25.11.1987
Efri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

135. mál, ráðstafanir í fjármálum

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Hér hafa spunnist nokkrar umræður vegna þess að ég tók til máls áðan og þykir mér það einkennilegt. (SalÞ: Hafa menn ekki málfrelsi?) Að sjálfsögðu. Ég hélt það.

Aðeins fyrst út af því sem hv. þm. Júlíus Sólnes spurði um áðan, hvort ég væri stjórnarsinni eða ekki. Auðvitað á það ekki að vera í mínum verkahring að upplýsa þennan nýkjörna þm. um skyldur þm. Þær á hann að vita sjálfur. Ég tala nú ekki um jafnsprenglærður og hann kvað vera. Skyldur þm. eftir að hann er kjörinn eru að undirrita eiðstaf á Alþingi. Eiðstaf um hvað? Samkvæmt stjórnarskránni að fylgja sannfæringunni. Menn eiga ekki að haga sér svo í byrjun á þingferli að þykjast vera að spila sig frítt, vita ekki. Þetta er það eina sem þm. á að gera samkvæmt stjórnarskránni, að fylgja sannfæringunni. Hér kemur upp fulltrúi flokksins sem kallar sig flokk mannsins á götunni og aðalerindið er að tveir þm. úr sama flokki, Alþfl., eru ekki nákvæmlega á sama máli. Ja, hvílíkt raunsæi er innan veggja Borgarafl. ef þetta á að vera fylgifiskur þeirra áframhaldandi, svo fremi sem sá flokkur heldur áfram. Er það virkilega svo að menn í sama flokki geti ekki haft mismunandi skoðanir, geti ekki skipst á skoðunum með eðlilegum hætti án þess að menn finni sérstaklega þörf hjá sér til að tala um það á Alþingi? (HBl: Menn eiga náttúrlega að vera flokksþægir. ) Það má vel vera og því veit ég að hv. þm. Halldór Blöndal hefur kynnst. Hann hefur trúlega kynnst því að vera flokksþægur og kannski er hann kominn svona langt í mannvirðingarstiganum vegna þess. Kannski það. En það eru ekki allir jafnflokksþægir, hv. þm. Halldór Blöndal.

Ég veit ekki hvort ég á að tala um það þegar hv. þm. Skúli Alexandersson er að tala um innanflokksátökin. Guð hjálpi manninum. (Gripið fram í: Þau eru víða, glerhúsin.) Já, trúlega veit hv. þm. hvar þau eru, einnig. En að úr þeim herbúðum séu menn að tala um innanflokksátök annars staðar. Ja, guð hjálpi þeim mönnum. Nei, Alþfl. er frjór. Menn mega vonandi hafa þar skoðanir á málum hvort sem þær eru samþykkar skoðunum forustunnar eða ekki. Það eru frjóir flokkar þar sem einstaklingnum leyfist að hafa skoðun og geta haldið henni fram án þess að hlaupa fyrir borð og stofna annan. Þetta þykir sumum afskaplega skrýtið og ég er ekki hissa á þeim fulltrúum sem hér hafa talað um þetta — ég tala nú ekki um úr eldri flokkunum — sem þykir það skrýtið að hér skuli menn geta skipst á skoðunum með eðlilegum hætti þótt samflokksmenn séu.

Ekki kveinka ég mér undan því nema síður sé að ég sé bendlaður við gamla forustuliðið í Alþfl. Það er síður en svo að menn þurfi að kveinka sér undan því. Ég átti nánast ekki von á því að ég nyti þess heiðurs að vera bendlaður við gömlu foringjana úr Alþfl. sem lyftu merkinu, báru það fram til sigurs oftar en einu sinni. (Gripið fram í: Frjálslyndi og vinstri flokkurinn var líka til sölu.) Það er rétt, það var sama stefnan, og menn eiga að fylgja stefnunni, hugsjóninni, sannfæringunni.

En það eru fleiri sem hafa haft þessa skoðun að því er varðar matarskattinn af því að hv. þm. Halldór Blöndal vék að því. Var ekki nýverið haldið þing Landssambands verslunarmanna? Hverjir ráða þar ferðinni? Það veit hv. þm. Halldór Blöndal. Hverjir ráða ferðinni þar? Og hvað sagði það þing um matarskattinn? Það hefur engin samkoma, mér vitanlega, sem haldin hefur verið síðan sá skattur var á lagður eða talað var um að leggja hann á, mótmælt honum jafnharkalega og þing Landssambands verslunarmanna. Kannski eru þeir allir sammála mér. En ég minni á að það hefur verið stefna allrar verkalýðshreyfingarinnar og er enn, það ég best veit, að vera andvíg skattlagningu á matvörur. Þetta hefur verið stefna hreyfingarinnar í gegnum mörg ár og á meðan hún breytir henni ekki hlýtur hún að halda sig við hana. Ef menn eru orðnir annarrar skoðunar eiga þeir líka að segja það og viðurkenna. Þessari stefnu hefur ekki verið breytt. Hún er í fullu gildi og menn vilja halda sig við hana.

Ég held ég hafi komist svo að orði áðan út af matarskattinum að enn sæi ég ekki fyrir það sem koma ætti á móti. Ég hygg að ég fari efnislega rétt með það. Mín skoðun hefur verið sú — og þá tala ég sem jafnaðarmaður eins og ég raunar geri alltaf — að um leið og lagður væri söluskattur á alla hluti ætti söluskattsprósentan að lækka. Og meira en það. Það er ekki nóg að ná inn söluskattinum. Það þarf líka að setja reglur til þess að honum sé skilað til ríkisins sem á að fá hann.

