15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

Síðustu efnahagsákvarðanir ríkisstjórnarinnar

Júlíus Sólnes:

Hæstv. forseti. Heiðraði þingheimur. Það er kærkomið að fá tækifæri til að ræða efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Almenningur og þm. hafa verið að fá hana í smáskömmtum allt frá því að stjórnin var mynduð í júlí eftir erfiðar fæðingarhríðir.

Eins og kom fram í máli hv. 5. þm. Reykn., málshefjanda þessarar umræðu, virðist almenningur ekki botna upp né niður í efnahagsstefnunni. Það sem verra er að svo virðist sem þm. stjórnarflokkanna og sumir ráðherranna skilji hana ekki heldur. Þessi umræða hefur því verið nauðsynleg og einkar gagnleg, en því miður held ég að efnahagsstefnan sé eftir sem áður jafnóskiljanleg flestum.

Fyrsta plaggið sem birtist var stefnuyfirlýsingin og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar. Þar er að finna mörg fögur fyrirheit og góðar tillögur. Hugmyndasmiðir ríkisstjórnarinnar virðast hafa fengið sumar þeirra að láni úr stefnuskrá Borgarafl. Okkur þykir vænt um að hafa þannig getað orðið að liði. Ef gömlu flokkarnir vilja taka að sér að hrinda í framkvæmd ýmsum af stefnumálum okkar skal ekki standa á þm. Borgarafl. að styðja þá í því. Ég tel þó nokkuð víst að málin væru betur komin í okkar höndum. Af því kemur eflaust fyrr en seinna.

Fjárlagafrv. hefur verið lagt fram og margendurskoðuð þjóðhagsáætlun. Þessi plögg hafa verið endurskoðuð frá degi til dags í takt við nýjar óskir og hugmyndir ráðherranna og mikill pappír farið til spillis. Það sem vekur mesta athygli er eftir sem áður ósamlyndið og sundrungin innan ríkisstjórnarinnar. Á því virðist leika nokkur vafi hvort sumir ráðherranna og ýmsir stjórnarþm. styðja frv. Hafa þeir gert ýmsa fyrirvara varðandi fjárlagafrv. sem hlýtur að teljast í hæsta máta óvenjulegt.

Fátt er svo með öllu illt að ekki boði eitthvað gott. Í fyrsta sinn í langan tíma eða allt frá því að Albert Guðmundsson, þáv. fjmrh., lagði fram fjárlagafrv. með tekjuafgangi fyrir árið 1986, er gert ráð fyrir hallalausum rekstri ríkissjóðs. Þá er enn fremur gert ráð fyrir að fyrir hönd ríkissjóðs verði ekki tekin nein erlend lán á næsta ári. Betur að rétt reynist. Ég tel að allir landsmenn séu sammála um að hallalaus ríkisrekstur og minnkandi erlendar skuldir séu af hinu góða. Þetta eru því hinar jákvæðu hliðar frv.

Hins vegar er spurt hvort þetta sé raunhæft. Eru hinar margvíslegu hliðarráðstafanir ekki of dýru verði keyptar? Í frv. er reiknað með því að ríkissjóður taki innlend lán, 4,2 milljarða kr., þar af um 3 milljarða með verðbréfasölu eða sölu spariskírteina og reyndar er þá eftir að innleysa gömul spariskírteini að upphæð 2,7 milljarðar kr. Eins og hv. 6. þm. Norðurl. e. benti á í ræðu sinni áðan eru vextir umfram verðtryggingu á útlánum sumra banka komnir í 9%. Með slíkri skuldabréfasölu ríkissjóðs, eins og hér er að stefnt, má reikna með að raunvextir fari í 10–12%. Má öllum vera ljóst að atvinnulíf landsmanna verður nánast lagt í rúst með þessum hætti svo að ég tali ekki um hvernig hinn almenni launþegi ætlar að fara að. Hér er enn verið að skerpa á skilunum milli þeirra sem eiga og þeirra sem eiga ekki. Í rauninni er verið að stefna að því að stéttaskipting á Íslandi verði eins og tíðkaðist á Bretlandi á 19. öld. Hún byggir á hyldýpinu milli fjármagnseigenda og venjulegs fólks.

