15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

Síðustu efnahagsákvarðanir ríkisstjórnarinnar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Á verkunum skuluð þið þekkja þá. Ekki á því sem er lofað fyrir kosningar heldur því sem þeir gera. Það vantaði ekki að fyrir kosningarnar var lofað gulli og grænum skógum. Þá var lofað að halda uppi byggðastefnu og meira að segja þegar ríkisstjórnin var mynduð var talað um að bæta hag bænda og lækka vexti. Hvað eru vextirnir í dag?

Vextir eru orðnir 9% með fullri verðtryggingu. Það var talað um það í stjórnarsáttmálanum að hafa hóflega raunvexti. Eru þetta hóflegir raunvextir að dómi hæstv. ráðherra? Og enn eru þeir að hækka og það er verið að gera ráðstafanir til þess að þeir hækki og það er byggt á því. Svo eru menn að tala um góð lífskjör og að þau muni haldast.

Hafið þið gert ykkur grein fyrir hvað matarskatturinn er? Það er hægt að ljúga með tölum og það er gert. Það er sagt að það muni um 2% fyrir hinn almenna mann í landinu. Hvað haldið þið að þessi matarskattur sé, bara á búvörurnar? 1300 milljónir á ársgrundvelli, þ.e. 10%. Svo er verið að hæla hæstv. sjútvrh. fyrir að hafa fengið 75 millj. til þess að auka niðurgreiðslur. Þvílík afrek sem þessir menn drýgja. Og ef á að fara eftir því sem að hefur verið stefnt, þ.e. að setja þennan matarskatt upp í 18% þegar frá líður, hver verður þá þessi skattur fyrir utan annan matarskatt? Hann verður 2 milljarðar og 400 þúsund miðað við svipaða neyslu og verið hefur. Og hversu mikið haldið þið að kaupmáttur þeirra rýrni sem þurfa að eyða mestöllum sínum launum í að kaupa mat? Halda menn að það séu 2%? Og ætli verslunarstéttin hafi ekki ráð á að leggja sömu prósentu ofan á þessi 10% og hún gerir? Ætli þeir lækki nokkuð smásöluálagninguna? Enda finnst mér þeir fara frjálslega með það sumir hverjir eftir því sem ég hef skoðað hér í búðum, bæði hér og annars staðar.

Hæstv. fjmrh. segir að það sé bara að þora. Það virðist vera með þessa ríkisstjórn að hún þori að níðast á þeim sem verst eru settir. Þeir fara ekki inn í rottuholurnar, hæstv. ráðherrar, til þess að taka peningana. Við þurfum ekki annað en að fara hér um borgina og sjá hvar peningarnir hafa hlaðist upp. Það þarf ekki annað. Og hvaðan hafa þeir tekið þá? Fólkið úti á landsbyggðinni veit vel hvar þeir hafa tekið þá. Það gerir sér grein fyrir því núna.

Einn stjórnmálaspekingur Breta sagði, snemma, held ég, á þessari öld: Það er ekki hægt að safna milljónum nema fyrir margra manna líf. Það er auðvitað gott og blessað að þeir sem hafa stolið undan skatti geti farið að koma peningum sínum utan og fjárfest erlendis, en gjaldeyrisstaðan, hæstv. viðskrh., batnar ekki við það. Það er misskilningur. Og hvað með gráa markaðinn? Hvað með gráa markaðinn? Hvaða ráðstafanir eru gerðar varðandi gráa markaðinn? Ég ræddi það við hæstv. forsrh. á meðan hann var fjmrh. að koma nú böndum á þann markað. Það var ekki hægt. Það mátti ekki skerða hár á höfði þeirra þó að þeir velti nú milljörðum í þessu þjóðfélagi og ég fullyrði að það fjármagn er ekki allt saman vel fengið, enda hefur núverandi forsrh. sjálfur sagt að það séu nokkrir milljarðar sem hafa verið sviknir undan söluskatti. Ætli það sé ekki hægt að finna sumt af því þar? Ekki þætti mér það ólíklegt.

