25.11.1987
Neðri deild: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

126. mál, mat á sláturafurðum

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Hér er til umræðu staðfesting á brbl., en skv. þeim má ekki veita undanþágu nema til 1. júní 1988. Sjálfsagt er við afgreiðslu í nefnd að framlengja undanþáguna lengur til að reyna að koma í veg fyrir að nýr darraðardans í þessum málum hefjist næsta haust. Sú umræða sem var í haust skaðaði vissulega þessi mál, bæði með tilliti til neytenda og bænda og hefði aldrei þurft að koma til ef litið hefði verið með meiri sanngirni á þau hús sem fyrst og fremst var þá um deilt. Verri hús en þau sem deilan stóð um fengu þá sjálfkrafa leyfi.

Það er eðlilegt að fólkið vilji halda atvinnunni sem næst sér. En meðan þetta ástand varir að húsin eru ekki fullkomin liggur jafnframt fyrir að úr þeim kemur góður varningur, góðar afurðir, fyrst og fremst vegna þess að fólkið sem við þetta vinnur kann til verka og skilar þeim verkum vel við þröngar aðstæður. Á þetta ber að líta.

Sláturhúsaskýrslan nýja er að sjálfsögðu ekki heilög bók og kemur ekki til mála að eftir henni verði farið og hún gerð að lögum. Það þarf að taka þau mál og skoða með miklu meiri sanngirni en þar liggur fyrir.