26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

51. mál, námslán

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera upp spurningu til hæstv. menntmrh. varðandi námslán. Fyrirspurnin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„1. Hyggst menntmrh. beita sér fyrir endurskoðun á lögum um námslán og námsstyrki á næstunni, og ef svo er: Hvernig mun hann haga þeirri endurskoðun?

2. Ætlar menntmrh. að afnema þá skerðingu námslána sem varð á árunum 1984–1986 með breyttum vísitöluviðmiðunum og útgáfu skerðingarreglugerða og veldur því að lánin eru nú nálægt 20% lægri en ella hefði verið?

3. Er menntmrh. reiðubúinn til að beita sér fyrir því að raunverulegur framfærslukostnaður námsmanna hérlendis og erlendis verði kannaður þar sem sú framfærsluviðmiðun, sem notast hefur verið við hér innan lands, er frá árinu 1973 — og er langt frá því að endurspegla raunveruleg útgjöld námsmanna — og svipuð gagnrýni hefur komið fram á framfærsluviðmiðun námsmanna erlendis?"

Fyrsta spurningin skýrir sig sjálf, en varðandi aðra spurninguna, um skerðingu námslána, er rétt að minna á að á þeim tíma, frá hausti 1985, þegar námslán voru um 19 þús. kr., hefur vísitala framfærslukostnaðar hækkað um 55% en námslánin á sama tíma einungis um 30%. Það er þessi mismunur eða skerðing upp á um 20% sem námsmenn gera nú kröfu til og hafa lengi gert kröfu til að yrði afnumin. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. hafi orðið varir við kröfur, óskir og tilmæli námsmanna, bæði heima og erlendis, um að þessari skerðingu verði aflétt og námslánin reiknuð út samkvæmt þeirri viðmiðun sem var í gildi áður en skerðingar hófust á árinu 1985.

Varðandi framfærslugrunninn, þá er, eins og fram kemur í fsp., framfærsluviðmiðunin hér innan lands allt frá árinu 1973 að stofni til og sjá allir sem hana skoða að hún er langt frá því að endurspegla raunverulegan framfærslukostnað námsmanna í dag. Til að mynda eru námsmanni sem býr í eigin húsnæði eða leigir húsnæði úti á hinum almenna markaði ætlaðar 3391 kr. til að standa straum af húsnæði. En 8 m2 herbergi á Nýja Garði, sem er líklega ódýrasta húsnæði sem námsmenn eiga völ á, kostar 6 þús. kr. á mánuði. Einungis lítið brot námsmanna fær inni á görðum. Þeir sem þurfa að sækja út á hinn almenna markað búa gjarnan við þau kjör að leigja herbergi á 10–12 þús. kr. á mánuði eða litla íbúð á 20 þús. kr. og jafnvel meira. Þá sjá allir, einnig hv. þm. sem eru gjarnan tölvísir, að 3991 kr. duga skammt.

Það mætti nefna fleiri hliðstæða liði úr framfærslugrunninum, til að mynda bækur og ritföng. Í þann lið eru ætlaðar tæpar 1400 kr. á mánuði, en samkvæmt upplýsingum frá bóksölu stúdenta er sú tala nálægt því að vera algengt verð á einni einustu kennslubók. Sjá þá allir að lítið er orðið eftir af þeim lið þegar búið er að kaupa bækur og ritföng til vetrarins.

Sama mætti segja um fæði, fatnað og annað það sem lagt er til viðmiðunar í þessum bráðum 15 ára gamla grunni sem notast er við. Það er rétt að hafa í huga, þegar hæstv. menntmrh. svarar þessari fsp., að nú nýlega hefur meiri hlutinn í stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna hafnað óskum fulltrúa námsmanna þar um að þessi framfærslugrunnur verði leiðréttur og skerðingin afnumin og því beinast augu manna mjög að hæstv. menntmrh. þegar hann svarar þessum spurningum.