24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

42. mál, áfengislög

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er svo langt um liðið síðan ég bað um orðið að ég get ekki svarið að ég muni nákvæmlega allt sem ég hafði hugsað mér að leggja inn í þessa umræðu, ekki svo að skilja að það væri neitt sérstaklega mikið. Ég ætlaði samkvæmt venju að lýsa afstöðu minni til þessa máls í nokkrum orðum þegar það er flutt á Alþingi. Þetta er gamalkunnugt þingmál og þeir sem sátu á hv. Alþingi á síðasta kjörtímabili er ekki óvanir því að taka þátt í fundum, sem dragast jafnvel nokkuð á langinn, þar sem þetta mál er til umfjöllunar.

Ég ætla ekki að endurtaka allt það sem sagt var um nákvæmlega hliðstætt frv. um að leyfa hér á Íslandi bruggun og neyslu á áfengu öli sem flutt var á síðasta kjörtímabili. Þær röksemdir sem ég setti þá fram eru enn í fullu gildi að mínu mati. Ég hef verið í þeim hópi sem hefur ekki haft óskaplega heita sannfæringu til eða frá um hvort leyfa ætti eða ekki leyfa og þá hvernig neyslu á áfengu öli á Íslandi einfaldlega vegna þess að ég held að það mál sé ekki í svarthvítum litum. Það má finna mörg rök gegn því óeðlilega fyrirkomulagi sem er á þessum málum, sem vissulega er ekki til fyrirmyndar, en það er líka jafnfráleitt að ræða þetta mál og horfa algerlega fram hjá þeim hættum sem því geta verið samfara að leyfa hér áfengt öl.

Það hafa margir mótmælt röksemdafærslu flm., sem fram kemur í grg., þar sem því er m.a. haldið fram að tilgangur þessa frv. sé að draga úr neyslu sterkra drykkja. Það hefur auðvitað margsýnt sig og hefur verið vitnað fram og til baka í ýmsa sérfróða aðila, bæði innlenda og erlenda, sem bera hið gagnstæða. Það er mér vitanlega ekki til nein einasta könnun sem styður það eða sannar að tilkoma áfengs öls dragi úr neyslu sterkra drykkja, en þær eru ófáar sem sýna hið gagnstæða, jafnvel viðurkennd reynsla heilla þjóða, eins og frænda okkar Finna, sem reyndar eru að mestu óskyldir okkur en stundum nefndir svo vegna þess að þeir eru ein af Norðurlandaþjóðunum. Þeir hafa af þessu býsna magnaða reynslu þar sem samhliða því að leyft var áfengt öl í Finnlandi jókst mjög neysla á hvoru tveggja, ölinu og sterkum drykkjum. Það er athyglisvert og umhugsunarvert fyrir þá sem taka þátt í þessari umræðu að kynna sér að núna þessa mánuðina stendur yfir í Finnlandi mikil umræða um að banna framleiðslu og neyslu á ákveðnum styrkleikaflokkum áfengs öls. Niðurstaða Finna af áratuga sambúð við þetta form áfengis er einfaldlega sú að það stefnir í að áfengislöggjöfinni finnsku verði breytt með það í huga að banna vissa styrkleikaflokka áfengs öls. Um þetta vitna nýlegar blaðagreinar, sem ég hef orðið mér úti um, frá Finnlandi. Það er þá fyrst og fremst milliöl sem þeir horfa til í þessu sambandi.

Það er eitt af því sem ég gagnrýndi við forvera þessa frv. og geri jafnframt við þetta frv. að hér er ekki gert ráð fyrir neinni flokkun ölsins. Það er gert ráð fyrir að allt áfengt öl sé leyft á einu bretti án þess að gerð sé tilraun til að flokka það upp í mismunandi styrkleikaflokka hvað þá heldur að setja einhverjar reglur sem taka á þeirri flokkun.

