26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

51. mál, námslán

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá að gera örstutta athugasemd og harma að þingsköp leyfa ekki ítarlega umræðu um þetta mál. En ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu og lýsa því yfir að mér er reyndar með öllu óskiljanlegt hvers vegna menn vefja það svo fyrir sér að kanna þetta ástand og endurskoða framfærslugrunninn. Það er alveg ljóst að ástandið er misjafnlega slæmt. Sums staðar komast menn sæmilega af á námslánum, annars staðar rétt skrimta menn og sums staðar er ástandið raunverulega mjög slæmt, jafnvel í sumum tilvikum lífsháskalegt, og þá á ég við námsmenn erlendis þar sem menn eru farnir að spara við sig í sambandi við húsnæðismál, þurfa jafnvel að leigja í óíbúðarhæfu húsnæði, heilsuspillandi og innan um misindismenn. Um þetta hafa orðið alvarleg dæmi og á því berum við ábyrgð. Það er að mínum dómi fullkomið ábyrgðarleysi ef menn þrjóskast við að kanna þetta mál og tryggja farsæla lausn þess.