Ég hlustaði á hæstv. menntmrh. í útvarpinu í gær þar sem hann minntist einmitt á söluskattinn og þær breytingar sem þar væri verið að gera en sagði jafnframt, og ég hugsaði mig um eftir það svar: „Meiningin var að lækka þá söluskattsprósentuna, en líklega verður lítið úr því.“ Og ef á að leggja söluskatt á allar matvörur en sama prósenta á að halda sér, hvað eru menn þá að gera? Ég vona að það sé ekki svo sem menn eru að tala um.

Ég tel að með þessu skrefi séu menn að byrja á öfugum enda. Við jafnaðarmenn höfum undanfarandi kjörtímabil gagnrýnt harðlega söluskattssvikin þar sem stolið er undan, löglega eða ólöglega, upp á milljarða króna. Það hefur engin breyting átt sér stað þar, en ég vona að hún verði. Ég er ekkert að segja um það að það kunni ekki að verða. Þessi ríkisstjórn hefur ekki setið æðilengi að völdum. Margar hafa setið miklu lengur en skilað minna. Við skulum því ekkert slá því föstu að hér geti ekki orðið á breyting. En þarna hefði átt að byrja að ná til þeirra sem undangengin ár hafa stolið undan skatti. Almenningur í landinu er orðinn tortrygginn á að það sé alltaf sagt: Það er verið að athuga þetta eða hitt. Við ætlum að reyna að gera þetta eða hitt og það kemur að þessu eða hinu. Því miður hefur almenningur í landinu fengið þá reynslu af stjórnvöldum, ríkisstjórnum, hvaða flokkar sem þar hafa átt hlut að máli, að þau hafa brugðist og það gefur almenningi í landinu ekki miklar vonir þegar slíkt hefur átt sér stað oft áður.

Þó að sú skattkerfisbreyting sem á að eiga sér stað nú um áramót nái fram að ganga verður engin breyting að því er fyrirtækin varðar, að því er þá varðar sem ætla að stela undan og hafa stolið undan. Það sýnist mér verða óbreytt þrátt fyrir að skattkerfisbreytingin nái fram að ganga nema eitthvað annað komi þá til.

Það er einmitt þetta sem ég er að tala um og ég bið menn að rifja upp, ég tala nú ekki um hv. þm., hvort það er eitthvað nýtt fyrir þá að heyra þessi viðhorf mín. Þetta lá fyrir strax fyrir myndun hæstv. ríkisstjórnar þannig að menn eiga ekkert að koma að tómum kofanum í þeim efnum. Þetta var ljóst og varð öllum ljóst, enda hef ég yfirleitt fengið það á mig, sem betur fer, að ég tali yfirleitt hreinskilnislega og menn viti hvar þeir hafa mig, það fari ekkert á milli mála. (HBl: Og erfitt að koma tauti við þig.) Já, stundum er það. En það er líka stundum gott að ekki sé verið að hringla í mönnum. Þetta er engin ný skoðun frá mér og er hún a.m.k. öllu alþýðuflokksfólki kunn, og þá hæstv. fjmrh. ekki síst.

Ég er þeirrar skoðunar að ákvörðun um matarskatt núna um áramót undir þeim kringumstæðum sem við stöndum frammi fyrir verði ekki til að greiða götu farsælla samninga. Ég bið menn líka, þegar menn eru að tala um — væntanlega segja menn — minnkandi aflamagn, verulega hækkaðar launatekjur, að hugleiða: Hvar lentu þær launatekjur? Hjá hverjum lentu þær? Ég held að það sé nokkuð ljóst, og um það eru menn nokkuð sammála, að þeir sem minnst höfðu fyrir hafa fengið minnst af launaskriðinu hafi þeir fengið nokkuð. Þeir hafa fengið minnst af því hafi þeir fengið nokkuð. Hinir sem nánast hafa getað tekið sér þetta fram hjá öllum eðlilegum leikreglum hafa fengið launaskriðið fyrst og fremst. Og ég segi það hér og segi það enn, hæstv. fyrrv. ríkisstjórn, hæstv. fyrrv. fjmrh. hleypti þessari skriðu af stað fyrir síðustu kosningar með samningunum við opinbera starfsmenn, sem nánast svik við Alþýðusamband Íslands og þau félög sem voru nýbúin að semja áður. Það var aldrei meiningin og aldrei um það talað, nema síður sé, að þetta gerðist í kjölfar jólaföstusamninganna í fyrra. Í framhaldi af þessu hafa síðan vinnuveitendur sjálfir síhækkað kaup þeirra tekjuhæstu með eigin ákvörðunum. Svo eiga hinir að sitja á botninum. Og ég bið menn að hugsa um það hvort raunverulega er hægt að ætla láglaunafólkinu að sitja enn í þessu sama fari. Ég held að ekki verði undan því komist að áður en kemur til eðlilegra kjarasamninga, ef menn vilja orða það svo, til heildarkjarasamninga, verði að leiðrétta laun fyrir þá sem ekki hafa notið launaskriðsins. Fyrr er ekki hægt að ganga til eðlilegra samninga. Ég held að menn verði að gera sér þetta ljóst. Undan þessu verður ekki vikist.

Ég vænti þess hins vegar fastlega af hæstv. ríkisstjórn, þá undir forgöngu hæstv. fjmrh., hins dugandi manns, að meira komi, að við fáum að sjá að það sé þá líka tekið á hinum sem hafa verið með undandráttinn undangengin ár í skatti og að tollurinn sé tekinn af þeim ekki síður. Því verður ekki unað öllu lengur að alltaf sé byrjað á launamanni en hinum sleppt. Ég vara menn mjög við því, ef menn á annað borð vilja af heilindum greiða götu eðlilegra kjarasamninga, að stíga áfram á þessari braut áður en menn hafa gert sér grein fyrir hvað það kann af sér að leiða.