24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

78. mál, kosningar til Alþingis

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir á þá leið að þeir flokkar sem að ríkisstjórninni standa hafi orðið ásáttir um að endurskoða kosningalögin almennt. Í framhaldi af því skrifaði forsrh. stjórnarskrárnefnd og óskaði eftir því að hún tæki að sér að vinna að endurskoðun kosningalaganna. Hefur þegar verið haldinn um það einn fundur í stjórnarskrárnefndinni. Á þeim fundi var formanni nefndarinnar falið að ráða mann til að vinna að frumdrögum að kosningalögum. Það hefur þegar verið gert og sá maður er fyrir nokkrum vikum byrjaður á því starfi. Munu fyrstu frumdrög verða lögð fyrir þegar þau eru til og stjórnarskrárnefnd þá kölluð saman.

Hér er um að ræða algera endurskoðun kosningalaganna, ekki eingöngu þann hlutann sem endurskoðaður var og lög samþykkt um á síðasta þingi heldur er hér um að ræða ýmsar tæknilegar breytingar sem ekki hafa verið gerðar í langan tíma. Allt þetta tekur nokkurn tíma, en að því er stefnt að frv. verði tilbúið þannig að það verði hægt að senda það til ríkisstjórnarinnar sem tekur þá ákvörðun um framlagningu þess þegar þing kemur saman, væntanlega seint í janúarmánuði. Að þessu er stefnt, en hvort það tekst skal ég ekki fullyrða á þessu stigi. Það er margt, sem þarf að breyta, sem ekki er í takt við tímann eða í takt við þær samgöngur sem nú eru eða voru, framboðsfrestur og fleira sem þarf að ræða. Ég ætla ekki að fara að tala um þau afmörkuðu atriði sem þetta frv. fjallar um. Þar kemur margt inn í. Ég ætla heldur ekkert að lýsa yfir þeirri skoðun minni hvort það sé rétt eða rangt að flytja frv. á þessu stigi. Það gerir í sjálfu sér ekkert til þó að slíkt frv. liggi hér fyrir. Ég sé ekkert athugavert við það. En það eru til mörg gögn og margt er búið að vinna og er verið að framkvæma og væntanlega gengur vinnan eftir þeirri áætlun sem hefur verið gerð. Ég vildi aðeins að þessar upplýsingar kæmu fram, en ég bíð með að tala efnislega um málið þangað til síðar.