24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

78. mál, kosningar til Alþingis

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það vekur mér nokkra undrun að hv. þm. skuli flytja þetta frv. þar sem hann situr í stjórnarskrárnefnd. Mér hefði þótt eðlilegra að hann hefði beitt áhrifum sínum innan stjórnarskrárnefndar til að kynna þessi sjónarmið. Ég tel hins vegar að það sé margt vel um frv. Þó við höfum afgreitt á sl. vori kosningalög, og ég kom m.a. þar að, eru þau kosningalög gölluð og það er öllum ljóst. Það er reynt í þeim kosningalögum að samræma tvö ósættanleg sjónarmið. Það var gengið út frá því að ákveðið misræmi yrði á milli atkvæðavægis á milli kjördæma, en samt er sóst eftir fullum jöfnuði á milli flokka. Þetta sjá menn að getur ekki gengið upp, ekki bæði þessi atriði, og þetta varð til þess að kosningalög sem við nú búum við eru nokkuð flókin og ekki þægilegt að sjá fyrir hver úrslit verða.

Ég er sammála hv. flm. um að prófkjör eins og þau hafa verið tíðkuð undanfarið eru orðin úrelt og það er nauðsynlegt að breyta til. Það er engin leið að halda áfram á sömu braut. Þetta er allt komið út í vitleysu, a.m.k. hjá sumum flokkum, hvernig þessi prófkjör hafa þróast. Fjármunir og auglýsingatækni eru farin að spila allt of mikið inn í úrslit prófkjöra, a.m.k. í stærstu kjördæmunum, og þau eru gengin út í öfgar.

Sú hugmynd hefur lengi verið á lofti og átti talsvert fylgi, a.m.k. um tíma, að hafa sameiginlegt prófkjör fyrir marga flokka á sama degi. Það eru viss rök fyrir því. Hér er ekki gengið út frá því. En Alþb., ef ég man rétt, hefur verið heldur andstætt þessari hugmynd fram að þessu. A.m.k. hefur það verið svo þegar þetta hefur verið prófað fyrir bæjarstjórnarkosningar í kjördæmi okkar hv. þm. Ragnars Arnalds. Þá hefur Alþb. ekki viljað taka þátt í þess háttar prófkjöri.

Ég verð að segja að ég sé galla á ef ekki allir flokkar taka þátt í prófkjöri því stuðningsmenn þeirra flokka sem ekki taka þátt í prófkjörinu geta hreinlega riðið baggamuninn og stillt upp fyrir aðra flokka. Það er ekki siglt út fyrir það. Ef ekki er gert að skyldu að allir flokkar taki þátt fá menn ekki tryggingu fyrir því að kjósendur flokksins einir ákveði framboðslistann.

Ég er miklu hrifnari af hugmyndinni um óraðaðan framboðslista. Ég var einu sinni mjög á móti henni, en eftir því sem tímar hafa liðið og maður hefur fengið reynslu af þeim aðferðum sem notaðar hafa verið er ég orðinn inni á því að skásta leiðin sé að hafa óraðaða framboðslista þar sem kjósandinn með þátttöku sinni, með því að kjósa listann, öðlast rétt til að raða á hann. Mér finnst að það sé sá aðgöngumiði sem kjósandinn þarf að greiða til að fá að hafa áhrif á uppröðun á listann. Þess vegna held ég að óraðaður listi skv. 2. gr. sé miklu heppilegri en að fara þá leið sem lagt er til í 1. gr. frv. Þá ná þeir einir kosningu sem hafa stuðning kjósenda þess flokks sem kosinn er.

Ég held að við eigum að stefna að því, og ég vil heita á hv. 1. flm. frv. að berjast fyrir því í stjórnarskrárnefnd að sá háttur verði upp tekinn, að hafa óraðaða lista þar sem kjósendur ákveða í kjörklefanum hvernig upp verður raðað.

Þetta hefur hins vegar ákveðna galla fyrir frambjóðendurna sjálfa. Kosningabaráttan verður frambjóðendunum erfiðari en réttur kjósandans verður hins vegar meiri. Við erum að sækjast eftir því að auka valfrelsi kjósenda og það held ég að verði best gert með þessu móti.

Hér segir bæði í grg. og eins í ræðu flm. að kjósendur eigi þess skv. gildandi kosningalögum tæpast kost að ráða neinu um röðun frambjóðenda á þeim listum sem þeir kjósa. Þetta er misskilningur og ég kvaddi mér einkum hljóðs til að leiðrétta hann. Meiri hluti kjósenda, þ.e. helmingur kjósenda plús einn, getur breytt röð á lista skv. gildandi kosningalögum þannig að sé meiri hluti fyrir breytingu á lista getur hann komið henni fram. Það finnst mér ekkert óeðlilegt ákvæði. Hins vegar þarf meiri hluta til. Minni hluti ræður ekki við að breyta listanum. Ef meiri hluti kjósenda, þ.e. helmingur kjósenda plús einn, fellir sig ekki við röð t.d. á fyrsta og öðrum manni á listanum getur þessi meiri hluti annaðhvort breytt númeraröð á milli þeirra og þá skipta þeir um sæti, sá sem var annar á lista verður fyrsti og öfugt, ellegar, ef meiri hluti kjósenda sættir sig alls ekki við þann mann sem efstur er á listanum, getur hann strikað hann út og þá fellur hann. Þó að 49,9% kjósenda kjósi hann fellur hann út af listanum ef 50,1% óskar eftir því að losna við hann.

Þessi útstrikunarákvæði finnast mér ekki óeðlileg og reyndar miklu eðlilegri en ef t.d. þriðjungur kjósenda eða fjórði partur hefði það á valdi sínu a& breyta röðun á lista. Ég held að þau ákvæði skv. áður gildandi kosningalögum um breytingar á listum, sem nokkrum sinnum reyndi á, þó fyrst og fremst í bæjarstjórnarkosningum, með tilheyrandi flokkadráttum og illindum, séu ákvæði sem við ættum ekki að taka upp aftur og séu góðu heilli horfin. Réttur meiri hlutans er tryggður skv. gildandi lögum og ég sé enga ástæðu til að breyta því.