24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

116. mál, læknalög

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Ég fagna því að þetta frv. skuli vera tekið aftur hér fyrir, en það er hérna örlítil athugasemd við 2. gr. frv. sem ég vildi koma á framfæri á þessu stigi málsins. Í 1. mgr. 2. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Leyfi skv. 1. gr. skal veita þeim sem lokið hefur prófi frá læknadeild Háskóla Íslands svo og viðbótarnámi í heilbrigðisstofnunum hér á landi samkvæmt reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum læknadeildar Háskóla Íslands.“

Ef þetta er borið saman við núgildandi læknalög, sem eru frá því 1969, stendur þar, með leyfi forseta, í 2. gr.:

„Leyfi skv. 1. gr. skal veita þeim sem lokið hefur prófi frá læknadeild Háskóla Íslands, svo og framhaldsnámi í sjúkrahúsi eftir reglum“ og síðan kemur það sem breytt er í frv.: „sem læknadeild setur og heilbrigðisráðherra staðfestir.“

Ég tel þetta vera mjög veigamikla breytingu á þessari grein þar sem um er að ræða að annars vegar setur ráðherra reglur um hverjir fá læknaleyfi, en hins vegar er það læknadeild sem setur reglurnar. Ég tel miklu eðlilegra að læknadeild setji þessar reglur því að það hlýtur að vera engum betur ljóst hvaða kröfur eigi að gera til þeirra sem hljóta læknaleyfi en læknadeild, þ.e. hverjir eru til þess hæfir.

Í athugasemdum við 2. gr., sem er á bls. 13 í þskj., stendur, með leyfi forseta:

„Í 2. gr. er lögð til nýskipan mála varðandi almennt lækningaleyfi, þ.e. í stað læknadeildar og landlæknis meti nefnd skipuð landlækni, fulltrúa læknadeildar HÍ og fulltrúa Læknafélags Íslands umsóknir þeirra sem lokið hafa námi frá deildinni.“

Ég tel þetta náttúrlega mikið til bóta, en það er ekki talað um það hvers vegna þessu er breytt, af hverju þessi veigamikla breyting er núna gerð á þessari grein. Ég tel þetta geta verið varhugaverðar breytingar og vil beina því til heilbrmrh. hvers vegna þessar breytingar hafa verið gerðar. Þetta gildir á vissan hátt líka um 5. gr., en þar stendur, með leyfi forseta:

„Enginn læknir má kalla sig sérfræðing nema hann hafi fengið til þess leyfi ráðherra.

Ráðherra setur reglur um nám sérfræðinga að fengnum tillögum læknadeildar Háskóla Íslands“ — það er að vísu miklu strangara þar — „og getur enginn fengið leyfi til að kalla sig sérfræðing nema hann sanni fyrir læknadeildinni að hann hafi lokið slíku námi og landlæknir mæli með leyfinu.“

Ég set því ýmsar efasemdir við þessa grein og tel að þessi breyting sé til hins verra.

Í umsögn Læknafélags Íslands um þetta frv. sem barst heilbr.- og trn. Ed. í fyrra er mælt gegn þessari breytingu og segir þar að félagið vilji að það sé læknadeild Háskóla Íslands sem setji þessar reglur og heilbrmrh. staðfesti. Ég tel því þetta vera breytingu til hins verra. Ég hef ekki kannað þetta frv. mikið að öðru leyti en vonast til að fá tækifæri til þess að vera áheyrnarfulltrúi í heilbr.- og trn., þar eð Kvennalistinn á ekki sæti í þeirri nefnd, þegar fjallað verður um þetta frv.