24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

78. mál, kosningar til Alþingis

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta mál er lagt fram af hv. flm. Ragnari Arnalds. Það er að sjálfsögðu svo að þessi mál hljóta alltaf að vera til umræðu hér. Frá því að ég man eftir mér hafa menn rætt um ýmsar leiðir í sambandi við kosningar og val stjórnmálaflokka á fulltrúum á lista þeirra. Það er svo að það verður sjálfsagt aldrei samkomulag um neina eina leið. Menn geta velt þessu fyrir sér fram og til baka, fundið ýmsar leiðir til að breyta og jafnvel fundið betri leiðir. Menn hafa það gjarnan í flimtingum að þeir vilji gera þetta til að auka valfrelsi fólksins eða lýðræðið en það má deila um það. Það má líka heyra á mæli sumra að það er e.t.v, svo að menn eru að hugsa um hvort þeir ná meiri árangri sem stjórnmálamenn í framtíðinni.

Ég hef ekki þá skoðun að það eigi að vera sameiginlegt forval allra flokka og mér sýnist að það sé hugmyndin að reyna að koma kostnaðinum yfir á fólkið í landinu með því að hafa tvennar kosningar. Fyrst með forvali, sem yrði þá væntanlega jafndýrt og kosningar, og síðan kosningar á eftir. Ég tel að það væri ekki til bóta að hafa tvo kosningadaga í landinu.

Hér hefur verið komið inn á ýmislegt. Hv. 5. þm. Vestf. kom inn á marga merkilega hluti og er ekki að efa að margt af því er rétt, en öðru var ég reyndar ekki sammála. En það má velta því fyrir sér, þegar maður er að hugsa um þetta, að þegar er talað um að með því að gefa yfirlýsingu um að menn styðji viðkomandi flokk samræmist það ekki kosningalögunum. Það mætti eins hugsa sér að það samrýmist ekki kosningalögum yfir höfuð að vera í stjórnmálaflokki. Ef stjórnmálaflokkurinn er nægilega stór væri það brot á stjórnarskránni að vera í honum. Það er alveg það sama. Það eru ýmis svona atriði sem menn geta velt fyrir sér. Hitt verður vafalaust alltaf svo, að hver stjórnmálaflokkur og þeir menn sem eru í honum velja sér þær leiðir sem þeir óska eftir í sambandi við val á frambjóðendum.

Ég hef mikla trú á prófkjörum sem slíkum og ég hef mikla trú á því að ef þau eru opin öllum muni þau skila réttri niðurstöðu fyrir flokkinn — og hef séð það. Ég hef mikla trú á fólkinu, að það komi á kjörstað til að kjósa flokkinn og hann þurfi ekkert að biðja um yfirlýsingar um að það muni kjósa flokkinn í næstu kosningum. Ég tel að þessi hræðsla um að það komi einhverjir vondir menn úr öðrum flokkum, eins og hér hefur verið komið inn á, og breyti niðurstöðum í prófkjörum sé ástæðulaus. Það geta laumast með nokkrir aðilar sem skipta ekki máli í niðurstöðunni.

Það er alveg ljóst að erfitt verður að finna réttar leiðir, bæði í kosningalögum og öðru sem lýtur að kosningum. Ég fagna því sem hv. formaður stjórnarskrárnefndar kom inn á. Hann sagði að sú nefnd væri tekin til við að fjalla um þetta mál. Ég mundi óska eftir því að nefndin flýtti sér ekki um of. Þessi mál hafa æðioft verið hér til umræðu og æðioft verið til umræðu meðal fólksins og sýnist sitt hverjum.

Það er tvímælalaust svo að það verður ekki hægt að finna eina leið sem er alveg fullkomin. Ég er þó á því og hef lengi litið hýru auga til þeirrar aðferðar, eins og hér kom fram, að menn kjósi menn af mörgum listum frekar en að menn kjósi listana. Ég er sannfærður um að e.t.v. væri það lýðræðislegast að menn gætu kosið menn af mörgum listum ekkert síður en listana. Þetta hefur verið, eins og réttilega hefur verið komið hér inn á, gert víða og hefur gefið allgóða raun.

En það verður alltaf niðurstaðan engu að síður að menn eru ekki á eitt sáttir með þær leiðir sem á að fara, hvort eigi að velja einstaka stjórnmálaflokka, hvort eigi að velja þá leið að það séu heldur stórir flokkar eða litlir flokkar eða hvort yfir höfuð eigi að velja frambjóðendur af öðrum en fámennum hóp. Ég man eftir mörgum leiðum sem hafa verið farnar en alltaf eru það átök um völd. Menn eru auðvitað að berjast um völd. Það fer ekki hjá því. Menn eru að berjast fyrir skoðunum og völdum í þjóðfélaginu. Menn eru að reyna að koma sínum skoðunum á framfæri og reyna að komast til valda í þjóðfélaginu til að ná sínum skoðunum fram. Þetta gengur að sjálfsögðu allt út á það.

Það er mjög erfitt að finna, eins og ég kom inn á áðan, einhverja eina leið sem menn gætu sameinast um. Við sáum síðustu breytingu sem var gerð fyrir kosningarnar síðast. Þar þóttust menn hafa fundið nýja leið og betri, en strax núna eru menn farnir að efast um að það sé rétt leið. Ég er smeykur um að hér blandist saman við hvort menn telji að þeirra hlutur hafi verið nægilega góður eða ekki. Alltaf þegar hafa verið fluttar tillögur um breytingar hefur það verið stórt atriði. Það var réttilega komið inn á áðan að sú breyting sem síðast var gerð var um val á milli tveggja meginmarkmiða, annars vegar jöfnuð á milli flokka og hins vegar að reyna að jafna atkvæðisréttinn. Það er erfitt að segja um hvort hægt er að gera hvort tveggja án þess að það komi niður á öðru hvoru. Ég held þó að að það megi jafna atkvæðisréttinn án þess að það komi niður á jöfnuði á milli flokka. En það er þó erfitt að segja um það. Þessi sjónarmið eiga bæði rétt á sér. Menn geta reiknað til og frá og breytt kjördæmaskipun, breytt fjölda þm. og reiknað þetta upp og niður. Engu að síður verður alltaf að komast að niðurstöðu. Ég er ekkert viss um út af fyrir sig að það fáist önnur niðurstaða þó að kosningalögum verði breytt ef það verður gert eins og er í þessari tillögu. Þetta mál hlýtur að vera alltaf til endurskoðunar og menn hljóta að líta á það. Ég tel ekki að prófkjör hafi þá vankanta sem menn eru að tala um og held að sú leið sé einna réttlátust. En hitt er annað mál að með því að hafa sérstakt prófkjör, eins og hér kemur fram, er ég alfarið á móti. Ég tel að við eigum ekki að skella meiri kostnaði yfir á ríkið í þessu sambandi.

Ég vil þó fagna þeirri umræðu sem hér er hafin og þakka aftur hv. flm. fyrir að leggja þetta mál fram. Ég held að það sé tímabært að menn ræði um það hér ekki síður en í stjórnarskrárnefnd. Þetta verður alltaf til umræðu og menn munu vafalaust finna nýjar leiðir og e.t.v. betri leiðir í framtíðinni til að gera svo best sé fyrir land og þjóð.