24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

84. mál, viðskiptabankar

Steingrímur J. Sigfússon:

Virðulegur forseti. Fundartími þarf ekki að lengjast mikið vegna þess sem ég þarf að bæta við umræðu um þetta frv. sem hér er á dagskrá. Það er ekki nein stórvægileg breyting á bankalögum sem lögð er til með þessu frv. en ég tel engu að síður rétt að lýsa því hér yfir að ég tel að þessar breytingar yrðu til bóta. Þegar maður veltir því fyrir sér hvers vegna sú tilhögun hafi ekki verið við lýði sem hér er til lögð, þ.e. að þessi mikilvægu og valdamiklu störf væru auglýst samkvæmt föstum reglum eins og gjarnan er með önnur hliðstæð, þá satt best að segja furðar maður sig nokkuð á því að svo skuli ekki vera. Ég held að það sé óumdeilanlega miklu eðlilegra fyrirkomulag að leitað sé eftir hæfum mönnum til þessara starfa með því að auglýsa þau laus til umsóknar fyrir alla. Og þá er eðlilegt að í framhaldinu gefist umsækjendum færi á því að leggja fram ítarlegar upplýsingar um menntun sína og fyrri störf þannig að hægt sé að meta alla þá sem sækja á grundvelli bestu fáanlegra upplýsinga um þessa hluti. Ég er ekki að segja að það muni breyta mjög miklu um það hverjir koma til með að verða ráðnir bankastjórar í ríkisbönkunum á næstu árum eða áratugum þó að þessi tilhögun verði lögfest, en enginn getur held ég borið á móti því að það sé eðlilegra, hvað sem öðru líður, að viðhafa svona málsmeðferð. Það verður auðvitað þeirra sem valdið hafa að meta það, eins og verið hefur, hverjir séu hæfastir umsækjenda til að gegna þessum störfum. Við skulum a.m.k. gera því skóna að það sé á grundvelli slíks mats sem niðurstaða fæst í málin þegar ráðnir eru bankastjórar. Ég held að það sé út af fyrir sig allt í lagi, en það er varla efni til að ræða mikið tilhögun þessara mála í einkabönkunum eða hlutafélagabönkunum þar sem hér er eingöngu lögð til breyting á þessum ákvæðum er snerta ríkisbankana. Það getur vel verið, eins og síðasti ræðumaður, hv. 6. þm. Norðurl. e., sagði hér áðan, að þar sé í raun og veru ekkert síður um pólitíska íhlutun að ræða. Það er vissulega rétt að í sumum einkabankanna er hægt að finna augljós dæmi um valdasamþjöppun, bæði pólitísks valds og fjármálavalds. Í bönkum eins og Samvinnubankanum og Iðnaðarbankanum kann vel að vera að þetta sé enn þá lengra gengið en nokkurn tíma í ríkisbönkunum. En það breytir ekki hinu að það sé eðlilegt að reyna að taka upp það fyrirkomulag sem menn hafa mesta trú á og þykir eðlilegast og heilbrigðast við val þessara starfsmanna ríkisbankanna.

Það sem manni hefur fundist mjög ankannalegt í umræðum um þessi mál á undanförnum árum er þegar það gerist æ ofan í æ, eins og ég hygg reyndar að hafi komið fram hér í framsöguræðu, að það er tekið að velta vöngum yfir því, jafnvel árum áður en bankastjórastarf losnar, hver eigi nú þann stól, á hvers kvóta það sæti verði, og hvaða maður, hvaða gæðingur viðkomandi flokks fái þá að setjast í þann bankastól. Þetta er auðvitað óeðlilegt vegna þess að þarna virðast vera löngu fyrir fram valdir út tilteknir einstaklingar áður en nokkuð liggur fyrir um það hverjir aðrir kynnu að hafa áhuga á þessu starfi. Í öðru lagi finnst mér frekar óeðlilegt að það skuli ekki vera einhver fastari ákvæði um það hvenær skipt er um þessa embættismenn, hvenær þeir láta af störfum og þeirra starf sem losnar sé þá með eðlilegum hætti auglýst laust til umsóknar.

Herra forseti, ég þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég tel að þessar breytingar yrðu til bóta og því sé sjálfsagt að styðja framgang þessa frv. Það breytir svo auðvitað engu um það að það kynni að vera fjöldamargt fleira sem ástæða væri til að breyta og taka til meðferðar í málefnum viðskiptabankanna en það er þó rétt að minna á og muna það að ekki er langt síðan heildarendurskoðun þessara laga fór fram þó að þessi atriði hafi sloppið í gegn án þess að mikil umræða yrði um, ef ég man rétt.