25.11.1987
Efri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

135. mál, ráðstafanir í fjármálum

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að fara langt út í umræður um einstakar tölur varðandi t.d. breytingar á tollalögum, nýtt vörugjald og nýjar skattaálögur. Við verðum auðvitað að sjá þessa útreikninga og þessar tölur fyrir okkur áður en við getum endanlega gert upp okkar skoðanir í þessu efni.

Ég vil aðeins geta þess að í upphafi ferils fyrrv. ríkisstjórnar var unnið mjög ítarlega að því að reyna að ganga frá tollskrárbreytingum þannig að engir tollar yrðu hærri en 30%, en þeir eru oft, eins og menn vita, allt upp í 80%, jafnvel hærri, plús svo ýmiss konar smágjöld. Sem formaður fjh.- og viðskn. Ed. vann ég mjög mikið með ráðuneytismönnum að þessu þann fyrsta vetur og við gerðum okkur vonir um að eitthvað af þeim tillögum sem fram voru bornar mundu sjá dagsins ljós. Svo varð þó ekki.

Það má gjarnan geta þess að áður en sú stjórn var mynduð gerði ég það að algjöru skilyrði fyrir stuðningi við hana að í fyrsta lið svonefndra mildandi aðgerða stæði að tollar og skattar sem leggjast með miklum þunga á brýnustu nauðsynjar yrðu mjög lækkaðir. Þetta samþykktu allir þm. Sjálfstfl. og Framsfl. og þess vegna studdi ég þá ríkisstjórn.

Eins og ég sagði var framan af skammt gengið í þessu efni. Hins vegar varð á breyting eins og menn muna 1986 þegar loksins var gengið til móts við alþýðu með því að ríkið slakaði á klónni og linaði á sköttum og kom til móts við t.d. verkalýðssamtök og reyndar atvinnurekendur þá líka. Þannig náðust heilbrigðir samningar sem urðu til þess að verðbólga hjaðnaði mjög og ástandið í þjóðfélaginu batnaði.

Ég hef verið á móti ofsköttunarstefnu sem ég hef kallað svo í núna ein níu ár. Ég hef skrifað gegn þeirri stefnu sem ég tel að hafi síðasta hálfan annan áratug valdið okkar vandræðum, verðbólguvanda og ýmiss konar vanda öðrum. Þær eru orðnar æðimargar, mínar greinar og ræður um það og það þarf enginn að fara í grafgötur um mína skoðun í því efni að ég tel ekki rétt að hækka skatta, kannski síst neysluskatta, eins og nú horfir og þess vegna hef ég alla fyrirvara á stuðningi við hugsanlegar nýjar skattheimtur en ég vil sjá tölurnar á borðum áður en ég get gert mér grein fyrir því hvort þær muni leiða þær nýju tillögur sem voru uppi.

Ég kveð mér fyrst og fremst hljóðs vegna þess að mér er skylt að svara spurningu frá hv. þm. Júlíusi Sólnes um það hvort ég hafi á flokksráðsfundi Sjálfstfl. á laugardaginn var sagt að þessi nýju fjárlög, eins og þau voru lögð fram í þingi þriðjudaginn 13. október, hafi verið samþykkt í þingflokki Sjálfstfl. Svo var ekki af þeirri einföldu ástæðu að það var ekki einu sinni búið að prenta þau. Það var ekki búið að ganga frá þeim í einstökum liðum. Þannig minnast menn þess kannski að hæstv. fjmrh. vakti alla aðfaranótt mánudagsins næsta á eftir til að ganga frá frv. Ég sá það auðvitað fyrst eins og aðrir þm. hér á borðum þann 13. og þó að einhverjir í þingflokki Sjálfstfl. eða Framsfl. hefðu viljað samþykkja frv. óséð kom það aldrei til. Okkur var einungis skýrt frá því að það væri horfið frá þeim fyrirætlunum að ná svokölluðum halla á fjárlögum niður á þremur árum, það ætti að gera á einu. Ég lýsti því yfir að ég teldi að það dæmi gengi aldrei upp. Það hlyti að enda með átökum, verulegum verðlagshækkunum að sjálfsögðu og til ófarnaðar. Því miður óttast ég það enn að svo fari ef þessu verður þannig framfylgt.

Vonandi hef ég rangt fyrir mér, en reynslan segir að ég hafi rétt fyrir mér. Þess vegna vil ég skoða málin öll nánar. Við í þingflokknum fengum að vita um þessar fyrirhuguðu breytingar föstudaginn 9. október, daginn fyrir þingsetningu, síðan á þingflokksfundum 10. og aftur mánudaginn 12. var málið ekki rætt og þar af leiðandi gat enginn samþykkt það.