26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

35. mál, milliþinganefnd um staðgreiðslu skatta

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Mitt svar við þeirri spurningu hvers vegna Samband ísl. sveitarfélaga hafi ekki gefist kostur á að tilnefna fulltrúa í milliþinganefndina er mjög einfalt. Eftir því var aldrei leitað við mig. Samkomulag um skipun milliþinganefndar tókst við lokaafgreiðslu löggjafarinnar um staðgreiðslukerfi skatta á seinasta þingi og var frá því gengið áður en ég tók við embætti fjmrh. á þeim forsendum að hér væri um að ræða milliþinganefnd sem skipuð væri fulltrúum þingflokkanna og hins vegar sérstaklega fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, þ.e. Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands. Eftir því var sérstaklega leitað af hálfu þessara samtaka þá þegar, en eins og kunnugt er og menn minnast létu þessir aðilar staðgreiðslu opinberra gjalda sig miklu varða við gerð kjarasamninga í desember árið 1986. Eftir því sem ég best veit var ekki eftir því leitað af hálfu annarra samtaka.

Á hitt er svo að líta að auk milliþinganefndarinnar, sem lokið hefur störfum eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, hafa verið starfandi tvær aðrar nefndir, sérstök samræmingarnefnd ríkis og sveitarfélaga sem fjallaði um framkvæmd staðgreiðslunnar, en formaður þeirrar nefndar er Magnús E. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Sambands ísi. sveitarfélaga, og þáv. formaður sambandsins, Björn Friðfinnsson, átti einnig sæti í þeirri nefnd. Í annan stað hefur verið starfandi sérstök nefnd sem fjallað hefur um gjaldheimtumál og móttöku staðgreiðslufjár. Í henni starfaði af hálfu Sambands ísl. sveitarfélaga formaður sambandsins, en Páll Halldórsson tók síðan sæti hans. Á báðum þessum sviðum hafa fulltrúar ríkis og sveitarfélaga átt mikið og gott samstarf um ýmislegt sem að staðgreiðslunni lýtur og ég veit ekki af því samstarfi annað en það hafi gengið snurðulaust og hafi verið með ágætum.

Eins og fram hefur komið hefur milliþinganefndin nú þegar lokið störfum. Hún hefur skilað ítarlegri álitsgerð og auk þess hefur nú þegar verið lagt fram fyrsta frv. af fimm sem að verulegu leyti byggir á störfum nefndarinnar.