25.11.1987
Neðri deild: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

110. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra

Flm. (Málmfríður Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra, breyting á lögum nr. 55 frá 9. júní 1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Flm. auk mín eru hv. þm. Kristín Einarsdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir og Kristín Halldórsdóttir. Frv. hljóðar svo:

„1. gr. Á eftir 6. gr. laganna (sbr. lög nr. 58/1985) kemur ný grein er orðast svo:

Heimavinnandi húsmæður sem ekki gegna öðru starfi, svo og þær heimavinnandi húsmæður sem eru í minna en hálfu starfi utan heimilis, skulu öðlast aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda. Ríkissjóður greiðir mánaðarlega iðgjald til sjóðsins vegna hverrar heimavinnandi húsmóður er nemi 6% af launum skv. 9. flokki kjarasamnings Verkamannasambands Íslands, efsta starfsaldursþrepi, eins og þau eru á hverjum tíma, og viðkomandi sveitarfélag 4% af sömu upphæð.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Frv. þetta var lagt fram á síðasta þingi en varð ekki útrætt og er nú endurflutt með lítils háttar breytingu á orðalagi.

Frv. þessu er ætlað að leiðrétta kjör heimavinnandi húsmæðra, þeirra sem enn ekki hafa öðlast rétt til aðildar að lífeyrissjóði og er þannig leitast við að tryggja hag þeirra betur á efri árum.

Með hugtakinu heimavinnandi húsmóðir er í fyrsta lagi átt við konur sem ekki gegna öðru starfi en umsjón heimilis og í öðru lagi þær sem hafa heimilisumsjón að aðalstarfi en vinna minna en hálft starf utan heimilis. Hugtakið nær vitaskuld á sama hátt til þeirra karla sem húsmóðurstörfum gegna.

Hvað fyrri hópinn varðar er ætlunin að ríkissjóður greiði þau 6% af iðgjaldi sem atvinnurekanda er skylt að greiða, en viðkomandi sveitarfélög greiði þau 4% sem eru hluti launþegans. Iðgjaldsgreiðslan er miðuð við laun skv. 9. launaflokki Verkamannasambands Íslands og skal þessi viðmiðun viðhöfð þar til mat liggur fyrir á störfum húsmæðra. Þetta er engan veginn endanlegt mat á verðmæti þeirra starfa sem um ræðir. Iðgjaldið greiðist til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda þar til öðruvísi verður ákveðið.

Stofnun sameiginlegs lífeyriskerfis allra landsmanna er nú í undirbúningi. Það er mikið þjóðþrifamál og má ætla að lífeyrismál heimavinnandi fólks verði best leyst innan þess ramma, en svo brýnt er að koma þessu máli í betra horf að ekki verður beðið eftir annarri skipan lífeyrismála þar sem búast má við að nokkur ár líði áður en sú breyting kemst á.

Á undanförnum árum hafa verið gerðar tilraunir í þá átt að lagfæra réttleysi húsmæðra til lífeyris. Breyting á l. nr. 55/1985 er áfangi á þeirri leið, en nær aðeins til takmarkaðs hóps, þ.e. þeirra húsmæðra sem hverfa frá launuðum störfum um stundarsakir og þá yfirleitt vegna barnsburðar eða til að annast fjölskyldu og heimili.

Fjölskyldan er grunneining hvers þjóðfélags og ábyrgðin og umönnun hennar og rekstur heimilisins hefur undantekningarlítið hvílt á herðum kvenna. Þá hefur þeim verið treyst til að stjórna, enda er starfið ekki metið til launa og því er það að þegar þær konur, sem eingöngu eða að mestu leyti hafa stundað þessi störf, koma á eftirlaunaaldur njóta þær ekki greiðslu úr lífeyrissjóðum.

Ég held að hv. þm. ættu að hugleiða hvílíkar upphæðir heimavinnandi konur spara þjóðfélaginu með því að ala upp börn, annast sjúka og aldraða, vanheila og þroskahefta og að reka þá einingu sem heimilið er. Öll koma þessi störf samfélaginu til góða og þegar eitthvað bjátar á, konan veikist eða fellur frá, þá sést hvers virði þau eru í beinhörðum peningum. Í ljósi þeirrar staðreyndar sýnist eðlilegt að ríki og sveitarfélög sjái um greiðslu á lífeyrissjóðsiðgjaldi heimavinnandi húsmæðra því að sú upphæð gæti aldrei orðið nema brot af því sem dagvistun og barnagæsla fyrir þær kostaði ásamt því að greiða fyrir það fólk á stofnunum sem annast er um í heimahúsum.

Þetta mál er mannréttindamál. Það er krafa um viðurkenningu á gildi starfa sem unnin hafa verið í kyrrþey án greiðslu. Hér er tekið á réttindaleysi heimavinnandi fólks, þeirra kjara sem heimavinnandi fólk býr við. Heimavinnandi húsmóðir, móðirin, vinnur störf sín án þess að krefjast launa. Heimavinnandi húsmæður þessa lands eru þeir þegnar sem gefa vinnu sína. Þær annast börnin sín og heimili í kyrrþey og fyrir það að ala upp nýja kynslóð og vera máttarstólpar þjóðfélagsins í því að varðveita fjölskylduna fá þær ekki neitt í áþreifanlegum verðmætum. Í skýrslum um þjóðarframleiðslu er hlutur þeirra einskis metinn.

