26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

62. mál, ráðning í stöðu þjóðgarðsvarðar

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Mér finnst nauðsynlegt þegar svona mál er rætt, um stöðuveitingar eftir að staða hefur verið veitt, að það sé ljóst að það er ekki verið að gagnrýna þann sem hefur verið valinn til starfsins. Ráðningin er á ábyrgð Náttúruverndarráðs og ráðherra tók undir að það hefði verið staðið rétt að máli. Hann gat um afstöðu náttúruverndarþings. Ég tel að þar hafi kannski ekki öll sagan verið sögð varðandi afgreiðslu tillögu á þinginu.

Ég vil að það mat mitt komi fram að ég tel að forsendurnar fyrir þessari ráðningu til þjóðgarðsvarðarstarfa, hvort sem er í Skaftafelli eða annars staðar, hafi ekki verið rétt fyrir lagðar af Náttúruverndarráði. Ég er þeirrar skoðunar að forgang til slíkra starfa eigi að hafa menn sem hafa öðlast náttúrufræðilega menntun af einhverju tagi, háskólapróf helst í þeim greinum, vegna eðlis starfsins, vegna þess að þjóðgarðarnir eru svæði sem eru sett á laggirnar til að vernda lífríki þeirra og jarðmyndun. Það er að sjálfsögðu miklu tryggara að þeir sem eiga að gæta þess að svo sé hafi tilskilda undirstöðumenntun. Þetta vona ég að verði haft í heiðri í framtíðinni þegar ráðið verður í slík störf og ég tel að það sé í rauninni slys af hálfu Náttúruverndarráðs að hafa ekki skýrt forsendur fyrir ráðningunni sérstaklega.

Þetta er ekki gagnrýni á þann sem var valinn til starfsins. Hans er ekki nein sök í þessu máli. Hann var ráðinn með réttum hætti af réttum aðila og gagnrýnin beinist ekki að honum. Ég hef þegar boðið hann velkominn til starfa.