25.11.1987
Neðri deild: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

42. mál, áfengislög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Út af þeim ummælum sem komu fram hér um þingsköp vil ég segja að ég tel að forseti hafi farið rétt að vegna þess að það var ekki tilkynnt á fundinum í gær að fundi yrði fram haldið eftir venjulegan fundartíma, þannig að þau ummæli sem kastað var fram til forseta áðan eru alveg út í hött.

Mér er það ljóst að ég hef ekki nema örstuttan tíma og mun ekki níðast á góðsemi hæstv. forseta, en ég vil aðeins minna á það bréf sem ég las hér upp um daginn frá 11 prófessorum við læknadeildir Háskólans ásamt ráðuneytisstjóranum Páli Sigurðssyni. Ef menn treysta sér til þess að vefengja þeirra umsögn, þá er ég hissa og ef menn telja þrátt fyrir þessar umsagnir að það sé sem sagt ekkert með þær að gera. En af því að þeim mönnum, sem standa að þessu bjórfrv., er mjög mikið niðri fyrir, þá vil ég aðeins segja þetta:

Í fyrsta lagi óska ég eftir því að nefndin sem fær þetta frv. til umfjöllunar afli sér upplýsinga um hvaða íslenskir aðilar hafi tryggt sér umboð hjá erlendum bjórverksmiðjum og dreifingarfyrirtækjum sem annast bjórsölu og hvenær þeir fengu umboðið. Þetta er með ólíkindum, þessi hamagangur að reyna að koma þessu frv. í gegn og það er best að þetta liggi fyrir.

Ég óska einnig eftir því að hæstv. forseti geri ráðstafanir til þess að allshn. fái tækifæri til að fara til Grænlands og Finnlands til þess að kynna sér hvernig áfengismálin eru þar komin og sérstaklega með það í huga að athuga hvaða áhrif bjórinn hefur haft þar að áliti þessara þjóða. Ég held að það væri lærdómsríkt. Alþm. hafa farið af minna tilefni til útlanda heldur en það að kynna sér þetta mál sem að mínum dómi er eitt það alvarlegasta sem hér er á Alþingi.

Ég bið forseta afsökunar að þetta var lengra en ég ætlaði og lýk máli mínu.