15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

Síðustu efnahagsákvarðanir ríkisstjórnarinnar

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég átti ekki von á að mér félli sá heiður í skaut að taka hér til máls á undan hæstv. fjmrh. Ég hefði gjarnan viljað hlusta á hann áður en ég kæmi í ræðustól því að ég hafði ekki hugsað mér að standa upp oftar nema sérstakt tilefni gæfist til. (Forseti: Það skal tekið fram að forseti telur rétt að haga svo skipan mála hér að það verði nokkuð á víxl sem heyrast rök stjórnarandstöðu og ríkisstj. En ef hv. þm. vill fresta ræðu sinni er það hægt.)

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að gera athugasemd við ákvörðun forseta. Þær hafa yfirleitt verið réttar frá því að hann tók við þessu embætti. Ég mun þá halda áfram minni fátæklegu ræðu ef hann leyfir.

Hv. 5. þm. Reykn. Ólafur Ragnar Grímsson rakti hér málefnalega með tilvitnunum í blaðagreinar ummæli hæstv. ráðherra almennt, ummæli sem enginn ráðherranna né heldur þeirra þingmanna sem hann vitnaði til hafa leiðrétt. Ég tel því að viðkomandi hæstv. ráðherrar og viðkomandi hv. þm., sem hann vitnaði í, telji frummælanda fara með rétt mál og réttar tilvitnanir. Að vísu skal ég viðurkenna að hv. 5. þm. Reykn. á það til að taka þannig til orða að það getur móðgað menn og hann á það til að skreyta sitt mál og sinn málflutning öðruvísi en aðrir, en ég held að engum hér dyljist að hann er viðurkenndur einn af okkar bestu ræðumönnum. Því var það, eftir að hafa hlustað á þessi rök hans sem ekki hefur verið mótmælt og tilvitnanir, að það kom mér á óvart að hæstv. forsrh. skyldi svara á þann hátt sem hann gerði. Ekki með upplýsingum, ekki með beinu svari við spurningu heldur með dylgjum um að hv. 5. þm. Reykn. væri að flytja framboðsræðu fyrir innanflokksfund í þeim pólitíska flokki sem hann tilheyrir. Það eru engin svör fyrir þjóðina. Okkur kemur ekkert við hvernig alþýðubandalagsmenn eða sjálfstæðismenn standa í sínum innbyrðis deilumálum. Það tilheyrir ekki efnahagsumræðum sem við stöndum í á þessu þingi. En það væri fróðlegt að fá innanflokksvandamál flokkanna almennt hingað ef þið, hv. kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, teljið að það eigi erindi inn á þing. Ég tel að svo sé ekki.

Ýmislegt, sem hæstv. forsrh. kom að, er almennt eðlis og ég mun stikla á því eins stuttlega og ég get, enda ekki tilefni til að ræða mikið um það. Hann ræðir um hagstæð skilyrði. Það hefur verið svo undanfarið. En nú hafi sigið á ógæfuhliðina og verðbólgan vaxið. Ekkert það sem guð almáttugur gaf þessari þjóð hefur dregist saman undanfarið. Allt það sem hefur orðið til að skapa þessa ógæfu er af mannanna völdum og þess vegna viðráðanlegra en ef hér ætti sér stað einhver samdráttur frá náttúrunnar hendi eða einhver sú ógæfa sem gæfi tilefni til að forsrh. þjóðarinnar dreifði þessari svartsýni út á meðal landsmanna eingöngu til að réttlæta aðgerðir sem ekki eru réttlætanlegar. Hann talar um að það þurfi að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir þenslu. Ég vona að hann meini ofþenslu vegna þess að mér er minnisstætt og kannski fleirum hér inni að þegar hér var engin þensla, árin fyrir styrjöldina, var hér atvinnuleysi, það var hér peningaleysi, það var skortur á öllu því sem við þekkjum í dag og hefur skapað þenslu. Því verður ekki á móti mælt að þegar atvinna skapaðist og fólkið fór almennt að hafa atvinnu og fá laun, sem það fékk ekki áður, var talað um velmegun, þá hófst velmegun. Síðan koma sérfræðingar, sem eru menntaðir á þessari velmegun þjóðarinnar, af fátæku fólki en eru orðnir fínt fólk í dag en viðurkenna jafnvel ekki uppruna sinn, og finna upp nýtt orð í staðinn fyrir velmegun, sem er þensla og ofþensla sem allt er að eyðileggja í þjóðfélaginu. Það vitum við öll að það lifir enginn láglaunamaður af átta stunda vinnudegi og er okkur öllum til skammar þrátt fyrir að þjóðartekjur eru taldar vera pr. haus, per capita, einar þær mestu sem þekkjast í veröldinni. Svo erum við að tala um samdrátt þegar við eigum að vera að tala um að dreifa þjóðartekjunum á annan hátt en gert er.