Ég hef sagt, virðulegur forseti, að ef ég ætti að styðja að þeirri breytingu að leyfa áfengt öl á Íslandi vildi ég gera það í tengslum við að heildarstefna væri mörkuð í áfengismálum, þar sem bjórinn væri einungis eitt af viðfangsefnunum, og þar sem mjög ákveðnar reglur yrðu settar um styrkleikaflokkun ölsins, sem væri í samhengi við áfengisstefnumörkun að öðru leyti, og að niðurstaðan af þessu öllu saman yrði sú að menn teldu það virkilega trúverðugt að þessa breytingu væri unnt að gera án þess að hún leiddi til aukinnar áfengisneyslu. Málið er svo einfalt í mínum huga, virðulegur forseti, að ég treysti mér ekki til að standa að breytingu á íslensku áfengislöggjöfinni sem mér þykir sýnt að leiði til aukinnar áfengisneyslu. Ef menn geta hins vegar sýnt mér fram á aðferð til að leyfa þennan valkost með einhverjum þeim hætti að það sé virkilega trúverðugt að af því þurfi ekki að leiða aukna neyslu mundi ég treysta mér til að standa að þessari breytingu. Svo einfalt er málið í mínum huga, herra forseti. Á þessu viðfangsefni, á þessum hluta málsins taka hv. flm. alls ekki. Þeir gera ekki minnstu tilraun til að gera það trúverðugt að þessi breyting geti átt sér stað án þess að af því leiði aukna áfengisneyslu.

Ég þarf ekki að bæta neinum orðum í þann belg sem hér hefur þegar verið þaninn um þær hættur sem því eru samfara og þau miklu vandamál sem mundu óhjákvæmilega fylgja í kjölfarið á aukinni heildarneyslu áfengis í landinu. Það er öllum kunnugt sem eitthvað hafa kynnt sér þennan málaflokk.

Það er enn fremur gagnrýnivert að mínu mati að þetta frv. er ekki sett í trúverðugan búning hvað varðar framkvæmd á málinu. Ekki er sýnt fram á með neinum rökum hvernig væri unnt að leyfa bjórinn án þess að það þýddi stórkostlegar breytingar á útsöluformi, jafnsjálfsagt mál og að ræða hvernig eigi að tryggja öllum landsmönnum sæmilega jafnan aðgang að þessari vöru ef hún verður leyfð á annað borð. Á því er ekki tekið hér. Ég sé ekki annað en að vegna þyngdar og umfangs vörunnar, sem hér er til meðferðar, hlyti óhjákvæmilega að verða þrýstingur á að leyfa afgreiðslu á vörunni á miklu fleiri stöðum á landinu en nú er. Ég held að það segi sig nokkuð sjálft að það gegnir öðru máli að panta með póstkröfum eina, tvær eða fáeinar flöskur af sterku áfengi og fá það sent í flugfragt. Það gegnir öðru máli um kassa af öli, bæði kostnaðarins vegna og fyrirferðarinnar.

Ég held að það sem skipti þó mestu máli og mér virðist menn sneiða furðumikið hjá að ræða í umfjöllun um þetta sé ósköp einfaldlega hvort með tilkomu bjórsins yrðu leyfðar hér krár eða ölstofur, þ.e. hvort hér yrði leyfður fjöldi afgreiðslustaða á þessu áfengisformi þar sem menn gætu gengið inn af götunni og keypt eingöngu áfengið og fengið það afgreitt sem slíkt. Það er það sem hér skiptir mestu máli. Sjálfur er ég persónulega þeirrar skoðunar að tilkoma áfengs öls í áfengisútsölum ríkisins í kassatali mundi tiltölulega litlu breyta um drykkjusiði Íslendinga ef það eitt yrði á ferðinni að menn gætu farið í áfengisútsölur ríkisins og keypt þar þessa tegund áfengis eins og aðrar. En það sem mundi valda straumhvörfum og hafa í för með sér stórfelldar breytingar á áfengisneyslunni og neysluforminu hér á landi yrði ef hér yrðu leyfðar ölstofur eða krár á öðru hverju götuhorni þar sem áfengi væri afgreitt án þess að menn þyrftu t.d. að kaupa sér mat eða með öðrum hætti að dvelja þar lengur við.