Í tíð fyrrv. fjmrh. var mikil óstjórn á fjármálum ríkisins er náði hámarki með útaustri á ríkissjóði í formi aukafjárveitinga skömmu fyrir alþingiskosningarnar í vor. Er hér um að ræða kosningavíxil Sjálfstfl. Enginn veit hver verður hallinn á ríkissjóði fyrir árið 1987, en hann mun hlaupa á mörgum milljörðum kr. Við myndun ríkisstjórnarinnar var þessi fjárlagahalli eitt erfiðasta málið og leiddi af sér hinar mjög svo furðulegu fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Með því að leggja á nýjar álögur og skatta sem koma fyrst og fremst niður á almenningi og heimilunum, t.d. matarskattur, viðbótarálögur og gjöld af bifreiðum, hækkun á allri þjónustu svo að eitthvað sé nefnt, átti að greiða niður kosningavíxilinn.

Mig langar til að fjalla um einn þátt þessara fyrstu aðgerða í efnahagsmálunum sérstaklega, en það er söluskattur sem settur hefur verið á tölvur og hugbúnað. Albert Guðmundsson felldi niður aðflutningsgjöld af tölvum og hugbúnaði í tíð sinni sem fjmrh. Þetta varð þess valdandi að á Íslandi hefur orðið mjög merkileg þróun í tölvunotkun og hugbúnaðargerð hin síðari árin. Höfum við náð umtalsverðu forskoti á þessu sviði miðað við hin Norðurlöndin. Þegar komið er í stærstu tækniskóla í álfunni vekur það athygli hversu tölvubúnaður er þar fátæklegur miðað við það sem gerist á Íslandi. Lítil hugbúnaðarfyrirtæki hafa náð undraverðum árangri á erlendum mörkuðum með sölu á tölvuforritum og þannig mætti lengi telja. Það er mikil skammsýni að ætta að stemma stigu við þessari jákvæðu þróun fyrir nokkra tugi millj. upp í kosningavíxilinn. Hér er um að ræða framtíðina, hvernig við ætlum að skapa ný atvinnutækifæri fyrir það unga fólk sem er að taka við í þessu landi.

Þessar ráðstafanir færa okkur heim sanninn um að gömlu flokkarnir skilja ekki tæknibyltinguna og virðast hræðast hana. Það leikur enginn vafi á því að upplýsinga- og tækniöld hefur haldið innreið sína hér á Íslandi. Borgarafl. hyggst nýta sér hana til hins ýtrasta og vinna að því með góðum málum að hún færi okkur ný atvinnutækifæri og bjartari framtíð.

Nú þegar fjárlagafrv. er lagt fram er hins vegar gert ráð fyrir því að slá niður fjárlagahallann í einu höggi. Af því að almenningur er vanur því að taka við byrðunum sem stjórnmálamönnunum þóknast að skella á hann möglunarlaust þótti hæstv. fjmrh. sjálfsagt að bæta um betur. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var gert ráð fyrir að fjárlagahallinn skyldi jafnaður á þremur árum. En sem sagt: Nú á að slá fjárlagahallann niður í einu höggi. Og hverjir eiga að þola það? Að sjálfsögðu fólkið í landinu sem með auknum skattaálögum á að taka þetta á sig eins og aðrar byrðar.

Í hvert sinn sem launamaðurinn getur gengið uppréttur og sér fram á eilítið bjartari framtíð, eins og má segja að hafi verið farið að hilla undir á síðasta ári, eru alltaf einhverjir hagfræðingar og sérfræðingar sem hrópa: Úlfur, úlfur. Það er komin þensla. Það þarf endilega að fara að lækka launin aftur því að þetta er ekkert vit. Það er kominn allt of mikill kaupmáttur hjá fólki.

Ég verð að segja eins og er að það er langt í land með það að kaupmáttur almennings á Íslandi nálgist það sem er í næstu nágrannalöndum okkar. Þannig er það mikil skammsýni að halda því fram að kaupmáttur hér á Íslandi sé orðinn svo hár að það sé komin þensla í efnahagslífi þjóðarinnar. Ef einhver þensla er í efnahagslífi þjóðarinnar er hún af öðrum orsökum.