Við skulum segja að það sé rétt hjá hæstv. forsrh. að það sé mikils um vert að búa við stöðugt verðlag. En hvað hefur hæstv. ríkisstjórn gert til þess að við búum við stöðugt verðlag? Síðan hún tók við hafa verið svo til daglegar hækkanir á einhverju. Það hefur allt kostað meira hvern einasta dag en það kostaði í gær. Og hvað er það annað en gengislækkun, dagleg gengislækkun sem á sér stað? Og hvað halda hæstv. ráðherrar að þeir geti lengi sagt: Við höfum daglega gengislækkun á innanlandsmarkaði, það kostar alltaf fleiri krónur í dag en það kostaði í gær sem við þurfum að kaupa, hvort sem það eru bílar, bensín eða matvæli, og sagt: Út á við er erlendur gjaldeyrir fastur og kostar alltaf sömu krónuna. Þennan gjaldeyri þurfum við að nota til að kaupa það sem er daglega að hækka hjá okkur. Hvers lags blekking er þetta?

Ég var að lesa bók eftir fyrrv. þm. í gær og þar var setning sem sló mig og ætti vel við hér. „Sannleikurinn hefur ekki sigurmöguleika í samkeppninni við ríkisstjórnina.“ Slíkt er „handicappið“.

Nei, það verður að flytja þjóðinni annan boðskap en þennan. Ég verð að segja það sem mér dettur helst í hug núna: Er ekki nauðsynlegt fyrir sjálfstæðisfólk að setja einhvers konar lögbann á þann hóp sem siglir undir flaggi Sjálfstfl. og er með þessa skattastefnu? Hann eigi ekki að fá að nota nafn flokksins í þessari stefnu. Svo langt er hún frá raunverulegri stefnu Sjálfstfl., jafnvel sem boðuð var í síðustu kosningum svo maður fari ekki svo langt aftur í tímann að hún fari að líkjast stefnu Borgarafl.

Ég skil ekki þau ummæli hæstv. forsrh. þegar hann segir, og ég skrifaði það orðrétt, að ekki hafi verið „tilefni til að skrifa bréf ASÍ við núverandi aðstæður“. Þessu verður forseti ASÍ að svara. Því verður ekki svarað hér af neinum. Forseti ASÍ skrifaði bréfið og hann einn getur sagt um það hvort tilefni var til að skrifa bréfið eða tilefni var ekki til að skrifa bréfið. Ég held að það hafi verið tilefni til þess. Og ég vil líka segja að hæstv. forsrh. getur ekki sagt að fjárlagafrv. sé lagt fram á þann hátt sem hann óskar eftir. Hann getur ekki sagt það. Ég var fjmrh. í ríkisstjórn sem hæstv. forsrh. sat í sem formaður Sjálfstfl. og ég veit ekki betur en ég hafi þurft leyfi flokksstjórnar Sjálfstfl. til að hóta Framsfl. stjórnarsliti þann sama dag ef Framsfl. samþykkti ekki það fjárlagafrv. sem við vorum þá búnir að leggja blessun okkar yfir í þingflokki Sjálfstfl. og var það þó með greiðsluafgangi upp á 123 millj. tæpar. Það er bókað drengskaparheit í bókum ríkisstjórnarinnar um að standa að því frv. til fjárlaga sem ég lagði fram fyrir árið 1986 sem var þó svikið með fundi sem Sjálfstfl. hélt í Stykkishólmi.

Ég ætla ekki að ræða meira hið fátæklega svar hæstv. forsrh. til fyrirspyrjanda. Ég tel að það hafi verið fyrir neðan virðingu forsrh. að blanda saman flokksmálum fyrirspyrjanda og svari við fsp. á virðulegu þjóðþingi okkar.

