25.11.1987
Efri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

135. mál, ráðstafanir í fjármálum

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Þau fleygu orð eru höfð eftir öldnum stjórnmálaleiðtoga að stjórnmálaflokkur sé skipulögð skoðun. Þessi aldni stjórnmálaleiðtogi, ef hann mætti nú líta upp úr gröf sinni, mundi vafalaust skipta um skoðun sem og þeir fræðimenn aðrir sem hafa talið að hann hafi haft rétt fyrir sér. Vera má að flokkar nú til dags séu skipulagslausar skoðanir eða skipulagður skoðanaóskapnaður. Það gengur stundum erfiðlega að láta dæmið ganga upp.

Herra forseti. Í fyrsta lagi er ástæða til þess að rifja upp fyrr hv. þingheimi um hvað við erum að ræða. Við erum að ræða frv. til laga um ráðstafanir í fjármálum sem er til staðfestingar á brbl. frá liðnu sumri. Þessar ráðstafanir voru um það að fækka undanþágum frá söluskatti, í fyrsta lagi að því er varðaði aðallega innflutt matvæli, í annan stað ýmsar greinar þjónustu, svo sem eins og lögfræðiþjónustu, fasteignasölu, endurskoðunarþjónustu, bókhaldsþjónustu, þjónustu verkfræðinga og arkitekta o.fl. Einhvern tímann, ef mig brestur ekki minni, hefði það verið nánast eins og músík í eyrum hv. 3. þm. Vestf. ef úrvalshópar menntamannastéttarinnar hefðu loksins átt að fara að bera skatta fyrir þjónustu sína.

Í annan stað var hér um að ræða að leggja gjöld á bifreiðaeign landsmanna. Í þriðja lagi var um að ræða skattlagningu á innflutt kjarnfóður. Í fjórða lagi var lagt ríkisábyrgðargjald á þá aðila, bæði opinbera aðila og einkaaðila, sem njóta ábyrgðar ríkissjóðs á lántökum. Í fimmta lagi var lagður sérstakur skattur á lántökur fyrirtækjanna. Því næst fylgdu peningamálaaðgerðir og þessu var síðan fylgt eftir með því að það sem var að mati manna verðhækkun af söluskattsbreytingu var að fullu bætt með hliðarráðstöfunum í þágu þessara sérstöku hópa sem ég nefndi áðan, bótaþega almannatrygginga og barnmargra fjölskyldna.

Umræðan af hálfu þeirra sem hér hafa talað hefur mestan part farið út um víðan völl en þó hafa menn fyrst og fremst tönnlast á einhverju sem þeir kalla matarskatt, sem er ekki hér til umræðu, en næg tækifæri gefast til að ræða. Hér er verið að ræða um fyrstu aðgerðir ríkisstjórnar í fjármálum sem skiluðu ríkissjóði að því að talið er um 1 milljarði kr. á þessu ári, en áætlað er að skili ríkissjóði um 3,7 milljörðum á næsta ári. Til þessara aðgerða var gripið vegna þess að menn horfðu á þessu sumri fram á það að halli, að verulegu leyti kerfisbundinn halli í ríkisfjármálum á næsta ári gæti farið í 7,5 milljarða.

Með þessum aðgerðum var honum komið niður í 4 milljarða. Með öðrum aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem birtust í fjárlagafrv. var að því stefnt að ná þessum 4 milljarða halla niður á núll.

Og af því að það var verið að spyrja hvort stjórnmálaflokkur kynni að vera skipulögð skoðun, þá spyr ég einnar spurningar: Hvað ætli hefði heyrst í málsvörum landsbyggðarinnar hér á hinu háa Alþingi ef lagt hefði verið fram frv. til fjárlaga fyrir árið 1988 með fjögurra, ég tala nú ekki um sjö milljarða halla? Hvers konar niðurskurð halda hv. þm. að þeir hefðu orðið að horfa framan í? Ég tala nú ekki um í vegamálum, í samgöngumálum, í framkvæmdum á landsbyggðinni. Mér kemur ekkert á óvart að heyra skoðanir hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar. Ég þekki þær skoðanir, enda á hann heiður skilið fyrir að hafa barist fyrir þeim lengi, skýrt þær og varið í ræðu og riti, jafnvel gefið út um það bækur, barist fyrir því innan síns flokks. Ég er alls ekki að öllu leyti ósammála hv. þm. Ég er það að sumu leyti. Það er málefnalegur ágreiningur en mér kemur ekkert á óvart hans afstaða. Hún er í rökréttu framhaldi af því sem hann hefur áður haldið fram. Og vera má að honum sé líka ekkert svo ósárt um það að ríkissjóður kunni að vera rekinn með halla, hann ver það með sínum rökum. En það eru ekki rök sem ég átti von á að heyra frá mönnum sem vilja láta kenna sig við það að vera talsmenn landsbyggðarinnar hér á hinu háa Alþingi.

