26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

62. mál, ráðning í stöðu þjóðgarðsvarðar

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka vissulega hæstv. menntmrh. fyrir svör hans þó að ég sé, af eðlilegum ástæðum langt frá því ánægð með þau. Ég bjóst raunar ekki við því að fá þá réttlætingu á þessum málum sem ég gæti sætt mig við, en það er auðvitað spurning um mat.

Hæstv. ráðherra minntist á minnispunkta um helstu starfsþætti þjóðgarðsvarðar í Skaftafelli og las nokkra þeirra upp. Það væri vissulega ástæða til þess að lesa þá alla, það er mjög upplýsandi, að skoða þessa þætti og ég vil aðeins lesa hérna upp einn punkt sem þar kemur fram, að þjóðgarðsvörður eigi „að sinna því að hafa yfirlit yfir náttúrufræðirannsóknir í héraðinu og jafnframt ástunda eigin rannsóknir í þjóðgarðinum eða nágrenni hans“.

Ég skil vissulega aðstöðu ráðherra, mér finnst sjálfri erfitt að fjalla um svona mál á opinberum vettvangi. Mönnum hættir til að persónugera í tilvikum sem þessum sem er að sjálfsögðu alrangt. Það má fyrir alla muni ekki villa okkur sýn. Þetta er spurning um grundvallaratriði og vinnubrögð.

Við 3. lið fsp. fékkst í sjálfu sér svar þegar hæstv. ráðherra endurskipaði formann og varaformann Náttúruverndarráðs fyrir næsta starfstímabil, en þessar spurningar voru samdar áður en það gerðist og eins og ég lýsti áðan hafði ég hug á því að ræða þetta áður en til þingsins kæmi.

Ég vil svo aðeins að lokum, herra forseti, minnast á enn einn þátt þessa máls sem er sá að sá umsækjandi sem mesta menntun og starfsreynslu hefur er reyndar kona og gafst því Náttúruverndarráði gulltryggt tækifæri til að sýna að konur þyrftu ekki á sérstökum stjórnvaldsaðgerðum að halda til að fá notið hæfileika, menntunar og reynslu. Þetta tækifæri var látið ónotað. Hér var því ekki eingöngu um það að ræða að mínu mati að faglegum forsendum væri ýtt til hliðar heldur gæti hér verið um að ræða brot á jafnréttislögum og sýnir þetta betur en nokkuð annað að við setjum ekki lög um hugarfar. En þessi þáttur málsins er í athugun á réttum vettvangi.