Utanrrh. hélt stutta ræðu, en hún sagði mikið. Hún sagði mikið. Hún sagði að þrátt fyrir ummæli einstakra flokksmanna Framsfl. fullyrðir hann að fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir sé stutt af heilum hug og öllum framsóknarþingmönnum. Einhvers staðar kemur fram að svo sé ekki þannig að þrátt fyrir ummælin virðist vera ágreiningur. Hvenær eru menn að segja sannleikann og hvenær eru menn ekki að segja sannleikann?

Ég vil segja að ég er engu nær um það eftir ræðu hæstv. forsrh. hvort ríkisstjórnin stendur eða fellur með einhverri stefnu, hvað þá hvort hún stendur eða fellur með gengi krónunnar eins og það er frá degi til dags eða frá einum tíma til annars. Af minni reynslu mundi ég segja eftir þetta jakahlaup á ráðherrastólum, sem endaði í forsætisráðherrastól, að hæstv. forsrh. kæmi aldrei til með að láta nokkurn skapaðan hlut verða til þess að hann missti af stólnum, hvorki gengisfellingu né nokkurn skapaðan hlut annan. Það er mín persónulega skoðun ef það svarar í einhverju fyrirspyrjanda eða getur létt hans áhyggjur. Það er afskaplega sjaldan sem ég vil gera orð fyrirspyrjanda að mínum, en ég vil gera það í þetta skipti. Og ég vil segja að auðvitað er genginu stefnt í hættu með öllum þessum aðgerðum. Annað er blekking. Þið skuluð bara segja, hæstv. ráðherrar: Við gerum allt sem við getum til að halda genginu föstu og ef við ekki getum það eru ekkert meiri líkur á því að þið hefðuð getað það frekar. Ég er ekkert að segja að við hefðum frekar getað það sem erum í stjórnarandstöðu. Við verðum bara að taka því sem forsjónin — eða það sem ekki er forsjónin heldur af mannanna völdum gerir óhjákvæmilegt að glíma við. Við skulum segja líka: Það er göfug hugsjón að ná fjárlögum hallalausum. En er það raunverulega hægt? Við skulum vera sanngjörn. Er það raunverulega hægt? Er hægt að segja við fólkið í landinu að allt það sem okkur hefur mistekist undanfarin mörg ár verðið þið núna að taka á ykkur á einu ári? Er þetta réttlætanlegt? Er réttlætanlegt að segja að okkur vanti mannskap í iðnað, okkur vanti vinnuafl og þess vegna biðjum við fólkið að vinna meira daglega en átta tíma, kannski við höldum því það lágt í launum að það geti ekki lifað á átta tímum, vegna þess að við þurfum á lengri vinnudegi að halda, en segja svo: Við ætlum að taka af ykkur allar þessar tekjur til þess að borga niður ríkissjóðshallann? Þetta er ekki réttlætanlegt og Sjálfstfl. ekki boðlegt. Sjálfstfl. hefur hingað til verið flokkur einkaframtaks og flokkur þeirra sem hafa staðið saman um að menn verði sjálfstæðir efnahagslega, ekki síður en á annan hátt. (Gripið fram í.) En nú er verið að taka það af. Þess vegna er það, virðulegi frammíkallandi, Halldór Blöndal, að ég efast um að þið getið lengur notað nafnið Sjálfstæðisflokkur meðan þið hagið ykkur svona.

En það er ekki aðallega þetta sem ég vil gera að umræðuefni hér. (SJS: Meira af þessu.) Meira af þessu. Nú er ég líklega farinn að skemmta skrattanum sem kallað er þegar Alþb. er farið að hvetja mig. Nú jæja, það er gott að eiga samstarfsmenn.

