24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

78. mál, kosningar til Alþingis

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. og formaður stjórnarskrárnefndar hefur lýst því í ræðu að í samræmi við ákvæði stjórnarsáttmálans sé nú hafinn undirbúningur að því í nefndinni að endurskoða ríkjandi kosningalög. Hann lýsti því einnig yfir að það væri stefnt að því í nefndinni að sú endurskoðun hefði farið fram þegar Alþingi kemur saman að nýju eftir jólaleyfi.

Ég verð, herra forseti, að lýsa þeirri skoðun minni að ég efast um að það takist því allmiklu meiri tíma hafa menn þurft að gefa sér en þann, en vil líka láta það koma fram jafnframt að þó svo að þetta starf sé hafið í nefndinni finnst mér það síður en svo vera til þess fallið að ekki eigi að leggja fram frv. eins og það sem hv. þm. Ragnar Arnalds hefur lagt fram í þessari deild. Þvert á móti finnst mér mjög æskilegt og raunar nauðsynlegt að einhver umræða um þessi mál geti farið fram á Alþingi jafnhliða starfi stjórnarskrárnefndar þannig að nefndin eða þeir sem eru að vinna á hennar vegum hafi einhverja hugmynd um hverjar ætla megi að skoðanir Alþingis séu á þeim málum sem verið er að fjalla um. Þó svo að þetta frv. hljóti ekki afgreiðslu á þessu þingi tel ég það engu síður gera mikið gagn, það gagn að það opnar þá umræðu sem hér er hafin.

Einn af ráðherrum íslenska lýðveldisins sagði einhverju sinni á fundi í útlöndum að á Íslandi ríkti „democrazy“. Mér hefur oft dottið þetta í hug því þetta orð, sem á íslensku mætti þýða „lýðæði“ í staðinn fyrir „lýðræði“, á oft mjög vel við okkur Íslendinga. Okkur hættir oft til þess að taka í nafni lýðræðisins ákvarðanir sem í sjálfu sér eru andlýðræðislegar og oftar en ekki vegna þess að okkur liggur svo lifandis ósköp mikið á. Við erum svo uppnæm fyrir öllum nýjungum að ef einhver nefnir orðið „frjálst“ hlaupa allir upp til handa og fóta og segja án umhugsunar: Þetta hlýtur að vera gott. Þetta hlýtur að auka lýðræðið í landinu.

Lýðræði grundvallast vissulega á skoðanafrelsi, prentfrelsi og málfrelsi, en lýðræði það, sem við iðkum, grundvallast einnig á því að hópur fólks sem hefur sömu meginafstöðu til þjóðmála tekur sig saman um, annaðhvort í formlegum eða óformlegum samtökum, að velja einn úr sínum röðum eða fleiri til framboðs í embætti sem kosið er í. Það er framkvæmdin á lýðræði því sem við þekkjum að þessi skoðanahópur, sem er samstiga í grundvallaratriðum, velur einhvern úr sínum hópi til að vera fulltrúa sinn á Alþingi eða í sveitarstjórn. Menn hljóta að sjá það, ef menn hafa fyrir því að hugsa á annað borð, að það hlýtur að vera í andstöðu við þessi meginatriði ef fólk sem ekki aðhyllist umræddar grundvallarskoðanir ræður e.t.v. úrslitum um hvaða aðili er valinn af þessum tiltekna hópi. Menn hljóta að sjá, ef þeir aðeins hugsa málið, að það getur ekki verið að svona aðferð til vals á frambjóðanda sé í samræmi við lýðræðið eins og við viljum túlka það. Þetta er ekki lýðræði. Þetta er það sem hinn ágæti ráðamaður Íslendinga kallaði á fundi í útlöndum „democrazy“. Þetta gengur ekki upp, hvorki við almenna skynsemi né þau grundvallaratriði í stjórnmálum að þeir flokka sig saman, hvort sem það er í formlegum stjórnmálaflokki eða óformlegum samtökum, sem hafa sömu grundvallarafstöðu til þjóðmála og úr sínum hópi velja þeir sína fulltrúa. Fulltrúarnir starfa á þeirra ábyrgð og í þeirra umboði.