Ég mundi vilja halda því fram, eins og hefur komið fram í máli manna hér fyrr í dag, m.a. í ræðu málshefjanda þessarar umræðu, að kjarasamningar hafi verið sviknir hvað varðar loforð ríkisins um ákveðnar forsendur fyrir þeim kjarasamningum sem voru gerðir á síðasta ári. Hefur fjmrh. t.d. orð einhverra miðstjórnarmanna í Alþýðusambandi Íslands fyrir því að um engin svik sé að ræða? Ég hefði gaman af að fá skýringar hans á því. Fjárlagafrv. einkennist annars aðallega af sparðatíningi. Reynt er að skera niður ótal smáfjárveitingar til menningarmála, íþróttamála, vísindastofnana svo að dæmi séu tekin. Lítið sem ekkert er reynt að eiga við hina stóru málaflokka, t.d. eins og heilbrigðis- og tryggingamálin sem eru þó langstærsti hluti útgjalda ríkisins. Þar væri eftir einhverjum peningum að slægjast og hefði verið nær að eyða meiri orku og vinnu í að skoða þann málaflokk betur.

Sem dæmi um þá skammsýni sem fjárlagafrv. byggir á langar mig til, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í bréf sem þm. hefur borist frá Starfsmannafélagi Orkustofnunar. Þar er sagt frá því að til skyndilegra fjöldauppsagna Orkustofnunar hafi komið hinn 30. sept. sl. Þar hafi 19 manns fengið uppsagnarbréf og stefnt er að því að strika 9 manns til viðbótar út af launaskrá á næstunni. Hér er um að ræða marga af færustu og þekktustu vísindamönnum þessarar þjóðar á sviði jarðhitarannsókna og jarðvarmatækni. Hér er um að ræða menn sem hafa aflað sér geysilega verðmætrar menntunar og þekkingar og hafa með vinnu sinni vakið athygli víða um heim. Hvað eiga þessir menn að gera? Eiga þeir að gerast pylsusalar? (Gripið fram í.) Bæði pylsusalar og vísindamenn eru mjög velkomnir í Borgarafl. því að við getum rætt við alla menn og þeir eru velkomnir til að starfa með okkur að stefnumálum sem við munum vinna að.

En mig langar til að rifja það upp að í tíð Alberts Guðmundssonar sem iðnrh. var unnið ötullega að því að skapa ný verkefni einmitt fyrir vísindamenn okkar á erlendum vettvangi. Þar var stefnt að því að hægt væri að flytja út íslenska þekkingu og íslenskt hugvit. Á síðustu vikunum sem Albert Guðmundsson gegndi embætti iðnrh. var verið að vinna að því að ljúka við samningagerð við bæði Kenýamenn og Kínverja um viðamikið rannsóknaverkefni sem íslenskum sérfræðingum var ætlað að vinna. Því miður lá svo mikið á að koma honum út úr ríkisstjórninni að það vannst ekki tími til að reka smiðshöggið á þessa samninga. Því hafa engir samningar náðst um þessi verkefni og í stað þess að reyna nú að leita nýrra verkefna af hálfu ríkisstjórnarinnar fyrir vísindastofnun sem Orkustofnun er gripið til þess ráðs að skera fjárveitingar til hennar niður, segja öllu starfsfólkinu upp.

Þetta er í hnotskurn, má segja, hvernig fjárlagafrv. er hugsað. Það byggir á því að skera niður smáfjárveitingar hér og þar, láta mikilvægar stofnanir ríkisins nánast gufa hreinlega upp, en lítið sem ekkert reynt að skoða stóru málin. Það er því ekki nema von að það sé boðað til þessarar umræðu utan dagskrár. Það er fyllilega tími til þess að það sé farið að ræða efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, reynt að gera almenningi grein fyrir því á hverju hún byggist, en eins og ég gat um áðan í upphafi ræðu minnar held ég því miður að eftir þessa umræðu sé hún jafnillskiljanleg öllum og áður.