24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

42. mál, áfengislög

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja þetta, en það er hrein fjarstæða hjá hv. 11. þm. Reykn. að þetta mál hafi haft einhvern forgang. Það var farið að þeim venjum sem eru í þinginu þegar um er að ræða varamenn sem eru hér að flytja mál. Það er alsiða, eins og þm. ætti að vera kunnugt, að þegar varamenn eru hér með mál er þeim gefinn kostur á að mæla fyrir þeim áður en þeir víkja af þingi. Það er slík fjarstæða að vera að tala um einhvern forgang í því sambandi að það nær auðvitað engri átt.

Ég vil segja að það hefur verið í samráði a.m.k. við mig og ekki í óþökk annarra flm., að því að ég best veit, að þessu máli hefur verið skipað á dagskrá svo sem verið hefur. Við höfum ekki gert kröfu til þess að mál annarra þingmanna vikju á meðan þetta mál væri afgreitt, auðvitað í trausti þess að að því kæmi að mál þetta fengi eðlilegan framgang við 1. umr. og það mundi reynast unnt að koma því til þingnefndar án þeirra tafa sem á því hafa orðið. Það er alls ekki svo að við höfum verið að ýta öðrum málum til hliðar eða troða þessu máli framar á dagskrá en verið hefði. Auðvitað hefur það verið í trausti þess að málið fengi eðlilegan framgang.

Ég vek athygli á því að helstu andstæðingar þessa máls, nokkrir hverjir a.m.k., hafa þegar talað í tvígang og mér finnst skjóta ærið skökku við ef það á að fresta þessari umræðu núna vegna þess að einn þm., sem þegar hefur lokið tveimur ræðum, óskar eftir því að fá að gera örstutta athugasemd á eftir. Ég beini því til forseta að hann ljúki þessu máli þó svo að það sé fátt í deildinni. Annað eins hefur gerst á Alþingi að það sé talað yfir tómum sölum.