24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

78. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls fyrir þær umræður sem hér hafa orðið og mér finnst að hafi verið í megindráttum frekar jákvæðar þótt auðvitað sé öllum ljóst alveg jafnt og mér að með þessu frv. hefur kannski ekki verið sagt seinasta orðið í þessum efnum heldur verður að skoða hina ýmsu kosti sem í boði eru. Tilgangurinn með flutningi frv. var einmitt sá að vekja umræður um málið. Það kom fram í máli hv. þm. Páls Péturssonar áðan að þar sem ég ætti sæti í stjórnarskrárnefnd hefði verið eðlilegra að ég léti nægja að ræða þetta mál þar. Sem betur fer hafa ýmsir ræðumenn orðið til að andmæla þessu sjónarmiði sem að sjálfsögðu er fráleitt. Ég get vitnað um það að þessi mál hafa verið til umræðu í stjórnarskrárnefnd í fimm ár. Ég sé ekki að það sé alveg að líða að því að nefndin afgreiði þessi mál frá sér og ef þeir sem sitja í stjórnarskrárnefnd ættu þannig árum saman að binda hendur sínar og ættu ekki að eiga kost á því að ræða mál af þessu tagi hér á Alþingi vegna þess að þeir sitja í nefndinni væri að sjálfsögðu illa farið.

Það var líka einkennileg athugasemd hjá hv. þm. Páli Péturssyni að Alþb., sem er minn flokkur eins og flestir vita, hefði verið andvígt sameiginlegum prófkjörum. Ég held að þessi fullyrðing hv. þm. hafi verið á misskilningi byggð. Alþb. hefur oft tekið þátt í sameiginlegum prófkjörum til undirbúnings sveitarstjórnarkosninga þó að hitt megi vel vera að í einstaka tilvikum hafi Alþb. ekki viljað taka þátt í slíkum kosningum á einhverjum stöðum á landinu. Það er auðvitað einungis til marks um að þessi sameiginlegu prófkjör hafa vissulega verið umdeild, bæði í mínum flokki og öðrum.

Hv. þm. taldi að eðlilegt svigrúm væri fyrir hendi til að breyta röð á lista því að ef meiri hluti kjósenda, þ.e. helmingur kjósenda að einum viðbættum, strikaði út efsta mann á lista breyttist röðin. Auðvitað er þetta alveg rétt, þannig er þetta í teoríunni. En hitt vitum við að þannig verður þetta ekki í reynd. Það þarf bæði mikil samtök til að tryggja það að helmingur kjósenda ákveðins flokks greiði allir atkvæði á sama veg, þ.e. að útstrikun þeirra sé hjá öllum með sama hætti, en auðvitað yrði það að vera ef þetta ætti fram að ganga. Staðreyndin er sú að þeir mörgu kjósendur, sem láta sig röðun listans engu skipta og hafa því engin áhrif á röðun listans, fylla að sjálfsögðu hóp þeirra sem mundu vera andvígir breytingunni og það er það sem gerir það að verkum að svona breytingar eiga sér aldrei stað með útstrikunum og hafa aldrei átt sér stað í 30 ár og enn síður eftir seinustu breytingu á kosningalögunum.

Hv. þm. Matthías Bjarnason gat þess áðan að stjórnarskrárnefnd væri að undirbúa tillögur um breytingar á kosningalögum og ég held að það hafi sannarlega verið á sínum stað að hann kom með þær upplýsingar hér inn í þessa umræðu. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson túlkaði að vísu ummæli hans þannig að ætlunin væri að skila þessum tillögum frá nefndinni strax að jólaleyfi loknu. Ég tók ekki eftir að hv., þm. Matthías Bjarnason kæmist þannig að orði. Ég hygg að sú túlkun hljóti að hafa verið á einhverjum misskilningi byggð. Ég er sannfærður um, hvernig sem hv. þm. Matthías Bjarnason hefur hagað orðum sínum, ég vil ekki alveg fullyrða um það, að það er ekki von á frv. um ný kosningalög frá nefndinni strax að jólaleyfi loknu. Það mun taka miklu lengri tíma og satt best að segja efast ég ekkert um að nefndinni er það hollt að þessi mál séu rædd víðar en í sjálfri nefndinni.