Í annan stað: Hv. 3. þm. Vestf., Karvel Pálmason, sagði: Það er a.m.k. skilyrði fyrir því að ég styðji slíkar skattbreytingar í samræmi við stefnu Alþfl. að því fylgi samtímis tekjujöfnunaraðgerðir. Og hann komst svo að orði að hann sæi ekki fyrir hverjar þær yrðu. Hv. þm. ætti að sjá aftur. Við erum hér að tala um staðfestingu á brbl. sem sett voru á sl. sumri. Og með því að líta til baka fær hann það staðfest að gripið var til tekjujöfnunaraðgerða um leið og þessar aðgerðir í heild sinni voru leiddar í lög með brbl. til þess að bæta að fullu umræddum tekjuhópum þau verðhækkunaráhrif sem fylgdu.

Við erum hér að ræða staðfestingu á brbl. um fyrstu aðgerðir ríkisstjórnar sem eru liðin tíð. En vegna þess að menn láta eins og þeir þekki ekki boðaðar breytingar á skattakerfinu þá varð það mér tilefni til að rifja upp meginþættina til þess að staðfesta það að það er m.a. ætlunin að verja mjög verulegum upphæðum til þess að bæta þessum nefndu tekjuhópum upp að fullu þau verðhækkunaráhrif sem eru miklum mun minni en hv. þm. vilja vera láta af þessari skattahreinsun, þessari aðgerð gegn því kerfi sem allir hafa nú fallist á að sé í molum eða sé hrunið.

Hv. 3. þm. Vestf., Karvel Pálmason, sagði: „Mér þykir vera byrjað á öfugum enda. Nær hefði verið að ná í söluskattssvikara frá liðinni tíð.“ Um hvað er hv. þm. yfirleitt að tala? Hvernig á fjmrh. að ná til skattsvikara í söluskatti frá liðinni tíð? Hann byrjar að sjálfsögðu í samræmi við starfsáætlun og stefnuyfirlýsingu síns flokks og ríkisstjórnar að leggja framtillögur um breytingar á skattakerfinu, m.a. í samræmi við tillögur skattsvikanefndar. En það er forsenda fyrir því að hægt sé að beita árangursríkum aðferðum til þess að innheimta álagðan söluskatt. Ég hvet hv. þm., hafi hann ekki gert það þegar, að kynna sér til hlítar þann dómsáfelli sem skattsvikaskýrslan er yfir þessu ónýta skattakerfi og skilja hvers vegna menn eru að reyna að útrýma þessum undanþágum. Það er nefnilega til þess að tryggja að álagður söluskattur verði innheimtur, en til þess eru engin önnur ráð, hv. þm., hvernig sem menn láta.

Ég held og ráðlegg hv. þm. að ræða við þá fulltrúa launþega sem falið hefur verið við hin verstu skilyrði að framkvæma þau gatónýtu skattalög sem hv. Alþingi hefur sett og ætlað þessum mönnum að framfylgja. Það liggja fyrir yfirlýsingar þeirra og það liggur fyrir skattsvikaskýrslan um að það er ekki á mannlegu valdi í óbreyttu kerfi. Það er ekki að vera sjálfum sér samkvæmur, það er skipulagslaus óskapnaður að heimta aðgerð gegn skattsvikum en ætla síðan að slá pólitískar keilur af því að það er til vinsælda fallið í augnablikinu og þarf engan kjark til. Neita síðan þeim leiðum sem ábyrgir stjórnmálamenn þurfa á sig að taka til þess að ná fram þeim markmiðum.

