. Ég veit því miður ekki hvort þetta er breyting eða ekki á núgildandi lögum, en ég held að þetta sé alger óþarfi þegar litið er á aðrar greinar laganna og þá sérstaklega á h-lið 25. gr., en þar segir: „Við þingfestingu máls skal stefnandi leggja fram tvö frumrit stefnu.“ Þar er hvergi sagt til um löggiltan pappír. Það er ekki samræmi í þessu tvennu.

En ég fagna þessu frv. og ég mundi fyrir mitt leyti geta samþykkt flestöll þau atriði sem þarna koma fram nema kannski þau sem ég hef minnst hér á.