Já, að bæta kjör bænda og lækka vexti var eitt af loforðum ríkisstjórnarinnar. Nú er verið að hækka áburðinn um 40–46%. Haldið þið ekki að aðstæður bænda batni? Og nú er ætlast til þess að þeir sem verst eru settir, eins og t.d. bændur, taki á sig ýmislegt, eða þá að lagðar verði niður t.d. tilraunastöðvarnar sem nýbúið er að byggja upp og eru varla komnar í gagnið. Þeir standa frammi fyrir því að láta annaðhvort fjármagn í það ef allt er óbreytt eða loka þeim. Og ég fullyrði að þó að það sé samdráttur í landbúnaði þarf ekki síður á leiðbeiningu að halda, fyrst og fremst vegna þess að það er verið að breyta um atvinnuuppbyggingu á þessum stöðum. Það vantar þekkingu í þær greinar. Ég er ekki að segja að allt eigi að vera eins og það er í dag. Það þarf alltaf að skoða hvernig málum er komið fyrir og breyta ef aðstæður breytast. En það þarf jafnmikið og ekkert síður fjármagn í leiðbeiningarþjónustuna nú en áður og það þarf að færa hana, að mínu mati, frekar til þeirra sem eiga að njóta en að hafa hana hér í höfuðstöðvunum.

Nei, ég held að ekki sé nóg að koma hér upp í ræðustól og segja: Þetta er ríkisstjórn sem þorir. Hún þorir að níðast á þeim sem eru verst settir en ver hina. Það er náttúrlega mikil reisn yfir því eða finnst ekki hæstv. ráðherrum það?

Það er auðvitað þýðingarlítið að standa lengi í ræðustól og ræða þessi mál. Mér þóttu það undur og býsn og ég veit að formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., hefur talað þar þvert um huga sér þegar hann sagði að Framsfl. stæði heill að þessu frv. Ég er búinn að vera á þingi í 20 ár og ég fullyrði að aldrei hefur komið annað eins frv. fyrir Alþingi og þetta. Ég hef reynt að fletta því og skoða það og ég hef oft verið hissa á undanförnum árum þegar slík plögg hafa legið fyrir, en þetta tekur öllu fram. Og það á eftir að koma í ljós að það getur ekki verið neinn meiri hluti fyrir því að samþykkja þetta eins og það er. Mér skilst að það eigi að skera niður alla styrki til íþróttafélaganna en hins vegar á sjálfsagt að koma því þannig fyrir að t.d. forvarnarstarfið verði á þann veg að í staðinn fyrir að styrkja íþróttafélögin verði fluttur inn bjór. Ég geri ráð fyrir því. Það er líka eftir öðru. Það er í samræmi við annað sem þessi ríkisstjórn er að gera: Að hætta að styrkja hið frjálsa íþróttastarf að mestu eða öllu leyti en flytja inn bjór.

Nei, ég held að grafskriftin eftir þessa ríkisstjórn, ef fer fram sem nú horfir, verði ekki fögur. Ég sé ekki betur en að þetta einstaklingsfrelsi byggi fyrst og fremst á þeim sem hafa sterkustu aðstöðuna til að sölsa peninga undir sig og völd, það séu þeir sem eigi að deila og drottna í þjóðfélaginu, það sé hin raunverulega stefna ríkisstjórnarinnar þegar búið er að taka hismið utan af. Þetta sé kjarninn. Og það má óska Alþfl. til hamingju með það hlutskipti að vera sá sem fyrst og,fremst ræður stefnunni, að hún skuli vera svona. Ég er hissa á því að krataforingjarnir sem voru hér á kreppuárunum skuli ekki rísa upp úr gröf sinni þegar slík firn gerast á Alþingi Íslendinga og í ríkisstjórn að málum skuli vera komið þannig að aðalfrjálshyggjupostularnir, hvort sem þeir eru verkfæri í höndum annarra, það get ég ekki dæmt um, virðast móta stefnuna og ráða öllu. Ég segi ráða öllu. Ég sé að forsrh. drúpir höfði.

Hann kannski hvíslar einhverju að þeim. En það fer ekki mikið fyrir því þá. Hann gerir það ekki nema í skúmaskotum.

Ég lofaði hæstv. forseta að tala ekki lengi og ég ætla að standa við það. Ég fæ annað tækifæri til að tala við þá sem ráða hér málum og ef það verður áfram á svipuðum nótum og það hefur verið fram að þessu er áreiðanlega full ástæða til þess að bæði ég og aðrir, sem hafa einhverja réttsýni, taki höndum saman hvar sem þeir eru, hvort sem þeir eru innan þings eða utan, og kenni þessum mönnum aðra siði en þeir hafa tekið sér fyrir hendur.