26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

57. mál, stytting námstíma til stúdentsprófs

Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans svör við þessari fsp. og fagna því sérstaklega að hann hyggst beita sér fyrir könnun á þessu atriði með því að setja á laggirnar sérstakan starfshóp í þessu skyni. Ég gat þess áðan að Kennarasamband Íslands hefði beitt sér fyrir ágætu framtaki varðandi nýja skólastefnu. Ég teldi eðlilegt að haft yrði samráð við hagsmunasamtök kennara þegar haldið verður áfram frekari könnun á þessu sviði.

Þetta mál er ekki einfalt, eins og fram kom í svari ráðherra, og ekki endilega víst að allir séu sammála um að það sé rétt stefna að stytta námstíma til stúdentsprófs almennt. En það tengist fleiru, eins og t.d. því málefni sem hér var til umræðu á undan, vegna þess að það getur haft áhrif á hvort námsmenn almennt bíða með að stofna fjölskyldur þangað til háskólanámi er lokið eða hvort það verður almennt ofan á, eins og er nú í mörgum tilfellum í dag, að fólk byrjar að stofna fjölskyldur og hefur af því mikinn framfærslukostnað og lánsfjárþörf þegar í upphafi háskólanáms og er með sínar fjölskyldur á framfæri, jafnvel í löngu námi, langt fram eftir þrítugsaldri. Allt hefur þetta áhrif.

En ég fagna því að menntmrh. ætlar að láta skoða málið á breiðum grundvelli.