26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

112. mál, samfélagsþjónusta sem úrræði í viðurlagakerfinu

Fyrirspyrjandi (Salome Þorkelsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans og fyrir að hafa brugðist skjótt við fyrirspurn minni og skipað þessa nefnd. Af eðlilegum ástæðum er ekki hægt að skýra frá hvað líður störfum hennar, en væntanlega hraðar nefndin störfum eftir því sem kostur er.

Ég vil geta þess að í nýjasta hefti Tímarits lögfræðinga er mjög athyglisverð og góð umfjöllun einmitt um samfélagsþjónustu hjá ýmsum þeim þjóðum sem hafa tekið hana upp.

Ég ítreka að hér er um þýðingarmikinn þátt, sem snýr að stöðu refsivistar í viðurlagakerfinu, að ræða og það er vissulega full ástæða til að kanna þá leið ásamt öðrum nauðsynlegum úrbótum á fangelsismálum hér á landi.