Það sem ég vil segja, og taka undir það sem kom fram hjá hv. 7. þm. Reykn. í sjónvarpsviðtali í gær, er að það er göfug hugsjón og gott ef við náum hallalausum fjárlögum ef við getum gert það á mannlegan og miskunnsaman hátt og það veit ég að allir flokkar eru sammála um. En af þeirri fátæklegu reynslu sem ég hef sem ráðherra fjármála hugsa ég til baka og spyr: Hvað skuldum við í erlendum gjaldeyri? Hvað skuldum við samtals? Hverju höfum við sem hér erum og forverar okkar hlaðið á framtíðartekjur? Hvað er skuld íslenska ríkisins samtals mikil? Og hvað er það mikið sem við eigum að inna af hendi í afborgunum og vöxtum í ár eða næsta ár því að hingað til höfum við þurft að taka erlend lán til að standa í skilum um erlendar skuldbindingar? Nú er forsenda fjárlagafrv. sú að taka engin erlend lán sem þýðir að við ætlum að borga niður erlendar skuldir á annan hátt því við erum talin skilvís þjóð og þess vegna höfum við haft lánstraust. Við ætlum ekki að tapa því lánstrausti á mistökum ríkisstjórnar í eitt skipti því að ég veit ekki hvort þessi ríkisstjórn, ef hún heldur svona áfram, fær að gera fleiri fjárlög. Hvað skuldum við? Hvað eigum við að borga í afborganir og hvað eigum við að borga í vexti? Allt þetta, sem er kvöð á okkur, ætlum við að standa í skilum með af innlendum sparnaði því einhvers staðar verða peningarnir að fást til að standa í skilum. Og hver er þessi innlendi sparnaður? Það er í samkeppni við innlend skuldabréf ríkissjóðs til að standa undir ríkissjóðsskuldbindingum. Við ætlum að hafa innlendan sparnað til að reka bankakerfið eins og það leggur sig og þar með atvinnureksturinn í landinu eins og hann leggur sig. Til viðbótar á af innlendum sparnaði að standa við skuldbindingar út á við. En á sama tíma ætlum við yfir 50% af lögbundnum sparnaði landsmanna allra, þ.e. lífeyrissjóðunum, að standa undir húsnæðismálakerfi þjóðarinnar. Allt fyrir sömu peningana. Og þessu til viðbótar ætlum við að opna fyrir það, eins og kom fram hjá hæstv. bankamálaráðherra í sjónvarpsviðtali nýlega eftir þann fræga ráðherrafund sem frummælandi minntist á, að leyfa lífeyrissjóðunum, þessum lögbundna sparnaði, að fara út á erlendan áhættumarkað í hlutabréfakaupum og í skuldabréfakaupum með milligöngu manna sem hafa til þess sérstakt leyfi og eru sérmenntaðir til að fá að taka þátt í starfsemi kauphalla erlendis. Við ætlum að borga 2–3 dýrum milliliðum til að koma íslenskum sparnaði, innanlandssparnaði, á erlendan fjármagnsmarkað til að standa undir rekstri fyrirtækja og framkvæmda erlendis. Þetta er alveg furðulegt vegna þess að það er enginn Íslendingur, ég þori að fullyrða að enginn Íslendingur er til sem á þá peninga að það hafi einhver áhrif á rekstur heillar þjóðar að hann kaupi einhver skuldabréf erlendis. Það er því ekki neitt annað en hinn lögbundni sparnaður landsmanna sem getur farið að einhverju verulegu magni til útlanda og það eru sömu peningarnir, það er nákvæmlega sama féð og ríkisstjórnin reiknar með til að standa undir daglegum þörfum þjóðarinnar í heild á öllum sviðum, sem ég hef rakið, og þá ætla ég að minna á að ég talaði líka um erlendar skuldbindingar og þær kvaðir sem á okkur standa.

Ég held að það þýði ekkert, hæstv. forseti, að rekja þessa hrakfallasögu. Málin verða að hafa sinn gang og ég veit ekki hvort það borgar sig fyrir stjórnarandstöðuna að vera að óska eftir því, eins og kom fram hjá hæstv. forsrh. í hans túlkun á málflutningi frummælanda, að ríkisstjórnin færi frá til þess að hann, frummælandi, gæti tekið við. Þetta er svar út í hött. Og einmitt þessi málflutningur, sem er í beinu framhaldi og í réttu hlutfalli við getu hæstv. ríkisstjórnar og ráðherranna, er besta stjórnarandstaðan sem til er. Ég sé enga ástæðu til að trufla þá vinnu sem hæstv. ráðherrar og ríkisstjórn og þeir flokkar sem að henni standa, ef þeir standa þá að henni, eru að vinna fyrir stjórnarandstöðuna.