Það má síðan endalaust deila um hvernig vali hópsins á að vera hagað. Ég skal fúslega lýsa þeirri skoðun minni að ég tel það hafa verið orðið mjög óeðlilegt eins og að því var staðið á sínum tíma þegar mjög þröngur hópur úr hverjum flokki eða samtökum réði fyrir alla hina hver úr hópnum eða samtökunum var valinn til framboðs. En fyrr má nú rota en dauðrota. Aðferðin til að laga það, aðferðin til að auka lýðræðið í flokkunum og hinum óformlegu samtökum er alls ekki sú að ganga þannig frá reglum að jafnvel þeir sem opinberlega lýsa sig andstæða þeim sjónarmiðum sem verið er að velja fulltrúa fyrir skuli hafa úrslitavald um hver valinn er.

Þegar þessi sjónarmið voru kynnt í umræðum á þinginu á sínum tíma, fyrir nokkrum árum, og sagt að þetta væri lýðræði, það að fela úrslitavald til vals á fulltrúa fyrir ákveðna hópa í hendur þeim sem ekki töldu sig tilheyra viðkomandi hópi, var sagt sem svar við ábendingum um þetta: Menn verða að treysta fólkinu. Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn að treysta fólkinu, en vandinn er sá að frambjóðendur og stuðningsmenn þeirra fara jafnan offari í þessum efnum og þeir biðja gjarnan fólk um að gera það sem það mundi ekki hafa gert af eigin frjálsum vilja. Ég veit að margir þekkja dæmi um slíkt. Sjálfur þekki ég það af eigin raun. Ég hef verið beðinn um það, alþm. fyrir Alþfl., að taka þátt í prófkjöri fyrir annan flokk. Þegar ég svaraði því að að sjálfsögðu gerði ég það ekki því mér væri það óheimilt var spurt: En getur ekki konan þín farið? — M.ö.o.: þessar starfsaðferðir eru orðnar svo fráhverfar lýðræði, eins og við þekkjum það a.m.k., sem framast má verða.

Flokkarnir hafa reynt að sjá við þessu, ef svo má segja, með ýmsum hætti, m.a. þeim hætti að þeir kjósendur sem taka þátt í forvali eða prófkjöri séu látnir undirrifa yfirlýsingu um að þeir hyggist styðja flokkinn. Eins og hv. þm. Ragnar Arnalds tók fram áðan er slíkt í hæsta máta óeðlilegt. Það brýtur ekki aðeins þau ákvæði kosningalaga að takmarka fjölda meðmælenda með hverju framboði. Það brýtur einnig að mínu viti í bága við það ákvæði stjórnarskrár að kosningar skuli vera leynilegar því að með slíkri yfirlýsingu eru menn raunar að tjá sig um það opinberlega hvernig þeir ætla að greiða atkvæði í næstu kosningum. Það er óeðlilegt að stjórnmálaflokkur, sem á að standa vörð um lýðræðið og um stjórnarskrá þess lands sem hann starfar í, geri þá kröfu til þeirra sem taka þátt í forvali eða kosningum að þeir brjóti þannig í raun og veru í bága við grundvallaratriði sjálfs lýðræðisins í landinu, stjórnarskrána sem er starfað eftir. Aðferðirnar sem stjórnmálaflokkarnir sjálfir hafa reynt að beita til að koma í veg fyrir að aðilar sem eru í andstöðu við viðkomandi flokka hafi úrslitaáhrif á val þeirra á framboðum, hafa því ekki verkað. Jafnvel eru dæmi til þess að aðilar sem síðar hafa komið í ljós á öðrum framboðslistum hafi gert sér lítið fyrir og tekið þátt í forvali annarra flokka og undirritað yfirlýsingu um að að sjálfsögðu teldu þeir sig vera stuðningsmenn þess flokks sem þeir væru að taka þátt í prófkjöri hjá. Ég veit að ýmsir þeir sem hafa álíka langan þingferil að baki og ég muna eftir einum ágætum starfsmanni þessarar stofnunar sem sagði við okkur nokkra fyrir nokkrum árum að hann teldi það vera lítið lýðræði hjá einum tilteknum stjórnmálaflokki í Reykjavík að hafa meinað honum að taka þátt í prófkjöri hjá sér eftir að hann hefði á sama vorinu tekið þátt í prófkjöri hjá öllum hinum þremur. Ég get ekki, herra forseti, dregið þá niðurstöðu af slíkum ummælum að þetta sé í anda þess lýðræðis, sem við þekkjum: Að fólki skuli finnast eðlilegt að taka þátt í forvali, ekki hjá einum flokki, ekki hjá tveimur flokkum, heldur hjá öllum þeim flokkum sem fram bjóða í viðkomandi kosningum og undirrita yfirlýsingu um stuðning við þá alla. Þetta er ekki leiðin til að treysta grundvallarviðhorf í lýðræði með þjóðinni.