Ég hef reynt að komast eftir því hversu margar heimavinnandi húsmæður eru í þessu landi í því skyni að meta hvern kostnað lífeyrisgreiðslur til þeirra kynnu að hafa í för með sér. Þetta reyndist mér ekki unnt. Skýrslur af þessu tagi liggja hvergi fyrir. Það eitt sýnir hve þessu fólki er lítill gaumur gefinn að innan kerfisins er atvinnustaða þess ekki til. Síðan þegar eitthvað kemur fyrir, húsmóðir veikist eða fellur frá, kemur í ljós hvers virði vinnan er. Fengju húsmæður laun fyrir störf sín eins og fóstrur, félagsráðgjafar, hjúkrunarkonur, matsveinar og ræstingarkonur, þá væru það miklar upphæðir og það ekki endilega vegna þess að þessi störf séu svo vel launuð, heldur hvílíkt magn vinnustunda liggur að baki. Húsmóðurstörf taka ómótmælanlega til allra þessara starfsgreina og margra fleiri og raunar á öllum tímum sólarhrings. Húsmæður eiga fáar frístundir og þær hafa viðveruskyldu allan sólarhringinn.

Ég vék að því áðan að hlutur heimavinnandi fólks kæmi ekki fram í skýrslum um þjóðarframleiðslu. Sá þáttur hefur lítt eða ekki verið rannsakaður hér mér vitanlega. En í löndum þar sem reynt hefur verið að komast eftir því hver hann væri hefur komið í ljós að hlutur heimavinnandi húsmæðra nemur fjórðungi til þriðjungi af þjóðarframleiðslu. Sé þetta rétt og sé það metið til fjár hér á landi kemur í ljós að þetta gæti numið 25–30 milljörðum. Í því vitna ég til orða hv. fyrrv. þm., Gunnars Schram, sem hann lét falla hér í þessum sal á síðasta þingi, með leyfi hæstv. forseta:

Hér er því ekki verið að fara fram á neina gjöf. Það er farið fram á staðfestingu þess að þessu fólki beri að fá lífeyrisréttindi vegna vinnuframlags síns til þjóðfélagsins. Hið göfuga móðurhlutverk er hafið til skýjanna í afmælisgreinum og eftirmælum oft og tíðum, en þegar til þeirra kasta kemur að meta störf mæðranna þannig að það verði þeim til hagsbóta, áþreifanlegra hagsbóta, þá verður fátt um framkvæmdir. Ótrúlega margt hefur orðið þeim málum að fótakefli. T.d. hefur reynst erfitt að finna þeim stað í lífeyrissjóðakerfinu og sá þröskuldur sem fyrri tilraunir til þess hafa staðnæmst við er hvernig og hver ætti að annast iðgjaldagreiðslu til lífeyrissjóða. Það má þó vera augljóst að það fólk sem engin laun þiggur greiðir tæpast eitt eða neitt.

Talað hefur verið um að eiginmaður eða sambýlismaður greiði lífeyrissjóðsiðgjald vegna konu sinnar eða sambýliskonu en ég held að málinu sé stefnt inn á varhugaverða braut og þar með umræðunni um fjölskylduna yfirleitt með því að líta á heimilisföður sem atvinnurekanda. Það hugtak virðist mér vera andstætt grundvallarhugmyndum um fjölskylduna. Einnig er vert að hafa í huga nú þegar viðurkennt er að ein fyrirvinna dugi sjaldnast til að framfleyta heimili, að iðgjaldsgreiðsla í lífeyrissjóð vegna maka, alls 10% af launum einnar fyrirvinnu, er þá umtalsverð skerðing á tekjum heimilisins sem alls ekki allir hafa efni á að greiða þó að þeir vildu. Þessu frv. er ætlað að höggva á þann hnút á þann hátt að ríki og sveitarfélög greiði lífeyrissjóðsiðgjöld fyrir heimavinnandi húsmæður til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda þar til öðruvísi verður ákveðið.

Ég vil minna á í leiðinni hve mikilvæg þessi réttindi eru hverjum einstaklingi. Lífeyrisréttindi eru fólki mikilsverð á fleiri máta en þann að fá greiðslu úr lífeyrissjóðum í ellinni. Ég minni þar á rétt manna til lána úr lífeyrissjóðum í sambandi við íbúðakaup o.fl.

Herra forseti. Ég hef nú dregið fram nokkur af þeim rökum sem styðja þetta mál. Í ljósi þeirra vil ég árétta að við teljum rétt að ríkissjóður og sveitarfélög annist þessar greiðslur vegna heimavinnandi húsmæðra. Störf þeirra við uppbyggingu og varðveislu fjölskyldunnar er vissulega í þágu þjóðfélagsins alls og þannig ber að skoða þau.

Að lokinni umræðunni, herra forseti, legg ég til að þessu máli verði vísað til hv. félmn.