26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

51. mál, námslán

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin þó þau væru ekki sérlega upplífgandi sum hver. Ég vil í sambandi við svar hans við 1. spurningu spyrja: Er meiningin að leita til stjórnarandstöðunnar einnig um fulltrúa í nefnd sem starfi að endurskoðun laganna? Hæstv. ráðherra nefndi stjórnarflokkana og samtök námsmanna, en sú var tíðin að stjórnarandstaðan var einnig höfð með í ráðum í þessum efnum.

Í sambandi við 2. liðinn endaði hæstv. ráðherra á því eftir langan talnalestur að segja nei. Það stendur sem sagt ekki til að afnema þessa skerðingu. Viðbárur hæstv. ráðherra varðandi það að breytt tekjuviðmiðun kæmi þar upp í að einhverju leyti eru nú næsta óburðugar. Það hjálpar að sjálfsögðu ekki hinum sem ekki hafa möguleika á því að bæta sér upp skerðingu námslána með aukinni vinnu eða einhverjum öðrum hætti þó að einhverjir kunni að geta gert það.

Eitt gott við lögin um námslán og námsstyrki er að þau eru skýr. Þau kveða að vísu ekki á um einhverja tiltekna vísitöluviðmiðun, en þau kveða skýrt og afdráttarlaust á um að það beri að lána námsmönnum 100% miðað við metna framfærsluþörf og sú metna framfærsluþörf hlýtur að eiga að byggjast á bestu fáanlegum upplýsingum um raunverulegan framfærslukostnað námsmanna. Það er ekki hægt að skilja þessi lög öðruvísi.

Það er alveg ljóst, og það kom fram í svari hæstv. menntmrh., að þrír hæstv. ráðherrar Sjálfstfl. í menntamálum hafa hringlað fram og aftur með þessar viðmiðanir og það var ekki fallegur lestur. Einu sinni átti að miða þetta við ráðstöfunartekjur, svo kom annar ráðherra sem frysti þetta allt með reglugerðum og nú er kominn þriðji hæstv. menntmrh. frá Sjálfstfl. sem er með enn eina hugmyndina um hvernig er hugsanlega hægt að hafa þetta. Það er meiri stefnufestan sem þessi flokkur hefur í þessum málum. Það er engin leið að lesa lögin öðruvísi og skilja þau öðruvísi en svo að það er brot á lögunum að lána ekki samkvæmt framfærsluþörf, bestu fáanlegum upplýsingum um hana, 100%. Það er ljóst að hér hafa átt sér stað stórfelld lögbrot á undanförnum árum. Ég vil enn minna á að þegar samkomulag var gert á árinu 1982 milli námsmannahreyfinganna og Alþingis og lögin voru sett voru endurgreiðslureglur hertar gegn því að lánin væru 100%.

Varðandi framfærslukönnunina taldi hæstv. ráðherra að það væri erfitt mál í framkvæmd. Ég held að það skipti ekki máli í sjálfu sér hvort það er auðvelt eða erfitt. Það er verk sem einfaldlega verður að framkvæma. Ég lýsi efasemdum um að það sé skynsamleg ráðstöfun að vísa því alfarið til stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna, sbr. viðbrögð íhaldsmeirihlutans í þeirri stjórn sem hefur með frægri bókun frá 5. nóvember í raun og veru sagt að þetta sé allt í himnalagi. Það er ekki hægt að sleppa því, herra forseti, að lýsa megnustu óánægju með störf þessa meiri hluta Lánasjóðs ísl. námsmanna sem ekki stendur í stykkinu, þ.e. reynir ekki með störfum sínum að tryggja að hægt sé að framfylgja lögum um námslán og námstyrki á viðunandi hátt.