Hv. þm. sagðist heldur ekki sjá hvað mundi koma á móti. Þessi mál eru þaulrædd. Þaulrædd innan þingflokks Alþfl. Ég rifja upp að á þeim tíma sem stjórnarmyndunarviðræður stóðu yfir þá hélt þingflokkur Alþfl. ekki færri en 17 þingflokksfundi. Þar var hvert einasta skjal sem lagt var fram í þessum stjórnarmyndunarviðræðum lagt fyrir þm. jafnóðum og rætt í þaula. Og þingflokkurinn komst að sjálfsögðu að sameiginlegum niðurstöðum. Niðurstöðum sem voru byggðar á stefnumörkun og á málflutningi flokksins fyrir kosningar. Sá maður, sem hefur allar þær upplýsingar með höndum og sem hefur allar þær upplýsingar sem lagðar hafa verið fyrir þingflokk Alþfl. nú, veit að sjálfsögðu nákvæmlega að hverju er stefnt um hliðarráðstafanir í öllu þessu máli. Hitt er auðvitað laukrétt að þessi umræða, um þessi staðfestingarfrv., er að sjálfsögðu ekki staðurinn né stundin til þess að ræða þau. Það eru ekki nema fáeinir dagar eftir þangað til hér streyma inn þau frv. sem því miður hafa ekki verið lögð fyrir Alþingi fyrr. Æskilegt hefði verið að það hefði gerst með betri fyrirvara. Ég viðurkenni það.

En að því er varðar t.d. staðgreiðsluna þá erum við að ræða í annarri hv. deild, neðri deild, fyrsta frumvarpið af einum fimm eða sex sem því fylgja. Annars vegar er það um tæknileg atriði og framkvæmd staðgreiðslukerfisins. Frv. nr. 2 verður um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt og varðar þær ákvarðanir sem skipta sköpum um stillingu á skattbyrði í hinum nýja staðgreidda skatti. Þriðja lagafrv. er síðan um gildistöku í staðgreiðslu. Það fjórða verður um breytingar á svokölluðum húsnæðissparnaðarreikningum og hið fimmta verður um framkvæmdina að því er varðar gjaldheimtur. Því næst, þegar þingflokkar ríkisstjórnarinnar hafa lokið afgreiðslu sinni á málum, eru væntanleg frv. til laga um ný tolltaxtalög, frv. til laga um nýtt vörugjald, frv. til laga um nýskipan söluskatts ásamt með annaðhvort nýju frv. um hliðarráðstafanir því tengdar eða brtt. við áður framlögð frv., og þá brtt. við frv. til laga um breytingu á tekju- og eignarskatti.

Þetta eru meginfrumvörpin, þaulrædd fyrir kosningar, þaulrædd í stjórnarmyndunarviðræðum í öllum efnisatriðum, þaulrædd í okkar þingflokki. Þannig að það eru alger pólitísk láfalæti ef menn segja sem svo — og ég hlýt að álykta að það eigi við um stjórnarflokkana alla — að þeim séu þessi mál ókunn.

Ég vil taka það fram vegna umræðna um vinnubrögð og um samskipti aðila í stjórnarflokkunum að þrátt fyrir viðurkenndar kenningar um það að ríkisstjórn sé fjölskipað stjórnvald og ráðherrar hver á sínu sviði hafi ótvírætt húsbóndavald í þeim málum sem undir þá heyra, þá hefur þessi ríkisstjórn tekið upp þau vinnubrögð að skipa samstarfsnefnd ráðherra. Þannig hefur verið skipuð sérstök samstarfsnefnd í ríkisfjármálum, skipuð þremur ráðherrum. Í henni hafa starfað ásamt með mér hæstv. iðnrh. fyrir hönd Sjálfstfl. og hæstv. sjútvrh. fyrir hönd Framsfl. Þessi nefnd byrjaði að koma saman í ágústmánuði. Ég hef ekki á reiðum höndum tölu yfir fjölda funda þessarar nefndar, en þeir hafa verið býsna margir. Hvert einasta stefnumarkandi atriði við undirbúning fjárlaga var rætt í þessari nefnd. Það var gert í þeim yfirlýsta tilgangi að ekki færi milli mála að allur undirbúningur að stefnumótun að því er varðar fjárlagafrv. og lánsfjárlög yrði lagður fyrir og tilefni gæfist til umræðu í þingflokkum stjórnarflokkanna jöfnum höndum. Þannig að ef menn eru að gagnrýna að þeim sé af einhverjum ástæðum ókunnugt um mál eða hafi ekki fengið að fylgjast nægilega vel með málum sem allir þm., sem eiga aðild að stjórninni, eiga að sjálfsögðu kröfu á, þá vil ég segja þetta til þess að vísa því á bug, að ég vil ekki taka á mig þá gagnrýni. Ég tel að ég fyrir mína parta hafi gert allt sem í mínu valdi stóð til þess að reyna að hafa þau samskipti í lagi og koma upplýsingum á framfæri í tæka tíð við rétta aðila.

