24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

42. mál, áfengislög

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég stend upp til að mótmæla því sem hv. 17. þm. Reykv. heldur fram. Það mál sem er til umræðu hefur ekki verið tafið heldur er nú annað. Það er alveg öfugt. Þetta mál fékk algjöran forgang í þinginu fram yfir öll önnur mál og mjög óeðlilegan forgang. Flm. fékk að flytja það án þess að nokkur annar fengi að taka til máls þann dag. Það eru óeðlileg þingsköp. Síðan hefur það verið bútað niður og verið síðast á dagskrá. Því hefur verið haldið fram að þeir sem væru á móti þessu máli væru að tefja það. Það er alrangt. Það er alveg öfugt. Það hefði átt að gefa þessu máli þingfund einu sinni og þá hefði það verið afgreitt og væri komið í nefnd. Ég held að það sé fyrst og fremst vegna þess að málinu var þannig komið fyrir í byrjun að það fékk algjöran forgang fram yfir mörg önnur mál sem það hefur ekki hlotið afgreiðslu í nefnd. Ég tel að mikilvægt sé að það fari í nefnd sem fyrst og hefði talið eðlilegt að mál væru afgreidd á þann hátt að þau væru tekin til einnar umræðu og afgreidd síðan í nefnd á eftir en ekki að þau væru bútuð í marga hluta.

Ég geri athugasemd við það, sem hefur verið haldið fram með óréttu eins og ég kom að áðan, að hér væri verið að tefja málið. Það er alrangt. Hefði það verið hefði ég ekki farið fram á áðan að það væri frestað umræðu um annað mál af sömu orsökum, þ.e. um bankamálið sem var til umræðu áðan. Ég tel að virðing Alþingis, eins og hv. 5. þm. Vestf. kom inn á áðan, sé sú að þm. sitji og ráðherrar sitji þingfundi.