Ég veit ekki til þess, herra forseti, að nokkurs staðar í víðri veröld sé haft það fyrirkomulag um val á frambjóðendum flokka og samtaka sem prófkjörin og forvölin eru hér. Fyrir nokkrum árum, þegar þetta mál var mest á dagskrá, gafst mér kostur á að kynna mér sérstaklega fyrirkomulag þessara mála í Bandaríkjunum. Það er e.t.v. tímabært að koma með þær ábendingar fram núna, þegar liðin eru nokkur ár frá því að þessar ákvarðanir voru teknar, vegna þess að það gæti verið að menn gæfu sér tíma til að hugsa núna tíu árum seinna.

Í Bandaríkjunum eru þessi ákvæði þannig að sérhver borgari, sem hefur rétt til að taka þátt í kosningum og ætlar að greiða atkvæði í kosningum, verður að láta skrá sig hjá viðkomandi yfirvöldum í hverju ríki sem kjósandi. Þar verður hann að gefa upp nafn sitt og heimilisfang og aðrar persónulegar upplýsingar. Þar á meðal verður hann að upplýsa hvort hann telur sig fylgismann einhvers tiltekins stjórnmálaflokks eða ekki. Menn eru þar ekki aðeins skráðir á kjörskrá með nafni og heimilisfangi heldur með upplýsingum viðkomandi um hvort hann telur sig demókrata, repúblikana eða tilheyrandi einhverjum öðrum flokkum og samtökum eða utan flokka. Þegar forkosningarnar eru háðar í Bandaríkjunum mega ekki aðrir taka þátt í forkosningum demókrata en þeir sem í kjörskrá eru skráðir sem stuðningsmenn Demókrataflokksins. Aðrir mega ekki taka þátt í forkosningum repúblikana en þeir sem í kjörskrá eru skráðir stuðningsmenn Repúblikanaflokksins.

Þegar ég kannaði þessi mál á sínum tíma, mér gafst kostur á því, spurði ég sérstaklega fulltrúa ýmissa minnihlutahópa, sem voru mjög sterkir í tilteknum bæjarhverfum: Hvernig stendur á því að þið veljið ekki heldur þá leið að bjóða fram sérlista til að fá ykkar fulltrúa kjörna í sveitar- og bæjarstjórnum, þar sem þið eigið möguleika á því, en að greiða öðrum flokkum og framboðum atkvæði? Svarið sem ég fékk var þetta: Þarna verðum við að vega og meta. Ef við bjóðum fram sérlista með okkar fólki eigum við ekki möguleika á að taka þátt í forvali hjá stóru flokkunum og ráða e.t.v. úrslitum um hver velst til framboðs af þeirra hálfu. Þess vegna þetta voru blökkumenn sem ég talaði við — veljum við heldur þann kost að láta skrá okkur sem demókrata og bjóða ekki fram eigin lista til þess að geta tekið þátt í prófkjöri demókrata sem við ella værum útilokaðir frá. Hvergi í víðri veröld, jafnvel ekki í Bandaríkjunum sem menn hafa þóst sækja þessi fordæmi til, viðgangast því þær aðferðir sem við Íslendingar höfum viðhaft í þessu efni. Og ég sé ekki annað en að þeim flokkum og framboðum sem á seinni árum hafa komið nýir og ekki hafa viðhaft þessar aðferðir til vals á frambjóðendum hafi farnast mjög vel í kosningum og ég sé ekki að íslenskir kjósendur hafi látið þessa flokka gjalda þess að þeir skuli ekki viðhafa sömu reglur og gömlu flokkarnir hafa um val á frambjóðendum.