Herra forseti. Það var beint til mín einni málefnalegri spurningu frá hv. þm. Júlíusi Sólnes og hún var þessi: Hvers vegna ekki að vinda sér beint að því að taka upp virðisaukaskatt? Og svarið við því er einfalt, auðskilið og augljóst hverjum sem um málið hugsar. Það er ekki hægt með þeim undirbúningstíma sem þessi ríkisstjórn og þessi fjmrh. sem hér er hafði, það er ekki hægt með þeim undirbúningstíma að koma í framkvæmd virðisaukaskattskerfi á sama tíma og þetta fáliðaða vanmannaða skattakerfi okkar er að koma í framkvæmd þeirri miklu byltingu sem er staðgreiðslukerfi skatta. Það var bara hreinlega ekki hægt. Þannig að þess var enginn kostur að fara þá leið þó að fyrir því megi færa mörg rök. Þessu til viðbótar er þess að geta að hver ríkisstjórnin á fætur annarri á undanförnum árum hefur gert atrennu að því að koma á virðisaukaskatti. Fyrir liggja a.m.k. fjórar ítarlegar skýrslur og úttektir og fram hafa verið lögð frv., en þau frv. hefur dagað uppi hér á hinu háa Alþingi. Þannig að það er hvort tveggja sem þarf til. Það þarf miklu vandaðri undirbúning en tíminn leyfði til þess að koma á með árangursríkum hætti virðisaukaskattskerfinu. Það tekur til miklu, miklu fleiri aðila í innheimtu á skattinum og það er það mikil breyting að kerfið hefði ekki annað því á sama tíma og verið er að koma fram staðgreiðslukerfinu. Og í annan stað: Það er algjör nauðsyn að kynna miklu betur en gert hefur verið áður nauðsynina á virðisaukaskattinum, ekki síst fyrir forsvarsmönnum í atvinnulífinu sem margir hverjir hafa notið — ég tala ekki um í verslun og þjónustu — undanþágu í söluskatti. Aðrir, og þá einkum og sér í lagi í ýmsum samkeppnisgreinum, iðnaðargreinum, hafa hins vegar fundið hversu söluskattskerfið með sínum uppsöfnunaráhrifum er íþyngjandi, hversu skaðlegt það er fyrir samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Engu að síður spretta menn ævinlega upp í þessu þjóðfélagi í biðröðum til mótmæla af því að þeir hafa ekki heildarsýnina, skilja ekki nauðsynina. En hver sá sem hefur notið undanþága fer auðvitað ævinlega upp á dekk með það að hann vill viðhalda sínum undanþágum. Í öllu þessu ómerkilega og yfirborðskennda tali um matarskatta er ástæða til þess fyrir menn að staldra við.

Var það til einhverrar sérstakrar fyrirmyndar að skapa erlendum framleiðendum, hvort heldur var á matvælum eða öðrum hlutum, einhverja sérstaka samkeppnisaðstöðu í þessu þjóðfélagi með því að láta þá njóta skattfríðinda? Með því að breyta þessu söluskattskerfi, sem fæli í sér fækkun undanþága en lækkun söluskattsprósentunnar, — sem vissulega verður líka og hv. þm. er fullkunnugt um — með því er ekki verið að raska innbyrðis hlutföllum. Það er ekkert verið að raska hlutföllum innbyrðis milli annars vegar hefðbundinna landbúnaðarafurða eða fiskafurða eða annarra þeirra afurða sem voru undanþegnar. Heldur ekki að því er varðar innflutt matvæli sem eru samkeppnisvörur vegna þess að það leggst á þau sami söluskatturinn.

Herra forseti. Þessar umræður hafa, eins og ég segi, farið út um víðan völl og koma í raun og veru umræðuefninu sem hér var á dagskrá lítið sem ekkert við. Við vorum að ræða um liðna tíð. Við vorum að ræða um aðgerðir sem voru þess eðlis að þær voru ekkert matarskattur, þetta voru fjölþættar aðgerðir fluttar með brbl. af brýnni efnahagslegri nauðsyn ríkisstjórnar sem tók við ríkisfjármálum í miklum vanda. Það liggur alveg ljóst fyrir að þess var gætt að um leið og undanþágum var fækkað að því er matvæli varðaði, aðallega innflutt matvæli, þá var verðhækkununum mætt þegar í stað með tekjuráðstöfunum, með tekjujöfnunaraðgerðum. Þannig að ég fæ ekki séð að sú gagnrýni sem hér var flutt sé af neinu tilefni flutt. En það gefst að sjálfsögðu tilefni til að ræða það betur þegar þessi frv., sem ég var að lýsa áðan, líta dagsins ljós hér á hinu háa Alþingi.