26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

51. mál, námslán

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka virðulegum forseta fyrir að gefa mér tækifæri til að gera stutta athugasemd. Það er ekki smekklegt af hæstv. menntmrh., sem veit að ég hef lokið ræðutíma mínum, að koma með rangfærslur og ásakanir í garð ríkisstjórnar sem starfaði fyrir mörgum árum. Staðreyndin er sú og það ætti hæstv. menntmrh. að vita, sem við skulum gera ráð fyrir að þekki til sögu námslána, að á þeim árum sem Alþb. var í ríkisstjórn var einmitt sú löggjöf sett sem nú er unnið eftir eða ætti að vinna eftir og á þeim árum voru námslánin að hækka stig af stigi í 100%. Það var svo fyrsti menntmrh. í samstarfi við hv. Sjálfstfl. sem byrjaði á því að fresta þeim áföngum.

Ég vil svo nota þetta tækifæri til að mótmæla nú þegar því ef ekki er meiningin að hafa fulltrúa frá stjórnarandstöðunni í samstarfi um endurskoðun námslána. Á sínum tíma var það samstarf unnið og þá var Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu. Fulltrúi hans, Friðrik Sophusson, var með allan tímann sem unnið var að endurskoðun laganna sem leiddi til lagasetningarinnar 1982. Ég lýsi formlega mótmælum fyrir hönd Alþb. ef ekki er meiningin að hafa stjórnarandstöðuna með í þessu samstarfi frá upphafi.