26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (864)

35. mál, milliþinganefnd um staðgreiðslu skatta

Fyrirspyrjandi (Óli Þ. Guðbjartsson):

Herra forseti. Fsp. sú sem liggur fyrir er á þskj. 35 til hæstv. fjmrh. og hljóðar svo:

„Hvers vegna var Sambandi ísl. sveitarfélaga ekki gefinn kostur á að tilnefna fulltrúa í milliþinganefnd um staðgreiðslu skatta og mál tengd henni?"

Eins og mönnum er kunnugt skilaði þessi nefnd nýlega af sér störfum og álitsgerð sem allir þm. hafa fengið í hendur. Skipan nefndarinnar var með þeim hætti að allir þingflokkar áttu í henni fulltrúa, auk þess ASÍ, VSÍ og fjmrn. Þess utan störfuðu fulltrúar frá ríkisskattstjóra með nefndinni.

Verkefni nefndarinnar var í fyrsta lagi að yfirfara og endurmeta álagningarreglur sem settar voru í tengslum við staðgreiðsluna með sérstakri umfjöllun um skattbyrðina, sem er ekki minnsti þáttur þessa máls, og í annan stað átti nefndin að fjalla um aðrar breytingar á lögunum sem til álita kemur að gera. Samband ísl. sveitarfélaga fékk hins vegar ekki fulltrúa í þessa nefnd þó að tvívegis væri eftir leitað. Spurning sú sem hér liggur fyrir til hæstv. fjmrh. er því um það hvers vegna fulltrúar sveitarfélaganna fengu ekki að taka þátt í hinu mikilvæga starfi þessarar mikilvægu nefndar.