24.11.1987
Efri deild: 12. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

127. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingar á lögum nr. 46 frá 27. júní 1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út 10. júlí sl., um sérstakt grunngjald á innfluttar fóðurvörur.

Síðustu áratugi hefur orðið gífurleg aukning á kornuppskeru í heiminum. Það er einkum að þakka mikilli tæknivæðingu við framleiðsluna og stórstígum framförum í jurtakynbótum. Fundist hafa uppskerumeiri stofnar sem henta vel við ólíkar aðstæður. Þetta hefur haft í för með sér að margar þjóðir, sem áður fluttu inn mikið magn af kornvörum, eru nú orðnar sjálfum sér nógar og jafnvel orðnar útflytjendur á korni. Svo er t.d. með fjölmennustu þjóðirnar, Indverja og Kínverja. Um leið hafa útflutningsþjóðirnar misst stóra markaði fyrir sína framleiðslu með þeim afleiðingum að hjá þeim hafa safnast fyrir gífurlegar kornbirgðir sem fara stöðugt vaxandi. Má þar nefna Bandaríkin og lönd Evrópubandalagsins. Til að mæta þessari þróun hafa þær gripið til þess ráðs að verja gífurlegum fjármunum í að greiða niður útflutningsverð á birgðum sínum í harðnandi samkeppni við framleiðslu þeirra þjóða sem ekki hafa bolmagn til slíks eða standa á annan hátt verr að vígi.

Á þingum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna og fleiri alþjóðafundum eru menn sammála um að slíkar aðgerðir eru alvarlegasta ógnunin við vöxt og viðgang landbúnaðar í þróunarlöndunum og af þeim ástæðum sé nauðsynlegt að hverfa frá þessari stefnu. Ljóst er hins vegar að það verður ekki gert í einu vetfangi heldur þarf langan aðlögunartíma. Á þingi Matvæla- og landbúnaðarstofnunarinnar í Róm fyrir hálfum mánuði gerði landbrh. Bandaríkjanna tillögu um að gerð yrði tíu ára áætlun til að ná þessu markmiði. Aðrir draga í efa að það geti gerst á svo stuttum tíma. A.m.k. er staðan sú nú að aldrei hefur verið gengið eins langt í verðlækkun og að undanförnu. Af þeirri ástæðu var innflutningsverð hér á landi á fóðurkorni á fyrri hluta þessa árs orðið svo lágt að það var ekki í neinu samræmi við framleiðslukostnað á innlendu fóðri. Augljóst var að ef þannig hefði haldið áfram hefði það raskað samkeppnisstöðu búgreinanna með afdrifaríkum afleiðingum.

Til að koma í veg fyrir það var ákveðið við myndun núv. ríkisstjórnar að leggja sérstakt grunngjald, allt að 4 kr. á kg, á innflutt kjarnfóður og er það í samræmi við þau grundvallaratriði búvörulaganna að innlend aðföng nýtist sem best við framleiðslu búvara. Í því sambandi er rétt og skylt að benda á að sífellt eru að koma fram meiri möguleikar og kostir til innlendrar framleiðslu. Á þessu ári var byggi sáð í yfir 200 ha og uppskeran mun a.m.k. vera fast að 500 tn og er það meira en nokkru sinni fyrr. Er nú farið að nota íslenskt bygg í ríkara mæli en áður í innlendar fóðurblöndur. Kemur skýrt í ljós að það er betra fóður en það sem innflutt er, enda erfitt að vita hversu lengi er búið að geyma erlent fóður og hvaða meðferð það hefur fengið að öðru leyti. Þar að auki er hætta á að í það sé bætt ýmsum óæskilegum efnum sem ekki eru í innlendu fóðri.

Hér er því um að ræða gífurlegt hagsmunamál fyrir íslenska neytendur því að að sjálfsögðu fara gæði afurðanna mjög eftir því fóðri sem notað er við framleiðslu. Af þeim ástæðum eru víða erlendis risnar upp öflugar hreyfingar meðal neytenda fyrir því að greiða hærra verð fyrir matvæli sem eru framleidd úr heilbrigðu fóðri. Það er því sameiginlegt hagsmunamál neytenda og framleiðenda að hér á landi sé jafnan á boðstólum sem fjölbreyttast úrval matvöru sem á rætur sínar í íslenskum jarðvegi.

Ekki má láta tímabundnar aðgerðir ríkustu þjóða heims til verndar sínum landbúnaði verða til að koma í veg fyrir að það geti tekist. Er næsta undarlegt að láta slíkt viðgangast á sama tíma og þessar sömu þjóðir verja sig með tollmúrum og innflutningsbönnum á framleiðsluvörur íslensks landbúnaðar.

Þetta sérstaka fóðurgjald rennur beint í ríkissjóð og því eru þessi brbl. einnig liður í að styrkja stöðu hans. Innflutningur á kjarnfóðri var milli 60 og 70 þús. tn árlega, en með þeirri stefnubreytingu sem varð við samþykkt búvörulaganna hefur dregið úr þeim innflutningi svo að á síðasta ári mun hann ekki hafa verið nema rúm 50 þús. tn. Þetta gjald ætti þá að gefa rúmlega 200 millj. kr. í ríkissjóð á næsta ári.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.