25.11.1987
Efri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

135. mál, ráðstafanir í fjármálum

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Við þm. höfum nú einu sinni enn orðið vitni að upphlaupi meðal stjórnarþm., þ.e. að einn stjórnarþm. kemur hér í ræðustól til að gagnrýna heiftarlega stjfrv. sem flokksbróðir hans, hæstv. fjmrh., er að leggja fram og mæla fyrir. Þetta er ekkert nýtt. Svona hafa þingstörfin verið allt frá því að þing hófst 10. október.

Í Morgunblaðinu í morgun er haft eftir hv. 8. þm. Reykv. að í þingflokki Sjálfstfl. hafi ekki fengist nein samþykkt á fjárlagafrv. og áskilji þm. Sjálfstfl. sér allan rétt til að gagnrýna og fella jafnvel einstaka hluta þess. Mér er þá mjög til efs hvort yfirleitt sé um að ræða stjfrv. sem verið er að leggja fram af hæstv. ráðherrum núv. ríkisstjórnar. Er ekki miklu frekar verið að leggja fram þmfrv. þeirra þm. sem tímabundið, vonandi mjög stutt, gegna því hlutverki að vera ráðherrar í ríkisstjórn Íslands? Það er þá aftur spurning hvort þessi stjfrv. eigi nokkurn rétt á því að vera sett fremst á dagskrá. Hvort ekki eigi að láta þau fá eðlilega meðferð sem önnur þmfrv.

Annars væri mjög fróðlegt að fá skýrari svör hjá hv. 3. þm. Vestf. um það hvort hann er stjórnarsinni eða ekki.

Hæstv. fjmrh. beitir fyrir sig jafnaðarmennskunni. Hann segir að það eigi að reyna að leggja jafnan söluskatt á allt. Og það er út af fyrir sig stefna. Það er hægt að taka undir að það er jafnaðarmennska í orðsins fyllstu merkingu að reyna að ná jöfnum söluskatti á alla hluti í þjóðfélaginu.

Matarskattinum margfræga var frestað fram yfir áramót. Það er öllum ljóst eða ætti að vera orðið það nú þegar að hann verður lagður á með fullum þunga á altari jafnaðarmennskunnar og má þá búast við að það verði u.þ.b. 20% matarskattur á öllum matvörum eftir áramót. Matvara á Íslandi er með því dýrasta sem þekkist í víðri veröld. Eftir að matarskattur u.þ.b. 20% er kominn á allar helstu matvörur og nauðsynjavörur landsmanna verður það ekki bara láglaunafólkið sem á erfitt uppdráttar hér. Ég held að 90% allra landsmanna muni kikna undan því einfaldlega að geta haft lífsviðurværi hér og borðað. Þetta er alveg með ósköpum.

Þetta er allt afsakað með því að þetta eigi að vera undanfari þess að tekinn sé upp virðisaukaskattur á Íslandi. Ég spyr: Er ekki miklu nær að leggja fram frv. um virðisaukaskatt strax og íhuga það og kanna hvort sé þingmeirihluti fyrir virðisaukaskatti en að vera með þessar blekkingar um að jafna söluskatt á öllum hlutum til þess að það sé auðveldara að koma virðisaukaskattinum í gegn? Ég bið þá frekar um að strax verði lagt fram frv. um virðisaukaskatt svo það megi hefja þá umræðu og kanna hvaða meðferð það fær.

Það er talað um tollalækkanir sem eru boðaðar í frv. sem á að leggja fram samfara sérstöku vörugjaldi sem á að leggja á. Allt miðar þetta að því að auka álögur, tolla og skatta á almenningi, þannig að ég býð ekki í það að vera þjóðfélagsþegn á Íslandi hér á vormánuðum.