Ef við horfum til þess með hverjum hætti frændur vorir Svíar leyfa áfengt öl er það mjög mikilvægur þáttur í þeirra áfengisstefnumörkun, sem er vel að merkja framfylgt vegna þess að þar er lögunum framfylgt, að þar geta menn ekki gengið inn af götunni og keypt eingöngu áfengt öl á matsölustöðum sem hafa hins vegar leyfi til að selja mönnum ölið með mat. Þessu er þar stranglega framfylgt. Það þekki ég af reynslu þaðan sem ferðamaður. Það gerir að verkum að ölstofur eða krár, sem selja gestum og gangandi, eru þar ekki á hverju götuhorni. Þar finnast vissulega hótelbarir og aðrir slíkir afgreiðslustaðir þar sem hægt er að kaupa eingöngu öl, en það er ekki hinn almenni afgreiðslumáti á ölinu.

Ég hef ekki heyrt neinn af flm. frv. tala hreint út um hver er þeirra meining í þessu efni. Er t.d. meiningin að binda afgreiðslu ölsins við flöskur og við hella og hálfa kassa, eitthvað af því taginu, út úr áfengisverslunum ríkisins eingöngu eða er meiningin að áfengt öl af öllum styrkleikaflokkum, sem hér er meiningin að leyfa, yrði jafnframt afgreitt af hverjum einasta bar og á hverjum einasta matsölustað í landinu og jafnvel einnig út af krám eða ölstofum sem hefðu heimild til að selja ölið annaðhvort á kútum eða í flöskum án þess að menn keyptu mat eða hefðu önnur viðskipti við viðkomandi staði? Þetta er grundvallarspurning sem miklu máli skiptir að liggi ljóst fyrir ef menn afgreiða frv. og gera að lögum um að leyfa áfengt öl. Ég endurtek að það mundi valda miklu meiri straumhvörfum og vera miklu meiri breyting en það eitt þyrfti að verða í sjálfu sér að leyfa sölu áfengs öls úr áfengisverslunum ríkisins.

Það er fjölmargt fleira sem hefði út af fyrir sig verið fróðlegt að ræða hér, t.d. spurninguna um hvort leyfa á óheftan innflutning á þessari vöru eða hvort menn hyggjast setja einhverjar reglur sem takmarki hann og styrki þá stöðu innlendra framleiðenda ef til kemur. Það væri líka gaman að heyra flm. fjalla um þann þrýsting sem næsta örugglega yrði á löggjafarvaldið í framhaldi af því að áfengt öl yrði leyft í upphafi að opna og rýmka meira fyrir um löggjöfina á þessu sviði. Mín tilfinning er sú að jafnvel þó að menn leyfðu eingöngu sölu ölsins út úr áfengisverslunum ríkisins mundu mjög fljótlega í kjölfarið koma kröfur, þrýstingur um að afgreiðsla vörunnar yrði leyfð víðar og kröfur um að það yrði rýmkað um og áfengisleyfi veitt til handa ölstofum eða krám o.s.frv. Spurningin er því sú: Er trúverðugt að það verði á annað borð ráðið við þróunina ef ölið verður leyft?

Og að lokum, herra forseti. Menn hafa mikið notað sem röksemdir fyrir því að það sé best að skella sér í að leyfa hér áfengt öl að ástandið eins og það er nú sé svo niðurlægjandi fyrir þjóðina og óviðunandi. Nú getur það vel verið rétt og ég tel reyndar að það sé langt frá því að vera til fyrirmyndar að sá hluti þjóðarinnar sem ferðast til útlanda hafi aðgang að þessu og megi taka með sér inn í landið en ekki aðrir. En þetta eru ekki rök að mínu mati fyrir því að leyfa áfengt öl frekar en þetta eru rök fyrir því að banna það. Það má segja að þessi rök eigi nákvæmlega við um að banna þann takmarkaða innflutning sem nú á sér stað. Ég held að þeir sem komast að þeirri niðurstöðu að þeir vilji ekki leyfa áfengt öl eigi þá að vera sjálfum sér samkvæmir og vera tilbúnir að banna þann innflutning sem nú á sér stað. Það er ræðumaður.

Ég treysti mér ekki til að standa að því að leyfa áfengt öl á Íslandi með þeim hætti sem hér er flutt tillaga um og er þess í stað reiðubúinn að taka þátt í að afnema þann ólöglega innflutning sem ég tel að eigi sér stað inn í landið á grundvelli hæpinna reglugerðarákvæða sem að mínu mati fá ekki staðist í anda áfengislaganna. Væru þá allir jafnir fyrir lögum og málið stæði þá þannig að annaðhvort hefðum við hér á Íslandi áfengt öl eða ekki.