25.11.1987
Efri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

135. mál, ráðstafanir í fjármálum

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Það virtist ekki muna miklu að það gerðist hér að aðeins töluðu flokksbræðurnir hæstv. fjmrh. og hv. 3. þm. Vestf. um frv. sem liggur fyrir til umræðu og er staðfesting á brbl. eða fyrstu verkum núv. ríkisstjórnar. Eins og kom fram hjá þeim sem var að halda síðustu ræðu er það einkenni á umræðum nú á hv. Alþingi að í gangi er umræða á milli stjórnarsinna, gagnrýnandi hver annars frv., en það hefur ekki gengið það langt fyrr en nú að innanflokksátökin í stjórnarflokkunum komi fram í ræðustólum á hv. Alþingi.

Það frv. sem við erum að fjalla um verður fyrst og fremst frægt fyrir það að þetta er fyrsta frv. Alþfl. og verður fyrst og fremst frægt fyrir matarskattinn. Fyrstu ráð Alþfl. til að breyta fjármálastöðu í þjóðfélaginu voru að leggja á almennan matarskatt.

Um þetta frv. og um þessa hluti urðu miklar umræður í hv. þingi í upphafi þingtímans þannig að ég sé ekki ástæðu til að endurtaka mikið af því, en ég undirstrika að það munu sjálfsagt lengi í minnum höfð þessi fyrstu skref Alþfl. í núv. ríkisstjórn.

En það sem mér fannst sérstakt við þessa umræðu nú var að hæstv. fjmrh. kom upp til að svara hv. 3. þm. Vestf. og hann svaraði ekki með beinum rökum í sambandi við það frv. sem hér liggur frammi heldur með því sem er væntanlegt inn í hv. Alþingi og hélt langa ræðu um það sem koma skyldi, um þau frv. sem Alþfl. væri nú að leggja fyrir samstarfsflokkana í ríkisstjórn og væri verið að vinna þar.

Ég spurði sessunaut minn, hv. 8. þm. Reykv., hvort hann kannaðist mikið við þetta úr Sjálfstfl. Hann gaf lítið út á það. Fyrst hv. þm. er ekki inni ætla ég ekki að segja stærri orð um hans viðbrögð en þetta. Þannig virðist sem jafnvel þessi mál, sem hæstv. fjmrh. var að boða sem lagfæringu og leiðréttingu á skattakerfi þjóðarinnar, séu ekki komin lengra en svo að vera í undirbúningi hjá hæstv. fjmrh. Við megum kannski eiga von á að það sem hann er að boða og er að leggja fram sem rök gegn gagnrýni flokksbróður síns komi fram sem yfirlýsing frá fjmrh. en ekki stuðningsflokkum ríkisstjórnarinnar. Það væri gaman að heyra frá fulltrúum Sjálfstfl. og Framsfl. hér — þeir eru nú fáir framsóknarmennirnir — hvernig þessi mál eru undirbúin í stjórnarflokkunum og hvort það sem hæstv. fjmrh. er að boða er raunverulegt og sé eitthvað af því sem við megum búast við að ríkisstjórnin standi sameiginlega að.

Sá málflutningur sem hér hefur átt sér stað er sérstakur, að tilkynna mönnum um frv. sem komi á næstu dögum. Ég tel að það hefði verið miklu eðlilegra, ef það hefði þurft að fylgja umræðu um þetta frv., að umræðan um það hefði beðið og við hefðum getað tekið sameiginlega á þessum málum eða ekki með miklu bili á milli.

