26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

104. mál, mælingar á geislavirkni á Íslandi

Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrmrh. svarið, en því miður kom þar fram, eins og ég reyndar vissi, að nauðsynleg fjárveiting til þess að geta nýtt sér þessa miklu tækniaðstoð og aðra aðstoð sem á að leggja Íslendingum í té er ekki fyrir hendi. En ég óska honum góðs gengis í því að reyna að ná þeirri leiðréttingu fram í fjárlögum. Mér er kunnugt um að þessi liður var inni í fjárlögum þangað til í síðustu endurskoðun. Þá féll hann þar út.

Það þarf í rauninni ekki að ítreka það hvað það er nauðsynlegt fyrir okkur að hafa samband við önnur lönd varðandi þessi mál því að mengun og ekki síst mengun af völdum kjarnorku eða kjarnorkuúrgangs þekkir engin landamæri.

En það er tvennt sem við þurfum að hafa í huga og sem við getum ekki ráðið við með nokkru móti og styður það að við verðum að halda þessum mælingum uppi. Það er annars vegar ófullkomleiki mannsins, þ.e. hann kann að ráða nokkurn veginn 100% við tæknilega hlið mála og tæknilegt eftirlit, en meðan hann er nú enn þá gæddur tilfinningum og skynjunum og háður sveiflum líkama og sálar og er ekki ódauðlegur, ræður hann ekki við slys vegna mannlegra mistaka. Og í heimi þar sem máttur markaðarins er slíkur að það virðist sett ofar öllum markmiðum og verðmætum að trufla ekki lögmál hans eða gengið út frá því að hagur markaðarins sé ávallt hinn sami og hagur fólks og þjóða, er ekki hægt að treysta því að mengunarvarnir hvers konar séu ekki í lágmarki. Oft er reynt að fara í kringum lög, losa sig á hagkvæman hátt við hættulegan úrgang með sem minnstum tilkostnaði. Og því er það eins og oft áður spurning um forgangsröð og gildismat. Því er leitt ef í fjárlögum endurspeglast sama gildismat og forgangsröð.

Það sem ekki verður í askana látið á oft minna fylgi að fagna en hitt sem talið er að rati þangað. Ef við vanrækjum eftirlit með umhverfi okkar og fiskimiðum kann að fara svo að fiskarnir okkar rati nú ekki lengur í askana.