Svo er það öfugmæli þegar menn í gömlu flokkunum eru að tala um það í öðru orðinu að nauðsynlegt sé að efla og styrkja flokkana og segja í hinu orðinu við flokksmenn þessara sömu flokka og samtaka: Þið skuluð taka á ykkur allar þær skyldur sem því fylgir að vera yfirlýstur stuðningsmaður einhvers tiltekins flokks, en réttindin eru engin sem skyldunum fylgja umfram þau réttindi sem allir Íslendingar hafa til áhrifa á starf okkar og stefnu.

Herra forseti. Vissulega er þetta frv., sem flutt er hér, langt í frá að vera tæmandi og væri áhugavert að fá að sjá hvaða leiðir koma til greina til að veita kjósendum fullt valfrelsi um þá einstaklinga sem þeir vilja velja til setu á Alþingi og í sveitarstjórnum án þess að því þurfi að fylgja þeir atburðir sem hafa siglt í kjölfar forvals og prófkjöra. Það er hægt að hugsa sér ýmsar aðrar aðferðir til þess en koma fram í þessu frv. Það er hægt t.d. að hugsa sér þá aðferð að það séu bókstaflega engin sérstök framboð viðhöfð heldur að allir Íslendingar sem kjörgengi hafa séu með jafnan rétt til að hljóta kosningu og kjósendur velji þá ekki úr hópi einhverra fárra frambjóðenda heldur þá meðal þjóðarinnar sem þeir helst kjósa að gegni þessum embættum. Það er einnig vel hægt að huga sér, og það er framkvæmt í mörgum löndum, að kjósendur þurfi ekki endilega að binda sig við einn flokk eða einn framboðslista þegar þeir velja fulltrúa sína til setu á Alþingi eða í sveitarstjórnum heldur sé þeim frjálst að velja af framboðslistunum jafnmarga og kjósa á af eins mörgum framboðslistum og menn kæra sig um, t.d. einn mann sem þeir treysta vel af þessum lista og annan af hinum. Þetta á sér stað og er víða framkvæmt og er vissulega lýðræðislegt.

Einnig koma þær hugmyndir til greina sem hreyft er í þessu frv., en ég ítreka að það væri áhugavert að fá að sjá á blaði hvaða hugmyndir til aukins valfrelsis kjósenda í kosningunum sjálfum koma til greina þar sem ekki er verið að spila með kjósandann og ekki verið að spila með einfaldar leikreglur í lýðræðisþjóðfélagi heldur verið að gera kjósandann ábyrgan fyrir atkvæði sínu og skoðun sinni, en jafnframt frjálsari að því hvaða einstaklinga hann velur til þess að vera fulltrúa sína á Alþingi eða í sveitarstjórnum en ekki til að vera fulltrúar einhverra annarra, einhverra skoðanahópa sem hann sjálfur ekki aðhyllist.

Ég ítreka, herra forseti, að ég tel að þessi umræða sé vissulega tímabær og þó að þetta sé fyrsta ár af fjórum á kjörtímabilinu er ekki ástæða til að bíða með að menn hefji umræður um breytingar á kosningalögum. Ég tel vissulega að það frv. sem hér er lagt fram sé þarft í því skyni að koma þeirri umræðu af stað.