Hæstv. fjmrh. fór um það mörgum orðum hvað ætti að gera og nefndi ýmsar tölur sem erfitt er að henda reiður á og eðlilegra og betra hefði verið fyrir hv. þm. að hafa á milli handanna í frv., nefndi t.d. að það ætti að lækka tolla úr 80–90% í 30%. Af hvaða vörutegundum er þetta? Það á að leggja á 17% vörugjald. Það fer ekki að verða mikill munurinn á 25% söluskatti og 17% vörugjaldi og við vitum ekki hver söluskatturinn verður eftir að búið er að lækka hann eins og verið er að tala um og jafna hann út. Hæstv. ráðherra upplýsti reyndar að eftir útreikningum og kokkabókum ráðuneytis mundi þarna verða um 1,5% munur, verðhækkanir, og mundi þyngja framfærsluna. Ekki voru neinar tillögur um hvernig ætti að jafna þá stöðu. (Fjmrh.: 1700 millj. kr. tekjujöfnun.) Já, það var ekki útfært hvernig það ætti að gerast. Það má vel vera að ráðherra hafi sagt þetta, en við umræðu eins og þessa er erfitt að henda reiður á fullyrðingum og lýsingum á þessu dæmi öðruvísi en hafa fyrir sér þau frv. sem um þetta fjalla.

En allt þetta góða sem hæstv. ráðherra boðaði mundi ekki ganga upp nema við yrðum ekki fyrir ytri áföllum. Heyrt hefur maður þetta áður þegar rætt hefur verið um efnahagsmál á Íslandi. Óskaplega er þetta líkt íhaldssetningunum um að menn þurfi að verjast ytri áföllum og slíku. (Gripið fram í: Hv. þm. kannast við það.) Við gerum okkur alveg grein fyrir því að ytri áföll geta á ýmsan máta haft áhrif á efnahagsþróun og gera það. (Gripið fram í: Útgerðarmenn kannast við það.) Útgerðarmenn kannast við það, enda nefndi hæstv. fjmrh. það ekki síst. (Forseti: Ég vil áminna menn um að vera ekki með samtöl í deildinni.) Eigi skemmir það nú. — En hæstv. ráðherra nefndi að það væri eitt sérstaklega, hann nefndi aðeins eitt, sem blasti við af ytri áföllum og það væri að við mundum þurfa að sækja minni fisk í sjó á komandi ári. Við höfum heyrt það frá Þjóðhagsstofnun og annars staðar frá að það blasti við minnkandi kaupmáttur meðal þjóðarinnar vegna þess að við blasti minnkandi aflasókn. Þarna þarf ekki að kenna hrefnunni um, eins og hæstv. sjútvrh. var að boða að gerði mikinn usla í fiskistofnunum okkar á þingi Farmanna- og fiskimannasambandsins. Því miður er sjútvrh. ekki í salnum.

En staðreyndin er sú að málin blasa við okkur á þann veg að sú fiskveiðistefna sem við höfum búið við á undanförnum árum er að kalla yfir okkur versnandi þjóðarhag. Sú fiskveiðistefna sem okkur var boðað að skyldi verða sú stefna sem mundi byggja upp fiskstofnana og við færðum æ aukinn afla að landi er að skila okkur því núna að hún er að afhenda hæstv. fjmrh. ytri áföll á fyrstu stjórnarmánuðum hans vegna þeirrar stefnu sem rekin hefur verið í sambandi við íslenska fiskveiðistefnu og íslenska fiskveiðisókn. Um þetta mál mætti fjalla þó nokkuð mikið, en það var nokkuð sérstakt að þetta var það sem kom í hug hæstv. fjmrh. fyrst af ytri áföllum sem gætu blasað við okkur á komandi tímum. Það var að við byggjum við þannig lagaða fiskveiðistefnu og það væri búið að skerða fiskstofnana okkar á þann veg að á næsta ári yrði greinilega rýrnandi kaupmáttur vegna þess að við þyrftum að sækja minna í sjóinn en við hefðum gert á undanförnum árum. Þannig er búið að fara með þennan þátt góðærisins er við höfum búið við á undanförnum árum. Það er ekki aðeins búið að sóa gjaldeyrissjóðum okkar. Það er ekki aðeins búið að fjárfesta á hinn furðulegasta hátt víða í þjóðfélaginu. Það er líka búið að ganga á þessa líftryggingu og þennan stofn, fiskstofnana okkar í sjónum.