24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

116. mál, læknalög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Mér finnst að það sé að mörgu leyti tímabært að menn ræði hér á hinu háa Alþingi um þá stéttarmúra sem stéttarfélög gjarnan hlaða sér til hagsbóta.

Það hefur orðið mjög almennt að lagt er á það mikið kapp að lögvernda bæði starfsheiti og réttindi og skyldur. Ég verð að segja eins og er að einir af þeim aðilum, sem mér finnst að hljóti að búa yfir það mikilli þekkingu fram yfir hinn almenna mann að þeir ættu ekki að þurfa á mikilli lögvernd að halda, eru læknar. Manni finnst það dálítið skrýtið ef úr þeirra hópi væri einhver ótti við það að einhver annar, sem ekki hefur til þess menntun, teldi sig vera færan um að gegna þeirra starfi. Ég fæ varla séð hvernig það má eiga sér stað. Mér er það minnisstætt að hingað kom læknir sem hafði starfað í útlöndum, en honum gekk mjög þunglega að fá að starfa hér á landi. Það var eins og mikil tregða væri að veita mönnum starfsréttindi hér nema því aðeins að þeir hefðu stundað nám í Háskóla Íslands. Ég er ekki viss um að við værum ákaflega spenntir fyrir því, Íslendingar, ef aðrar þjóðir gerðu mikið af því að hlaða slíka múra í kringum það menntakerfi sem þeir væru með þó ég geri það ekki að aðalatriði míns máls nú.

Það sem ég vildi ræða hér númer eitt er 8. gr. þessara laga. Mér er vissulega ljóst að það sé ekki óeðlilegt að í lögum sé ákvæði eins og hér stendur, með leyfi forseta:

„Lækni er heimilt að skorast undan störfum sem stangast á við trúarleg eða siðferðisleg viðhorf hans, séu störfin ekki framkvæmd í lækningaskyni.“

Það er nú svo að í skýringum er ekki farið mikið út í þetta mál. Þó er hér vikið að því í skýringunum að m.a. sé átt við það að læknir geti neitað að framkvæma fóstureyðingu, ef hún er af félagslegum ástæðum.

Mér sýnist að eins og þetta er sett upp hljóti það að vera eðlilegt að Alþingi gangi þannig frá þessum lögum að inn í lækningaleyfi hvers og eins verði skráð, þegar hann fær það, hvaða atriði það eru af trúarlegum eða siðferðilegum ástæðum sem hann treystir sér ekki til að framkvæma því það gæti verið mjög bagalegt þó ekki sé meira sagt ef þannig atvikaðist, við skulum setja dæmið þannig upp, að slíkur maður yrði skipaður yfirlæknir yfir fjórðungssjúkrahúsi eða yfir Landspítalanum sem hefði á þessu svo ákveðnar skoðanir að af trúarástæðum væri hann ekki reiðubúinn að framkvæma þau lög sem væru í landinu. Mér finnst þess vegna ekkert óeðlilegt þó að þetta sé hér upp tekið og vakin á því athygli. Það hlýtur þá að vera eðlilegt að þetta sé sett inn í lækningaleyfið þannig að það komi til álita við veitingu embættis hvort ákveðinn aðili er fær um að taka við því af trúarlegum eða siðferðilegum ástæðum. Mönnum finnst kannski skrýtið að þetta sé gert hér að umræðuefni, en þó er vitað að þetta hefur verið allmikið í umræðunni. Mönnum hefur sýnst sitt hverjum. Mér finnst að það sé dálítið í lausu lofti hver sé réttarstaða þeirra sem þurfa að leita til læknis undir þeim kringumstæðum.

Ég skil þetta samt svo að menn geti ekki af siðferðilegum ástæðum neitað að vinna á sunnudögum. En vafalaust er hugsanlegt að umræða um slíkt gæti farið fram. Ég skil þó að þarna sé fyrst og fremst átt við ákveðin störf en ekki hvenær þau séu unnin.

Ég taldi rétt að heilbrmrh. fengi þessi viðhorf mín hér og nú því að við erum að framkvæma endurskoðun á þessum lögum og ekki víst að við þeim verði hreyft á næstunni ef þau fara í gegnum þingið.