24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

78. mál, kosningar til Alþingis

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér er fram haldið umræðu sem hefur átt sér stað nokkuð lengi í þessu þjóðfélagi um það hvernig beri að tryggja hinum almenna manni möguleika til að hafa áhrif á uppröðun á lista hjá stjórnmálaflokkum án þess að það þurfi nauðsynlega að koma fram hvar hann sé í stjórnmálum og ég fagna því að menn skuli hér viðra sínar hugmyndir í þessu efni.

Það liggur ljóst fyrir að þau prófkjör sem framkvæmd hafa verið á undanförnum árum eru með nokkrum alvarlegum annmörkum. Í mesta þéttbýlinu er annmarki þeirra kannski fyrst og fremst sá að 51% af stuðningsmönnum ákveðins flokks geta grúppað sig saman og ráðið nánast listanum öllum ef þeim býður svo við að horfa og hinn hópurinn, þessi 49% þá, geta lent undir og ekki komið neinu fram. Þess vegna vil ég vekja á því athygli hér að ef þessi regla yrði upp tekin hlýtur það að vera mikil spurning hvernig eigi að standa að því að telja í fjölmennum kjördæmum þar sem vitað er að sami stjórnmálaflokkur er líklegur til að fá marga þm. kjörna. Það liggur nefnilega ljóst fyrir að eina réttlætið í því er nánast það að einhvers konar listakosning innan þess hóps eigi sér stað. Mönnum finnst kannski skrýtið að ég skuli vekja athygli á þessu, en þetta er eitt af því sem blasir við að hefur átt þátt í því að fjölga flokkum á Íslandi.

Annað atriðið sem ég vil sérstaklega vekja athygli á og tel að aftur á móti þetta frv., ef að lögum yrði, taki nokkuð vel á er það atriði að það hefur löngum verið uppi sá orðrómur að sumir hafi svo gaman af að taka þátt í prófkjörum að þeir vilji helst taka þátt í flestum prófkjörum sem eru á viðkomandi svæði. Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á það hvort það er satt eða ekki. (AG: Sem frambjóðendur?) Ekki sem frambjóðendur, það voru ekki mín orð, heldur sem kjósendur. Ég hygg að hægt sé að finna þess dæmi að það blasi við að menn hafi verið þátttakendur í nokkrum prófkjörum.

Hér er lagt til að þetta verði gert á þann hátt að um sameiginlegt prófkjör sé að ræða. Þá yrði þessi möguleiki úr sögunni og hver aðili hefði aðeins möguleika til að hafa áhrif á einn lista og jafnframt, sem ekki er síður mikilvægt á minni stöðum, gætu menn óhræddir farið og tekið þátt í prófkjörinu án þess að það leiddi til neinnar umræðu um það hvar þeir yfir höfuð væru í pólitík. Og við megum ekki gera lítið úr því ákvæði stjórnarskrárinnar sem telur það grundvallaratriði mannréttinda og lýðræðis að menn geti tekið þátt í kosningum án þess að það sé upplýst hvern þeir kjósa. Ég tel þess vegna að þetta sé mjög mikilvægt, á smærri stöðum sérstaklega, að menn átti sig á því að prófkjör eins og þau hafa verið rjúfa að nokkru leyti þessa þögn eða þá leynilegu stöðu sem menn hafa verið í.

Auðvitað er það svo að okkar gagnmerka stjórnarskrárnefnd, sem hefur í gegnum tíðina átt á að skipa hinum virðulegustu mönnum og starfað mjög lengi, unir því illa að menn séu að flytja mál sem snerta stjórnarskrána án þess að þau séu áður viðruð innan þeirrar nefndar. Ég hef reyndar litið svo á að þessi stjórnarskrárnefnd sé andvana fædd. Ég segi ekki að það sé föst regla að menn kveðji hana aðeins á einn veg en mér sýnist að það liggi ljóst fyrir að við fáum aldrei stjórnarskrá ef við viðhöfum þau vinnubrögð að láta standa að þeirri vinnu eins og verið hefur. Ef nokkurs staðar þyrfti að setja sólsetursakvæði og skammta mönnum vinnutíma þar til þeir skila af sér er það f þessari blessaðri stjórnarskrárnefnd.

Mér er ljóst að hér væri hægt að hafa langt mál um þá hluti og þeir eru vafalaust til hér í þinginu sem telja enga þörf á því að við setjum okkur aðra stjórnarskrá, notumst við þá sem við höfum, en ég hef verið í þeirra hópi sem telja að mjög brýnt sé að breyta stjórnarskránni. Mér hefur virst að það væri þó nokkur hópur í þinginu sem hefði áhuga á að breyta stjórnarskránni. E.t.v. er það svo að menn vilja breyta henni hver á sinn veg þannig að samstaðan sé ærið lítil.

Einu sinni var umræðan þó komin á það stig að menn töluðu nánast um það að ef stjórnarskrá yrði samþykkt hér í þinginu yrði það fyrst og fremst til að auka hróður eins manns og aldrei að vita nema stjórnarskráin yrði við hann kennd ef hún yrði samþykkt. Það eitt virtist vera nægilega mikilvægt til að koma í veg fyrir að menn héldu áfram með það verk sem þá var lengra komið en nokkurn tíma áður. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að það sé ekki óeðlilegt að menn leggi fram frv. hér á Alþingi sem miði að því að breyta stjórnarskránni. Menn geta aftur á móti varla gert ráð fyrir að það verði samþykkt á fyrsta þingi að nýafstöðnum kosningum vegna þess annmarka sem á slíku er, að þá er það ákveðið þar með að kosið verði í landinu. En það breytir engu um það að þetta frv. sem hér er lagt fram hlýtur að vekja þá umræðu hvort samstaða næst á Alþingi Íslendinga um að vinna að því að alþýða manna í þessu landi hafi meiri möguleika en hún hefur í dag til þess að ráða hverjir fara í framboð fyrir flokkana. Sem stuðningsmaður lýðræðis hef ég verið hlynntur því að alþýðan eigi þarna meira val.

Ég vil jafnframt geta þess að ég hef aldrei verið svo viss um að það væri neikvætt að sami maður ætti möguleika á því að velja menn til þingsetu þó að þeir væru ekki allir úr sama stjórnmálaflokki. Það er nú einu sinni svo að menn eru að kjósa menn á þing og það er hætt við að þegar menn gleyma því og fara bara að kjósa flokka sé fyrirsjáanleg veruleg gengisfelling á því mannvali sem situr á Alþingi Íslendinga.