25.11.1987
Neðri deild: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

126. mál, mat á sláturafurðum

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er á ferðinni frv. til laga um staðfestingu á brbl. sem gefin voru út í sumar og voru samkvæmt venju flutt til þess að bjarga því að hægt yrði að slátra á liðnu hausti í mörgum húsum sem ekki gátu fullnægt öllum skilyrðum þar um. Það vekur auðvitað athygli að frv. gerir einungis ráð fyrir að heimilt verði að veita undanþágur fram á mitt næsta ár. Það verður því eðlilega fyrsta spurningin sem vaknar við umfjöllun um þetta mál hvort sá frestur dugi nú miklu betur en sá sem var í gildi næstur þar á undan og hvort það sé ekki í raun svolítið vandræðalegt fyrir löggjafann að afgreiða frv. til staðfestingar á brbl. sem í raun og veru hlýtur að kalla yfir sig aftur ný brbl. á næsta sumri og jafnvel og svo framvegis einhver ár. Þess vegna er kannski eðlilegast að spurt sé í fyrsta lagi: Er það til einhvers að afgreiða svo stuttan frest, veita hæstv. landbrh. svo stutta heimild til að veita undanþágur frá þessum ákvæðum?

Það er þarft og skylt að leita leiða til þess að hagræða rekstri sláturhúsa og ná betri nýtingu og betri húsum, betri vinnuaðstöðu á því sviði. Í því skyni starfaði þessi sláturhúsanefnd, sem svo er nefnd, og hefur lagt fram mikið álit sem alþm. hafa fengið í sín pósthólf.

Mér er ekki alveg ljóst, virðulegur forseti, hvernig málið er samt lagt fyrir hér af hálfu hæstv. landbrh., hvort hæstv. ráðherra er í raun að gera tillögur sláturhúsanefndarinnar að sínum, hvort þær eru stefna hæstv. ríkisstjórnar í þessum málum, eða ekki. Ég hefði talið mjög nauðsynlegt, þegar þetta mál berst í tal hér á hinu háa Alþingi, að bændum landsins og öðrum sem hér eiga hagsmuna að gæta yrði það alveg ljóst af umfjöllun um málið hver væri hin eiginlega stefna ríkisstjórnarinnar hvað þetta varðaði.

Er það hugmynd hæstv. landbrh. að taka upp skýrslu sláturhúsanefndarinnar og til að mynda fresta gildistöku þeirra tillagna sem þar eru settar fram um eitt til tvö ár en framkvæma þær síðan að öðru leyti? Og ef svo er hver er þá munurinn?

Ég hef talsverðar efasemdir eins og hv. síðasti ræðumaður, 6. þm. Norðurl. e., um ýmsa hluti í þessari skýrslu sláturhúsanefndar. Ég held að sú skrifborðsskipulagning sem þar er í raun og veru viðhöfð sé ekki að fullu í samræmi við aðstæður í landinu. Hún er góðra gjalda verð eins og öll önnur áætlanavinna og tilraun til að skipuleggja þessa hluti, en þegar til kastanna kemur er það samt alltaf veruleikinn sjálfur sem menn verða að beygja sig fyrir, ekki hvað fer fallega á pappír. Ég er ansi hræddur um að menn hafi stundum verið bornir ofurliði af þeirri löngun í vinnu þessarar sláturhúsanefndar til að skipuleggja hlutina þannig að þeir færu vel á pappír. Ég tek undir t.d. það dæmi sem hv. 6. þm. Norðurl. e. vitnaði til um tilhögun þessara mála á norðausturhorni landsins. Þar er ekki bara um langar vegalengdir og mikinn akstur að ræða heldur verða menn líka að minnast þess að þeim mun lengur sem sláturtíð stendur í þeim húsum sem eftir verða færast menn nú nær misjöfnum veðrum, ekki síst á því landshorni.

Ég hef einnig miklar efasemdir um að það sé vænleg leið og skynsamleg leið að fara út í lögbindingu af einhverju tagi, þ.e. lögbinda niðurskurð sláturhúsanna og þar með í raun og veru afhenda með lögum þeim aðilum sem útvaldir eru og eftir verða nánast lögverndaðan einkarétt á allri slátrun í landinu: Ég held að menn verði virkilega að hugleiða að ein af afleiðingum þeirrar aðgerðar yrði auðvitað þetta. Þá vakna ýmsar spurningar, bæði um að þessir aðilar sætu þá einir að slátruninni og þeir aðilar sem þar tækju við vörunni fengju þá líka einkarétt á því að ráðstafa henni áfram.

Það mun líka sýna sig að því geta fylgt erfiðleikar að ætla að safna allri slátruninni saman af stórum landsvæðum í stór sláturhús í fámennum byggðarlögum eða á fámennum stöðum. Það hefur verið heimafólk í hverju byggðarlagi sem hefur borið uppi vinnuna í sláturhúsunum vítt og breitt og þar gildir næstum að segja þegnskyldusjónarmið. Þar ríkir það viðhorf að menn verða að ganga í þetta og menn hjálpast þá gjarnan að. Það er mikið um að menn séu þarna vægast sagt lausráðnir, hlaupi í skarðið þegar vantar fólk og bændur skiptast á eftir því sem þeir eru lausir frá því að smala kindum og sinna öðrum störfum að hausti til. Ég held að menn mundu reka sig á að það er ekki hægt að gefa sér að það gangi jafngreiðlega að manna sláturhúsin þegar búið er að safna fé saman af stórum landsvæðum til að slátra því í stórum húsum í fámennum byggðarlögum. Þá getur orðið annað uppi á teningnum.

Ég vil sérstaklega að lokum spyrja hæstv. landbrh. um tímasetningu í þessu skyni. Ég tel nefnilega að jafnsjálfsagt og ýmislegt af þeirri hagræðingu er sem lagt er til í tillögum sláturhúsanefndar, og ég tek fram að ég tel þar margt horfa til bóta, tel ég hitt augljóst að það þarf nokkurn tíma til að koma hinu nýja fyrirkomulagi á. Ég bendi á að víða þyrfti að stokka algerlega upp félagslega aðild framleiðenda að sláturhúsunum eða afurðasölufélögunum. Í mörgum tilfellum er gert ráð fyrir því í tillögum sláturhúsanefndar að fé verði flutt af einu afurðasölusvæði yfir á annað. Spurningin er þá hvort ekki þarf að vinnast tími til að stofna ný félög eða stokka þann félagsskap upp með einum eða öðrum hætti. Þau mál verða ekki hrist fram úr erminni á einni eða tveimur vikum, jafnvel ekki á einu eða tveimur árum. Ég vil því sérstaklega spyrja hæstv. ráðherra hvað standi til að hraða mikið framkvæmd skýrslunnar og hver sé stefna hæstv. landbrh, í þeim efnum.

Það er ekki mikið meira um þetta að segja. Þetta mál er í sjálfu sér ekki stórt. Það er það sem hangir á spýtunni, herra forseti, sem er stórt, þ.e. uppstokkun alls skipulags í þessum efnum, uppbygging sláturhúsanna og endurskipulagning þeirra mála í heild sinni. Reyndar verður það mál ekki heldur slitið úr samhengi við enn stærra mál sem er heildarskipulag landbúnaðarframleiðslunnar, en það er e.t.v. mál sem er betra að bíða með til seinni tíma að ræða á hinu háa Alþingi.